15.1.2021 | 19:59
Tíkin eftir Pilar Quintana
Ég veit ekki hvernig er best að lýsa þessari bók. Mér leið eins og ég væri sjálf nýflutt í þorp á landsbyggðinni, þar sem ætlast væri til að ég vissi allt sem máli skipti og gæti bjargað mér. En það getur náttúrlega enginn. Í Tíkinni er mér, lesandanum, dembt óviðbúnum inn í atburðarás sem ég kann ekki að túlka. Smám saman kynnist maður fólki og aðstæðum. En þó aldrei nógu mikið til að finnast maður tilheyri.Það tekur þrjár kynslóðir.
Þessi saga hefst á samtali. Konan sem afgreiðir á barnum segir Damaris að hún hafi misst tíkina sína frá 1o hvolpum.
Damaris
Á yfirborðinu er þessi saga um Damaris en í rauninni er hún um líf í smáþorpi og um náttúruna. Þessi náttúra er full af lífi og grósku, dauða og rotnun. Hún er svo ólík okkar náttúru, að á tímabili efaðist ég um eigin forsendur til að skilja. Þorpið hennar Damaris er í fjarlægri heimsálfu í landi sem sjaldan er fjallað um í fréttum og þá helst í sambandi við kaup á fíkniefnum.
Damaris tekur að sér einn af móðurlausu hvolpunum. Hann er svo lítill að hann er enn blindur og kann ekki að lepja. Þetta er tík, móðirin hefur drepist út af því að éta eitur.
Eiginmaður Damaris, Rogelio, er veiðimaður og þau eru barnlaus. Damaris hefur ekki tekist að verða ófrísk þótt hún hafi reynt öll þau ráð sem barnlausu fólki standa til boða þar um slóðir. Hún þráir að verða móðir. Hún annast því hvolpinn af mikilli ástúð og gefur honum nafnið sem hún hafði ætlað stúlkunni sem hún aldrei eignaðist.
Þorpið í sögunni er á Kyrrahafsströnd Kólombíu. Öðru megin er strönd og haf á hinn veginn er frumskógur.
Við upphaf sögunnar, þegar Damaris tekur tíkina í fóstur er hún kona sem er að reyna að sætta sig við barnleysið. En í þessu gróskumikla landi í jaðri frumskógarins trúir fólk því ekki, að nokkur kona kjósi sér eða sé sátt við barnleysi.
Áður
Lesandinn fær að vita sögu Damaris í bútum, jafnframt því sem sögunni vindur fram.Ef Damaris væri af okkar slóðum, myndum við tala um að hún hafi átt erfiða æsku. Hún er barn einstæðrar móður(pabbinn hljóp frá móðurinni , þegar von var á barni). Móðirin vinnur í næstu borg, kemur henni fyrir hjá systur sinni og borgar með henni þegar peningarnir endast. Móðirin deyr af slysförum þegar telpan er að verða 15 ára. Damaris heldur áfram að vera í fóstri hjá frænku sinni. En 17 ára kynntist hún Rogelio og þau flytja saman.
Enn áður
Þegar Damaris er á áttunda ári verður hún fyrir áfalli sem hún jafnar sig aldrei á. Hún er að leika sér við vin sinn og jafnaldra, son ríka fólksins í þorpinu. Þau eru í leik sem hann kallar LANDKÖNNUNARLEIÐANGUR. Þegar þau koma að hafinu langaði hann að bleyta á sér tærnar í sjónum. En aldan tók hann. Það sem gerði áfallið enn verra var að henni var kennt um slysið. Fósturfaðir hennar barði hana daglega þangað til líkið fannst. Foreldrar litla drengsins yfirgáfu húsið eftir slysið. Hún var sorgmædd. Seinna tóku Damaris og maður hennar að sér að sjá um húsið og fengu að búa í íbúð húsvarðar.
Það sem gerir þessa bók svo einstaka er að um leið og við fáum að vita talsvert um líf Damaris, fáum við að kynnast ættingjum hennar, nágrönnum og lífinu í þessu litla þorpi.
Mér finnst að ég viti heilmikið meira um þetta fjarlæga land eftir lestur þessarar litlu bókar, þótt þar sé ekki minnst á eiturlyfjabaróna.
Máttur náttúruaflanna umlykur tilvist mannsins. Á stígnum í skóginum fléttast rætur trjánna saman og krónur þeirra lokast yfir höfði manns. Stundum er eins og maður og náttúra renni saman í eitt. Ríka fólkið notar ál, asbest og gerviefni í húsin sín til að forða þeim frá því að verða náttúrunni að bráð.
Lokaorð
Ég finn að mér tekst ekki nógu vel að lýsa þessari góðu bók, hvað þá skýra hvers vegna mér finnst hún vera ein besta bók sem ég hef lesið. Ég gefst upp enda er besta leiðin fyrir þig lesandi minn að lesa bókina sjálfur.
Höfundur bókarinnar Pilar Quintana (fædd 1972) sló í gegn með þessari bók og er margveðlaunuð. Það er Jón Hallur Stefánsson sem þýðir hana á íslensku. Hann skrifar líka eftirmála og segir frá höfundi. Ég er full þakklætis. Olga Guðrún Árnadóttir les bókina fyrir Hljóðbókasafnið og gerir það vel eins og henni er lagið.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.4.): 2
- Sl. sólarhring: 6
- Sl. viku: 46
- Frá upphafi: 189889
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 43
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Maður fær eins konar Marquez tilfinningu ...
Góðar stundir.
Guðjón E. Hreinberg, 17.1.2021 kl. 14:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.