2.12.2020 | 18:30
Hansdætur: Benný Sif Ísleifsdóttir
Það er nokkur tími umliðinn síðan ég skrifaði síðasta bókapistil en ég er ekki hætt að lesa. Ég veit ekki hvað kemur yfir mig þegar bókaflóðið skellur á í aðdraganda jóla, ég fer í algjöran baklás og á í erfiðleikum með að lesa nýjar og spennandi bækur. Þess í stað les ég gamlar bækur sem ég þekki og treysti. Nú hef ég þegar lesið Eyrbyggju og Laxdælu og hafið lestur á Sturlungu. Meira um þessar góðu bækur síðar.
En ég er samt búin að lesa/hlusta á nokkrar nýjar. Þar á meðal er bókin Hansdætur eftir Benný Sif Ísleifsdóttur. Ég hef ekki lesið neitt eftir hana áður en veit að þetta er ekki fyrsta bókin hennar. Sagan Hansdætur er látin gerast í sjávarþorpi á Vestfjörðum í upphafi 20. aldar. Þar segir frá lífsbaráttu fjölskyldu. Fjölskyldumóðirin hefur eignast þrjú börn með þremur mönnum. Elsta barnið er drengur sem farinn er að vinna fyrir sér en dæturnar tvær Sella og Gratíana eru enn krakkar. Í fjölskyldunni er líka amma barnanna.
Þegar sagan hefst er fjölskyldan að flytja búferlum, úr saggafullum vistarverum, vart íbúðarhæfum í þokkaleg húsakynni í eigu móðurbróður barnanna. Hann er ritstjóri bæjarblaðsins. Ástæðan fyrir því að hann býður systur sinni að búa hjá sér er fyrst og fremst sú að eiginkona hans er veik og getur ekki sinnt um sjálfa sig hvað þá um mann og börn.
Aðalpersóna bókarinnar er Grataína. Hún er full sjálfstrausts og tekur ekki mark á ríkjandi hugmyndum um stéttaskiptingu eða stöðu kvenna. Hún hrífst af móðurbróður sínum og fær meira að segja að aðstoða hann í vinnunni við blaðið.
Ég ætla ekki að rekja söguna lengra hér, enda er það ekki söguþráðurinn sem hrífur mig mest þegar ég les þessa bók, heldur hvernig sagan er sögð. Benný Sif er góð í að lýsa innra lífi, hugarheimi aðalpersónu sinnar, Gratíönu. Og hún leikur sér með orð.
Mér verður hugsað til annarra rithöfunda sem fjallað hafa um upphaf 20. aldar, þeir eru fjölmargir. Og stórir. Ég hika við að nefna nöfn. Mér finnst þó að ég geti fullyrt að Hansdætur minna meira á Önnu í Grænuhlíð en Sölku Völku eða 100 kíló af sólskini.
Það var gaman að lesa þessa bók og vona að það verði framhald. Og er reyndar næsta viss um það. Það er ekki hægt að skilja svona við söguhetjur sínar. Í algjörri óvissu.
Höfundurinn les bókina sjálf inn sem hljóðbók og gerir það vel.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.4.): 2
- Sl. sólarhring: 9
- Sl. viku: 46
- Frá upphafi: 189889
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 43
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.