13.10.2020 | 16:42
Peter Handke: Óskabarn ógæfunnar
Það er ekki allt slæmt við kóvít. Ég hef t.d. aldrei lesið meira af góðum bókum.
Nú hef ég lokið við að lesa/hlusta á bókina Óskabarn ógæfunnar eftir nóbelsverðlaunahafann Peter Handke og ég veit ekki hvernig er hægt að lýsa henni. Óttast að það sé ekki á mínu valdi.En reyni samt.
Þetta er stutt bók, tekur rúmlega 2 tíma í hlustun. Það er Sigurður Skúlason sem les, hann er frábær lesari.
Ógæfusama konan, sem titillinn vísar til, er María, móðir Handkes. Hún er nýlátin, tók líf sitt ríflega fimmtug. Höfundur segir að hann langi til að skrifa um hana, enginn þekkti hana betur en ég, segir hann. En hann er um leið að skrifa um sjálfan sig, líf þeirra blandast saman. Og um leið veltir hann fyrir sér hvernig hægt sé að fjalla um þetta efni. Allt í einu er ég farin að hugsa um minningargreinahefð okkar Íslendinga. Í raun er þetta bara löng minningargrein.Löng hreinskilin minningargrein.
Bókin er stutt og ég undrast, hvernig hægt er að segja svo margt og innihaldsríkt í fáum orðum.
Hann lýsir sorginni, dofanum sem heltekur hann. Og hvernig honum líður skást þegar skelfingin tekur yfir, því hún er raunveruleg og sönn.
Hann segir frá afa sínum sem var kominn af fátækum leiguliðum en finnur frelsið, þegar hann eignast jörð og hélt hann gæti aukið frelsi sitt með því að spara og eignast meira til að auka frelsi sitt. Verðbólgan tók sparnaðinn. Hann sér ekki gagnsemi eða frelsi í því að kosta börnin sín til mennta. Og svo kom stríðið og tók sinn toll, tvo syni.
Handke lýsir móður sinni Maríu sem konu án tækifæra.En þetta er ekki bara saga hans og móður hans. Þetta er saga sem lýsir pólitík, stríði og meiri pólitík. Ég hef hvergi séð betur fjallað um hvað var svo hrífandi við nasismann. Þegar móðir hans hlustaði á áróður nasista fannst henni í fyrsta skipti að einhver talaði til hennar og að hún væri eitthvað. Að hún væri hluti af hóp og gæti verið stolt.
Í örfáum orðum segir Handke frá lestri Maríu og samtali þeirra um bækur. Hún bar líf söguhetjanna alltaf saman við sitt eigið líf, eins og bækurnar væru um hana. Mér fannst merkilegt að lesa þetta, því ég hafði einmitt verið að gera þetta sjálf. Peter Handke er jafnaldri minn, fæddur 1942. Ég var að hugsa um að móðir hans hafi verið á aldur við mömmu mína. Ekki hafði hún mikil tækifæri í lífinu, alin upp í stórum barnahóp á heiðarbýli, án samgangna og rafmagns. Og án skólagöngu. Aldrei hugsa ég þó um hana sem konu án tækifæra. Svona róta góðar bækur upp í manni.
Það er merkilegt hvernig höfundi tekst að fjalla um svo margt í lítilli bók. Ég vildi að ég gæti útskýrt það með því að textinn sé knappur. En mér finnst það ekki. Það er bara engu orði ofaukið.
Þetta er fyrsta bókin sem ég les eftir Peter Handke. Hún er þýdd af Árna Óskarssyni. Auðvitað get ég ekki dæmt um þýðinguna en einhvern veginn finnst mér að hvert orð sé nákvæmlega á réttum stað.
Þetta er ekki fyrsta bókin sem kemur út í íslenskri þýðingu. Áður hefur komið út bókin Barnasaga í þýðingu Péturs Gunnarssonar 1987. Þetta vissi ég ekki en er auðvitað búin að lesa hana. Meira um hana seinna. Það er þegar ég er búin að lesa hana aftur.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (16.4.): 3
- Sl. sólarhring: 9
- Sl. viku: 43
- Frá upphafi: 189846
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 39
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.