5.12.2020 | 18:03
Síðasta barnið: Guðmundur S. Brynjólfsson
Nú hefur Guðmundur S. Brynjólfsson lokið við síðustu bók sína í trílógíunni um sýslumannshjónin á Eyrarbakka, þau Eyjólf og Önnu. Sögurnar gerast á í upphafi 20. aldar. Hún ber nafnið Síðasta barnið. Tvær fyrri bækurnar hétu; Eitraða barnið og Þögla barnið. Það er best fyrir lesendur að lesa þær allar og í réttri röð. Þannig njóta menn best framvindu sögunnar í heild. Allar segja þær frá lífi sýslumannshjónanna Eyjólfs og Önnu. Eyjólfur er veiklunda en velmeinandi en Anna er heilsteypt og dæmalaust röggsöm. Í fyrstu bókinni var sagt frá fyrstu kynnum þeirra en ég skyldi ekki þá og því síður nú, hvað þessi glæsilega og gáfaða stúlka sá við manninn.
En ég ætla að reyna að halda mig við síðustu bókina. Nú er illmennið Kár Ketilsson komið til baka frá Englandi, fullur af hatri og staðráðinn í að hefna sín á sýslumannshjónunum. Í fyrstu bókinni tókst þeim að góma hann fyrir hrottalega nauðgun en honum tókst þá að sleppa.
Kár er búinn að vera hjá lýtalækni í Englandi til að láta gera sig óþekkjanlegan. Hann er nú afskræmdur og enn ógeðslegri en áður, þótt vart væri á það bætandi. Við þessa sögu kemur einnig enskur maður, Harrington lávarður, en hann hafði hitt Kár í London meðan á Englandsdvöl hans stóð.
Ég ætla ekki hér að rekja efni bókarinnar, það kynni að skemma lestur fyrir þeim sem hafa enn ekki lesið bókina, en langar að telja upp hvað það er sem mér finnst höfundur bókanna gera sérstaklega vel. Það gerir mér gott að skoða bókina í því ljósi.
Þá er fyrst að telja eða tala um hvað Guðmundi tekst að draga fram það sem vekur hjá manni ógeð, svo sem vonska og ljótleiki. Því næst finnst mér hann vera meistari í að lýsa náttúrunni. Honum er einkar lagið að lýsa veðurfari, veðrabrigðum og færð. Hann er snillingur í að nota, ljós og skugga. Síðast en ekki síst finnst mér hann skapa lifandi og eftirminnilegar persónur. Ég nefni sem dæmi sýslumannshjónin, Harrington lávarð, Eyrúnu, alþýðukonuna sem fóstraði Önnu sýslumannsfrú. Lýsing hans á Eyrúnu er hrein perla. Loks langar mig að nefna lýsingu hans á drengnum Snorra. Hún er svo tær að mér finnst eins og ég myndi þekkja hann á götu ef ég mætti honum. Ég ætla að stoppa þessa upptalningu hér, því það er of margt upp að telja. Þar að auki býr hann til skemmtilegar og eftirminnilegar týpur.
En það sem einkennir þessa bók umfram allt er að þetta er ekki bara saga um glæpi og aldarfar, þetta er fyrst og fremst saga um líf og dauða. Um harm og von.
Ef bókin væri málverk, væri það málað í sterkum litum og ég sé söguna frekar fyrir mér sem teiknimynd en kvikmynd. Það sem Guðmundur gerir þó allra best er, hvernig hann lýsir lífinu við upphaf 20. aldar. Hjá háum og lágum.
Vangaveltur um illskuna
Eini efinn sem ég sit með eftir lestur bókarinnar, er hvernig hann lýsir glæpamanninum. Hann er djöfull, illskan sjálf. Ég hef tilhneigingu til að leitast við að dæma gjörðir manna frekar en manninn sjálfan. Og vona síðan í lengstu lög að eitthvað gott leynist með hverjum manni. En þessar vangaveltur snúast trúlega frekar um heimspekilegar og/eða trúarlegar hugmyndir en um bókmenntalega hugsun. En Kár Ketilsson er vissulega sterkur fulltrúi hins illa og á vel heima í glæpasögu sem máluð er í sterkum litum.
Höfundur les söguna sjálfur og gerir það frábærlega vel.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.4.): 2
- Sl. sólarhring: 6
- Sl. viku: 46
- Frá upphafi: 189889
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 43
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.