5.2.2021 | 16:49
Yfir bænum heima :Kristín Steinsdóttir
Við sem erum blind eða sjónskert þurfum oft að bíða lengur eftir bókum en þeir sem geta keypt þær eða fengið þær lánaðar á bókasöfnum. Og ekki eru allar bækur lesnar inn.
Þegar bók Kristínar Steinsdóttur , Yfir bænum heima, kom loksins, tók ég því fagnandi. Kristín er Austfirðingur eins og ég og þess vegna finnst mér ég eiga eitthvað í henni og því sem hún skrifar.
Þessi bók fjallar um hernámið, sambúð hers og þjóðar. Í þessu tilviki sambúð Seyðfirðinga við setuliðið.Kristín byggir þessa sögu á minningum. Hún man ekki sjálf eftir stríðsárunum en elst upp með fólki sem man hernámið og auðvitað hefur hún sjálf unnið sína rannsóknarvinnu nú, þegar hún tekst á við að gera þessa bók.
Við lesendur fáum að kynnast Seyðisfirði stríðsáranna í gegnum fjölskyldu Snjólfs og Rúnu og barna þeirra; dætranna Ástu og Þrúðu og bræðranna Nonna og Ingimundar. Afstaða fólksins er ólík þótt þetta sé samstæð fjölskylda. Snjólfur er krati og vinnur að verkalýðsmálum. Það er kreppa og atvinnuleysi. Þegar vinna gefst er oft gengið fram hjá Snjólfi vegna skoðana hans og Rúna ákveður að taka kostgangara til að reyna að sjá fjölskyldunni borgið. Kostgangarnir og vinafólk fjölskyldunnar víkka enn sjóndeildarhringinn og viðhorfin til stríðsins. Já og síðar til hersins þegar hann kemur í bæinn.Í stað atvinnuleysis er rífandi vinna. Það eru lagðir vegir og byggðir braggar út um allt. Og ef menn hafa skoðun á þessu öllu saman skiptir hún ekki máli, því heimamenn ráða engu. Seyðfirðingum er kennt að lifa við stríðsástand. Þegar flauturnar gjalla eiga þeir að fara niður í kjallara og dúsa þar þangað til hættan er liðin hjá og flauturnar blása hana af. Þetta reynir á fólk.
Mér fannst merkilegt að lesa þetta, því ég hafði oft lesið um fólk í útlöndum sem þurfti að leita sér skjóls í kjöllurum eða loftvarnarbyrgjum, en aldrei hér.
Frásaga þessarar bókar af hernáminu ber keim af fólkinu sem segir söguna. Þetta er ekki saga mikilla átaka eða spillingar. Auðvitað verður til vinskapur og ástasambönd. En lífið er hverfult á stríðstímum. Bretarnir fara og Bandaríkjamenn koma í staðinn. Mér sýnist sem fólkið á Seyðisfirði sakni Bretanna, þótt Kaninn sé flottari og ríkari.
Lesandi er ekki bara móttökutæki, hann er túlkandi og fyllir jafnvel í eyður ef honum sýnist svo.
Mér fannst gaman að lesa/hlusta á þessa bók. Sem Austfirðingur átti ég þegar sem barn mína mynd af Seyðisfirði. Þar var menningarmiðstöð Austfirðinga. Þar höfðu verið gefin út blöð og prentaðar bækur. Föðursystir mín bjó þar en að vísu í sveitinni. Ég fór í heimsókn til hennar með ömmu minni með Esju eða Herðubreið. Ég var hissa á því hvað þarna voru margar búðir eða verslanir og skildi ekki á hverju Seyðfirðingar lifðu. Stríðið var víðsfjarri. Fannst mér.
Ég var fimm eða sex ára og logandi hrædd við flugvélar. Börn hlusta þegar fullorðnir tala. Fyrstu minningar mínar, þær allra fyrstu, eru um stríð. Ein lítil minning er um pabba sem var að flá sel í hlaðvarpanum á Streiti. Mér fannst gaman að horfa á og hann var líka duglegur að útskýra allt fyrir mér. Og þá kom flugvél sem lækkaði flugið og mig langaði til að flýja en var alveg máttlaus og gat ekki hreyft mig. Pabbi hélt áfram að flá selinn og nú útskýrði hann að nú væri líklega best að láta eins og ekkert sé. Þetta rifjaðist upp fyrir mér þegar ég var að lesa bók Kristínar.
Mér fannst bókin góð því hún nær að grípa hvernig stríðið snerti líf venjulegs fólks. Þetta er aldarfarslýsing stríðsáranna.
Myndin er frá Seyðisfirði, tekin í sumar.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.4.): 2
- Sl. sólarhring: 6
- Sl. viku: 46
- Frá upphafi: 189889
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 43
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.