22.1.2021 | 15:12
Ótti markmannsins við vítaspyrnu:Peter Handke
Ótti markmannsins við vítaspyrnu
Þessi titill á bók er í raun einn mest sláandi bókartitill sem ég man eftir. Bókin er eftir Austurríkismanninn Peter Handke, (fæddur 1942 ), sem fékk Nóbelsverðlaun 2019. Hún kom út á þýsku 1970.
Verðlaun gera gagn
Fyrir verðlaunin og þá miklu umræðu sem kom í kjölfarið vissi ég lítið sem ekkert um þennan rithöfund en hann er umdeildur fyrir skoðanir sem hann hefur sett fram um stríðið á Balkanskaga. Síðan þá hef ég lesið/hlustað á þrjár bækur hans.
Það er nokkuð um liðið síðan ég lauk lestrinum. Það tekur mislangan tíma að melta bækur og sumar bækur þarf að lesa oftar ei einu sinni til að fá botn í þær. Mér fannst bókin minna mig á einhverja aðra bók sem ég hafði lesið áður og var ekki í rónni fyrr en ég hafði fundið út, hver sú bók var. Vík að því síðar.
En fyrst um Ótta markmannsins Þýðingin er eftir vin minn Franz Gíslason (fæddur 1935 dó 2006). Hún kom út hér 2020. Ekki veit ég hvenær Franz vann að þessari þýðingu en það er Jón Bjarni Atlason sem býr þýðinguna til prentunnar og semur ítarlegan eftirmála.
Um hvað er bókin?
Sagan segir frá byggingarverkamanninum og fyrrverandi markverði, Bloch. Hún hefst þegar hann mætir til vinnu og yfirgefur síðan vinustaðinn fullviss um að honum hafi verið sagt upp. En svo var ekki. Sagan er í raun ein löng frásaga af hugsunum Blochs og því sem hann tekur sér fyrir hendur á ráfi hans, fyrst um heimaborg sína og síðan um landamæraþorp. Í fyrstu fannst mér þetta bara óvenjunákvæm og hlutlæg frásögn um hugarheim manns. Síðan áttaði ég mig á því, að ekki var allt með felldu. Það sem virtist vera nákvæm og hlutlæg lýsing var frásaga um sjúkan hug. Sjúkan mann. Eftir að mér varð það ljóst, breyttist lestur minn, athygli mín beindist að innri rökræðu mannsins og hvernig þessi innri rökræða leiddi hann afvega. Því er m.a. lýst nákvæmlega hvernig hann drepur konu. Það er næstum eins og ekkert hafi gerst. Þó veit hann fullkomlega hvað hann gerði. Þótt þetta sé vissulega saga um mann í geðrofi, held ég ekki að það sé eingöngu það sem vakir fyrir höfundi. Hann er ekki bara að segja frá ástandi geðveiks manns. Hann er að rannsaka tungumálið og hvernig það nýtist manninum og tengsl tungumálsins við hugsun. Hugsar tungumálið að einhverju leyti fyrir okkur? Nú finn ég að ég næ ekki utan um það sem mig langar til að segja. En þótt það geti virst óskemmtilegt að fylgja sjúkum manni eftir í rugli hans, tekst höfundi að segja þessa sögu á þann hátt að bókin heldur í mann. Er undarlega spennandi.
Á hvern minnti sagan?
Til að finna það út notaði ég útilokunaraðferðina, það var auðvelt, vegna þess að ég hef ekki lesið svo margar bækur á þýsku. Sagan heitir; Og sagði ekki eitt einasta orð eftir Heinrich Böll. Böll fékk Nóbelsverðlaunin 1967.
Auðvitað las ég þá bók líka til að sannreyna hvort og þá hvernig hún væri lík bók Handkes. Og auðvitað er hún allt öðru vísi en þó liggur einhver þráður á milli. Það sem er fyrst og fremst líkt með þessum tveim höfundum er tilfinningin sem maður fær meðan á lestrinum stendur.
Lokaorð
Báðar þessar bækur eru gefandi og eftirminnilegar.
Ég veit að von er á þýðingu á einni bók í viðbót eftir Peter Handke og hlakka til að lesa hana.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.4.): 2
- Sl. sólarhring: 6
- Sl. viku: 46
- Frá upphafi: 189889
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 43
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.