13.2.2021 | 16:47
Gata mæðranna: Kristín Marja Baldursdóttir
Gata mæðranna.
Gata mæðranna eftir Kristínu Marju Baldursdóttur fjallar um Marin og lífið í einni götu á sjöunda áratugnum í Reykjavík, held ég. Tímasetningin hentar mér vel. Því það var einmitt þá sem ég kom fyrst til Reykjavíkur, ein á báti og þekkti engan. Það var því auðvelt fyrir mig að samsama mig með Marín. Hún kom til Reykjavíkur til að ljúka menntaskóla. Hún hafði búið hjá foreldrum sínum á Akureyri og verið í skóla þar, þegar ógæfan dundi yfir. Hún missti báða foreldra sína með skömmu millibili. Faðir hennar hafði lengi búið við vanheilsu en unga stúlkan hafði ekki hugmynd um að móðir hennar var líka veik. Móðirin sem vissi að hún gekk ekki heil til skógar náði þó að ganga frá því að hún skyldi ljúka náminu og búa hjá systur sinni Elísabetu, sem var gift kona í Reykjavík.
Þegar sagan hefst er skólinn því sem næst búinn og Marín vinnur á kvöldin við miðsölu í bíói. Það hafði verið erfitt fyrir hana að hefja nám í nýjum skóla, vina og vinkonulaus. En svo kynnist hún Kristófer og þau verða perluvinir. Verst er þó að systir hennar er truntuleg við hana. Hún telur eftir sér að hafa hana, er ónotaleg og útásetningarsöm. Auk þess ætlast hún til þess að hún vinni vistina af sér, sendist og gangi í húsverkin. Það kemur m.a. í hennar hlut að gæta strákormanna,Adda og Didda, sona hennar og þvo af þeim þegar þeir svína sig út og gefa þeim að borða. En henni þykir reyndar vænt um þá og finnst þeir vera eina ljósglætan í lífinu.
Marín er áhugalaus um nám sitt og veit ekkert hvað hún ætlar að verða. Kristófer vinur hennar er löngu búinn að ákveða að verða lögfræðingur og byrjaður að búa sig undir hlutverkið. Hún er ekki skotin í honum og á sér draumaprins, sem býr líka í götunni.
Marin er drátthög og stöðugt að rissa upp myndir. Í dauðu tímunum, á milli sýninga, situr hún og teiknar, lætur sig dreyma. Um leið og hún teiknar, spinnur hún upp fantsíusögur og gleymir sér þangað til viðskiptavinur birtist í miðasölulúgunni og ræskir sig. Þessar frásögur um teikningar Marínar og örsögunum sem fylgja gera þessa bók sérstaka. Það er eins og hún sé myndskreytt.
Systirin Elísabet nauðar stöðugt í Marín að nú að skóla loknum verði hún að útvega sér herbergi og sjá um sig sjálf. Þetta verður til að Marín fer að kynna sér hvort einhvers staðar í götunni sé herbergi til leigu. Hún talar við konurnar, konurnar ráða heimilunum en karlarnir draga björg í bú og ráða öllum stærri ákvörðunum.
Það var gaman að lesa/hlusta á þessa bók. Samt er tónninn í frásögninni kaldur og oft meinhæðinn. Það er höfundurinn Kristín Marja sem les. Hún gerir það vel og nær einkar vel að skila íroníunni þar sem hún á við. Auk þess skynjaði ég að söguhetjan Marín væri dofin af sorg og full vanmetakenndar.
Þótt gata mæðranna sé friðsemdargata, búa manneskjurnar sem við hana búa, hver yfir sinni sögu, mis áhugverðum. Og sagan sem Marín lifir í, tekur óvænta stefnu. Ég ætla ekki að rekja þessa sögu frekar hér. Ég vil þó benda kvenréttinda konum og körlum á, ef einhver skyldi lesa þetta, að sagan er ekki síst heimild um tíðaranda þessara ára. Hún fjallar um kjör og hugmyndir kvenna. Meira að segja gæðablóðið Kristófer hefur tekið eftir þessu og segir,Mér finnst eins og konur séu orðnar svo reiðar.
Líkt og ólíkt
Áður en ég las Götu mæðranna, las ég Götu bernskunnar eftir Tove Ditlevsen. Ósjálfrátt gerði ég samanburð í huganum á þessum tveimur bókum. Sumt er líkt, annað ólíkt. Í báðum tilvikum verður gatan eins konar persóna og í báðum tilvikum er stéttaskiptingin lúmskur óvinur, sem ræður örlögum fólks. En það sem er mest sláandi við þennan samanburð er að Gata kvennanna gerist öll á um það bil einu sumri en Gata bernskunnar fjallar um uppvöxt stúlku fram að tvítugu eða þar um bil. En auðvitað er framvinda sagnanna afar ólík.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.4.): 2
- Sl. sólarhring: 9
- Sl. viku: 46
- Frá upphafi: 189889
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 43
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.