Líkami okkar, þeirra vígvöllur: Christina Lamb

3D66DC25-CA44-4138-8918-33BAB3F2831E
Líkami okkar,  þeirra vígvöllur

Ég hélt að ég hefði fylgst þokkalega vel með heimsfréttum en komst að því að ég vissi ósköp lítið. En það var ekki bara við  mig að sakast, það var svo margt sem ekki hafði komist í fréttir, stundum af því að fréttamönnum þótti það ekki fréttnæmt, stundum af því að það var of hroðalegt til að segja það.

Christina Lamb er breskur blaðamaður sem nú hefur skrifað bók um hvernig nauðgunum er skipulega beitt í stríði til að skaða baráttuþrek andstæðingsins með því að nauðga konum og stúlkubörnum. Þannig tekst þeim ekki bara að eyðileggja líf kvennanna, þeim tekst einnig að brjóta niður samstöðu fjölskyldna og vina. Þetta er hægt að gera af því kynlíf kvenna er svo hlaðið tabúum að það er ekki hægt að tala um það. Lamb nefnir sem dæmi  í bók  sinni fjölda tilvika þar sem nauðganir eru ekki nefndar á nafn þegar samið er um skaðabætur í lok styrjalda. Fyrir konurnar eru nauðganir verri en dauðinn. Fórnarlömbin eru skilin eftir helsærð með harm sinn og skömmina, sem fylgir því að hafa verið nauðgað.

Þótt búið sé að setja inn í alþjóðlega lagatexta að nauðgun sé glæpur… hefur ekki enn verið felldur einn einasti dómur.

Fórnarlömb styrjalda

Lamb  er reyndur blaðamaður. Í Írakstríðinu tók hún eftir að félagar hennar í blaðamanna  stétt vísuðu aldrei til kvenna varðandi heimildir. Ekki     ein einasta frétt var höfð eftir konu. Það var eins og þær væru ekki til. Síðan þá  hefur hún einbeitt sér að því að skoða afleiðingar styrjalda á  líf fólks, frekar en að fylgjast með því hvað er að gerast á vígvellinum eða  hver vann hverja orrustu. Saga stríða fjallar um karlmenn og er skrifuð af karlmönnum. Það hefur hvergi verið reistur minnisvarði með nöfnum kvennanna sem var nauðgað.

Í þessari bók kemur höfundur víða við. Hún tekur viðtöl við fjölda kvenna.   Hún talar við Jasídakonur sem hefur tekist að flýja ógnarstríð Ísis.   Hún hittir þær í yfirfullum flóttamannabúðum á  eynni Leros og enn aðrar í Þýskalandi.  Þar var tekið á móti stórum hópi kvenna sem voru greinilega veikar eftir áföll sem þær höfðu orðið fyrir og horft upp á.

Lamb heimsækir flóttamannabúðir Róhingja í Bangladesh og fær að vita að Róhingjar eru svo vanir því að reynt sé  að útrýma þeim, að þeir áttu orð í tungumálinu sínu sem þýðir þjóðarmorð. Lamb heimsækir Nígeríu í tvígang og hittir mæður skólastúlknanna sem var rænt. Hún bregður upp mynd af því sem virðist vonlaust ástand, annars vegar spillt stjórnvöld og hins vegar hryðjuverkasamtökin  Boku Haram.

Höfundur veltir hvað eftir annað fyrir sér eðli illskunnar án þess að komast að niðurstöðu. Á einum stað veltir hún fyrir sér hvort „stríðsmenningin“ yrði betri ef fleiri konur væru hermenn. Ég gef lítið fyrir þessar pælingar. Mér finnst nær að ræða hvernig menn, karlar jafn sem konur, geti lært að lifa án hernaðar.  

Hvað græði ég á því að segja sögu mína?

Spurði ein stúlkan blaðamanninn áður en hún gaf kost á viðtali. Kannski getur það orðið til þess að aðrar stúlkur sleppa við að upplifa það sama og þú, var svar blaðakonunnar Christina Lamb. Og akkúrat þetta er hugmynd hennar á bak við við þessa mögnuðu bók. Og það er líka hugmynd mín þegar ég segi ykkur frá henni. Mér finnst að okkur beri skylda til að setja okkur inn í hvað stríð þýðir í raunveruleikanum. Það er mikilvægt fyrir okkur að vita hvað flóttafólkið er að flýja og gera okkur grein fyrir því hvers konar líf bíður þess í flóttamannabúðunum.

Mér finnst þessi bók góð vegna þess að hún dregur upp heillega mynd af því sem fréttir láta oft ósagt. Hún skilur mikið eftir, eitt af því er þakklæti fyrir að búa ekki við stríð.

Titill bókarinnar, Líkami okkar,  þeirra  vígvöllur, segir í hnotskurn efni bókarinnar. Hann er hafður beint eftir einum viðmælanda.

Það sem gerir þessa bók eftirminnilega og hrífandi eru viðtölin við konurnar. Kannski ætti ég frekar að segja stelpurnar því margir viðmælendur hennar eru kornungar stúlkur. Fyrir mig er þetta eftirminnilegasta bók ársins. Mig langar til að sem flestir lesi hana  því hún miðlar mikilvægri  þekkingu sem  skiptir máli. Mér finnst hún eiga sérstakt erindi  til allra sem tengjast utanríkismálum og pólitík. Þannig á hún líka erindi til okkar sem kjósum fólk til forystu og viljum að Ísland sé stefnumótandi land í verkefninu að  bæta heiminn.  

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Takk fyrir þennan áhugaverða og fróðlegan pistil.

Tómas Ibsen Halldórsson, 6.1.2021 kl. 11:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 189889

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 43
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband