22.2.2021 | 18:24
Hundagerðið: Sofi Oksanen
Þetta er ekki fyrsta bókin sem ég les eftir Sofi Oksanen. Þetta er fimmta bókin sem kemur út eftir hana á íslensku. Ég vissi því á hverju var von. Enginn yndislestur. Oksanen er samfélagsrýnir. Í bókum sínum fjallar hún gjarnan um hvernig ranglætið verður til, hverjir hagnast á að viðhalda því og hverjir verða fórnarlömb . Hún lætur sér ekki nægja að skoða yfirborðið , hún grefur fram það sem er undirliggjandi. Sjónarhorn þeirra sem tapa er annað en sigurvegaranna.
Sagan Hundagerðið hefst í Helsinki 2016. Þar situr kona á bekk og virðir fyrir sér fjölskyldu með smáhund og tvö börn, strák og stelpu. Allt í einu sest önnur kona hjá henni á bekkinn og virðist vera komin til að fylgjast með sömu fjölskyldu. Sú fyrr komna er sögukona bókarinnar, þekkir aðkomukonuna en langar ekki til að hitta hana. Þær eiga ýmislegt sameiginlegt í fortíðinni. Fortíð sem hún hélt að væri grafin og gleymd öðrum en henni. En nú hefur fortíðin vitjað hennar og sagan hverfur til Úkraníu og árið er 2006.
Aðalpersónan, sú sem segir söguna er nýkomin heim til Austur- Úkraníu eftir að hafa freistað lukkunnar sem fyrirsæta í Frakklandi en þangað fór hún kornung til að sjá fyrir sjálfri sér og styrkja fjölskyldu sína. Gæfan stóð ekki með henni . Í Úkraníu ríkir algjört öngþveiti eftir fall Sovétríkjanna. Fyrri innviðir eru hrundir, það er atvinnuleysi, sérstaklega austurfrá. Hver og einn reynir að bjarga sér og ungum konum býðst að gera út á líkama sinn og frjósemi. Það spretta fram fyrirtæki sem taka að sér að þjónusta barnlaust fólk, aðallega á Vesturlöndum með egg eða staðgöngumæðru, þegar allt um þrýtur. Sögukona okkar kemur sér fyrir á þessum markaði en ákveður um leið að hún ætlar sjálf að vera sú sem græðir. Hún hefur visst forskot eftir að hafa starfað erlendis. En þetta er harður heimur. Sá sem er tilbúinn til að fórna öðrum, fær oft að reyna að verða sjálfur fórnarlamb.
Aðalpersóna okkar hefur gert það gott. Hún hefur unnið sig upp í fyrirtækinu sem hún vinnur fyrir. Fyrirtækið státar sig af því að vera góðgerðarfélag. Það aðstoðar fólk við að eignast börn og er meira að segja öflugur styrktaraðili munaðarleysingjahælis. Það má því næstum segja að það verði í framtíðinni sjálfbært.
Sjónarhorn þessarar sögu er fyrst og fremst aðalpersónunnar. Einstaka sinnum er brugðið upp myndum utanfrá. Tónn frásagnarinnar er kaldur. Ég lesandinn, vil helst standa með þessari duglegu ungu konu en hrekk ítrekað við, þegar ég tek eftir því, hversu tilbúin hún er að hagræða sannleikanum og fórna öðrum konum.
Fátækt og spilling
Ég var í miðjum klíðum við að lesa þessa bók, þegar fréttirnar fóru að berast af morðinu í Rauðagerði og vangaveltum lögreglu og fjölmiðla um tengsl þess við fjölþjóðlega glæpastarfsemi. Tilfinning mín við lesturinn, magnaðist upp. Ég fór að velta fyrir mér tengslum fátæktar og spillingar. Er það fátæktin sem fæðir af sér spillingu? Eða er þessu öfugt farið? Og auðvitað stoppaði hugurinn ekki við útlönd. Því miður. En ég ætla ekki fara út í það hér.
Lokaorð
Bók eins og þessi ýtir svo sannarlega við manni. Oksanen hefur skarpa sýn og beitta tungu. Í hvert sinn sem ég les bók eftir hana, eflist trú mín á að standa vörð um mannréttindi, heiðarleika og lýðræði. Reyndar trúi ég líka að það sé mikilvægt að gæta þess, að auðurinn safnist ekki á fárra hendur. Ég held að það sé auðsöfnunin sem leiðir af sér spillingu. Ekki fátæktin.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.4.): 1
- Sl. sólarhring: 12
- Sl. viku: 45
- Frá upphafi: 189888
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 42
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.