8.3.2021 | 16:32
Azar Shokoofeh: Uppljómun í eðalplómutrénu
Enn og aftur stækkar Angústúra heim minn með því að gefa út bók frá menningarheimi sem ég hef litla þekkingu á. Í bókinni Uppljómun í eðalplómutrénu fjallar Azar Shokoofeh um líf fjölskyldu í Íran á tímum byltingarinnar 1979 og það sem gerðist í kjölfar byltingarinnar.
Sagt er frá lífi fimm manna fjölskyldu sem flytur frá Teheran í afskekkt þorp.Þannig hyggja þau sleppa við ástand sem hafði skapast í höfuðborginni eftir byltinguna . En armur harðstjórans er langur og teygir sig líka til þessa litla þorps. Fjölskyldufaðirinn er menntamaður og listamaður. Hann hefur sérstaklega lagt sig eftir að sanka að sér og rannsaka forna menningu þjóðar sinnar. Húsið er fullt af bókum hljóðfærum og listaverkum.Það er e.t.v. ekki alls kostar rétt að tala um fimm manna fjölskyldu, önnur dóttirin fórst í bruna fyrir flutninginn. En hún fylgir þeim sem andi og það er hún sem er sögumaður í þessari sögu.Í þessari sögu er heimurinn stærri, víðari og dýpri en sá raunheimur sem við höfum lært að sé sannur og réttur. Því þar koma við sögu margvíslegir huldar vættir svo sem dísir, náttúruvættir og afturgöngur. Mér þykir líklegt að höfundurinn grípi til þessa sagnamáta til að lýsa heimi sem er of hræðilegur til þess að raunsæ frásögn nái að lýsa honum. Þetta voru afdrifarík ár. Það var ekki nóg með að gerð væri bæði trúarleg og veraldleg bylting, það stóð yfir langvarandi stríð við Írak. Í bókinni er m.a. lýst hvernig kornungir menn voru tældir á vígvöllinn til að verða píslarvottar.
Uppljómun í eðalplómutrénu
Heiti bókarinnar vísar til þess þegar móðirin í fjölskyldunni klifrar upp í tré og uppljómast nákvæmlega á sama tíma og sonur hennar var tekinn af lífi.Hún á síðan eftir að sitja uppi í hæsta trénu í skóginum í þrjá daga, þrátt fyrir mótmæli fjölskyldu sinnar. Mér finnst merkilegt hvað ég upplifði mikla samsvörun með því yfirnáttúrulega sem hér er lýst og íslenskra sagna um álfa og huldar vættir og dvöl móðurinnar í trénu fær mig til að hugsa til Óðins og hins helga trés, Yggdrasils.
Þetta er mögnuð saga. Frásagan af bókabrennunni er stórkostleg. Það er ekki nóg með að úrvalsbókum sé brennt, karakterar bókanna lifna við í brunanum og kveina og biðjast vægðar.
Um höfundinn
Mig vantar orð til að lýsa þessari áhrifaríku bók og ætla að ljúka þessum pistli með því að segja frá höfundinum.Azar Shokoofeh er fædd 1972. Hún nemur bókmenntir í Teheran og vann um árabil sem blaðamaður. Hennar sérsvið var að fjalla um mannréttindi. Hún sat oftar en einu sinni í fangelsi vegna skrifa sinna og ákvað loks að flýja land 2011 og býr nú í Ástralíu. Þetta er fyrsta bókin hennar. Hún er skrifuð á Farsi og kom út í enskri þýðingu árið 2017.
Bókin kom út á íslensku árið 2020. Þýðandi bókarinnar er Elísa Björg Þorsteinsdóttir. Sólveig Hauksdóttir les bókina fyrir Hljóðbókasafn Íslands. Sólveig er góður lesari. Auðvitað get ég ekki dæmt um þýðingu bókarinnar er þó sannfærð um að hún er til fyrirmyndar, því bókin er á blæbrigðaríkri íslensku og afar áheyrileg.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.4.): 11
- Sl. sólarhring: 11
- Sl. viku: 53
- Frá upphafi: 189886
Annað
- Innlit í dag: 11
- Innlit sl. viku: 47
- Gestir í dag: 10
- IP-tölur í dag: 10
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.