Beðið eftir barbörunum

07BD4F38-8B91-4915-9072-E200741C0979
Lestur bókarinnar, Beðið eftir barbörunum, bar upp á sama tíma og umræðan um brottrekstur egypskrar  barnafjölskyldu stóð  sem hæst.  Var þetta tilviljun? Trúlega. Hvað sem því líður hafði það mikil áhrif á upplifun mína af bókinni.

Það er minna en tvö ár síðan ég var sjálf í Egyptalandi  sem túristi. Við skoðuðum píramídana, fornar grafir konunga og fjöldann allan af föllnum og hálfföllnum musterum undir handleiðslu okkar frábæru leiðsögukonu.

 

Það minnisstæðasta úr þessari ferð er þó lítil saga sem hún sagði okkur, þegar við vorum að skoða gamla kirkju í Kæró .

Fjölskylda á flótta

Sagan segir að kirkjan  sé byggð á grunni húss þar sem góð fjölskylda skaut skjólshúsi yfir þriggja manna flóttafjölskyldu, þeirra Jósefs, Maríu og hans Jesús litla.   Hún sýndi okkur gróp í gólfið þar sem sagan segir að vaggan hafi staðið. Upp á vegg var svo kort af flóttaleiðinni sem fjölskyldan fór og staðirnir merktir inn þar sem þau gistu á flóttanum með hjálp góðviljaðra. Þar voru síðar byggðar kirkjur. Ekkert sem ég heyrði eða sá í Egyptalandi hreif mig eins mikið og þessi litla saga sem ég þó vissi að var ekki sönn. Allt í einu fannst mér ég vita hvernig það var að vera á flótta.

En ég ætlaði að skrifa um bókina Beðið eftir barbörunum eftir Nóbelsverðlaunahafann Coetzee. Ég hef ekki lesið bækur hans fyrr því  mér er sagt af vinum mínum, sem ég treysti, að lesturinn taki svo mikið á mann og ég vildi hlífa mér. En nú ákvað ég að taka stökkið og hóf lestur/hlustun um leið og ég sá að bókin var komin á Hljóðbókasafnið. Bókin lætur ekki mikið yfir sér. Hún tekur 7:37 klst. í aflestri og það er Karl Emil Gunnarsson sem les . Hann les vel.

Aðalpersóna sögunnar er dómari litlu í þorpi á útjaðri heimsveldis. Hann segir sögu sína í fyrstu persónu. Hann er búinn að vera þarna lengi og er í raun að bíða eftir því að komast á eftirlaun. En hann á ekki því láni að fagna. Það fer að heyrast orðrómur um að barbarar muni ráðast á þorpið. Ef eitthvað hverfur í þorpinu trúa menn því að þetta séu þeir,barbararnir. Og af því að þetta þorp er á útjaðri heimsveldis, finnst þeim í höfuðborginni rétt að kanna hvort heimsveldinu standi ógn af barbörum og senda mann á staðinn. Hann handsamar fólk sem tilheyrir hirðingjaflokki og yfirheyrir það með sínum aðferðum. Og nær fram játningu um að  barbarar séu að undirbúa áhlaup, innrás í heimsveldið. Og það er sendur her. Ástandið stigmagnast. Lesandinn getur einungis ráðið í ástandið út frá því sem dómarinn segir. Og mér sem lesanda sýnist að dómarinn trúi ekki þessum fréttum. Hann veit að játningunum hefur verið náð fram með pyntingum. Hann gerir ekkert, reynir þó að finna sér svefnstað þar sem hann heyrir ekki kvalahljóðin í fólkinu.

Það sem lesandinn fær að vita um dómarann í gegnum frásögn hans sjálfs er, að hann virðist vera meinleysisgrey en mikið upp á kvenhöndina. Þær þurfa að vera ungar,   því að geta hans til kynlífs fer dvínandi og þá hjálpar að hafa þær ungar. Það er ógeðfellt að lesa um þetta. Allt í einu áttar lesandinn sig á því, að þarna er maður í valdastöðu og vald hans er slíkt að hann þarf ekki einu sinni að nauðga. Hann getur notað konur að vild sinni.

Þegar herinn er búinn að fá það upp úr barbörurum, það sem hann vill heyra,  er þeim sleppt og þeir fara til  baka til sinna heimkynna. Þá verður eftir á torginu stúlka eða barn sem betlar sér fyrir mat. Dómarinn spyrst fyrir og kemst að því að hún er blind og getur ekki gengið. Þannig er hún útleikin eftir yfirheyrslurnar. Hann fer með hana heim til sín og tekur ástfóstri við hana. Hann veit ekki sjálfur hvers lags sambandið er. Finnst hann vera allt í senn, faðir, elskhugi og vinur. Hér ætla ég að stoppa við að rekja efni þessarar bókar. Mér fannst ónotalegt að lesa hana , ég get  þó ekki alveg áttað mig á því hvers vegna hún kemur svo illa við mig. Er það vegna þess að hún er svo sönn eða finnst mér eins og það sé verið að væna mig um eitthvað? Fyrst fannst mér eins og höfundurinn væri að segja frá einhverju sem hefði gerst í raunveruleikanum á 19.öld í Afríku . Coetzee er frá Suður- Afríku (fæddur 1940). Svo sá ég að veðurfarið og staðhættir stemmdu ekki. Loks sá ég að tímasetningin var alls ekki á hreinu heldur.

Nú veit ég að grimmd ádeilunnar liggur í því að Coetzee er að fjalla um nútímann, um okkur. Við óttumst saklaust fólk og búum til úr því óvini. Og ég er ekki í neinum vafa um að umræðan um flóttafólkið hjálpaði mér til að skilja þessa bók betur. En þessi bók er ekki að fjalla um ástandið í heiminum hér og nú. Þetta er tímalaus  frásaga um land sem er til allsstaðar og hvergi. Kannski er hún um erfðasyndina. Það fylgir því mikil ábyrgð að hafa borðað ávexti af skilningstré góðs og ills.  

Betra er seint en aldrei

Þessi bók kom út á ensku 1980 .  Og  1984 var hún lesin í útvarpinu af Sigurlínu Davíðsdóttur. Sem hafði sjálf þýtt hana. Sú þýðing kom aldrei út. Þýðingin á bókinni sem sem ég var að hlusta á núna er   samvinnuverkefni Sigurlínar Davíðsdóttur og Rúnars Helga Vignissonar. Það er mikill fengur í því að vera búin að fá þessa merkilegu bók á íslensku.   

Lokaorð

Ég finn það meðan ég er að skrifa þetta að það er ekki á mínu færi að gera þessari bók verðug skil.  En reyni þó. Þegar ég hóf að skrifa þennan pistil  var tvísýnt um hvort við myndum fá að  taka á móti sex manna fjölskyldu. Í gærkvöldi var sagt frá því í fréttum að fjölskyldan fengi að vera. Fréttin var þó ekki nógu skýr og afdráttarlaus.

Eftirskrift

Sem sjá má, kallast bóklestur á við það sem er að gerast í heiminum og innra með lesandanum. Það er eðli góðra bóka. Ég reyni ekki einu sinni að halda því aðgreindu.

En af hverju tengjum við móttöku flóttamanna alltaf saman við hjálparstarf og góðverk: Höfum við gleymt öllum snillingunum og duglega fólkinu sem við höfum fengið til okkar hér á Íslandi.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Halldór Jónsson og Páll Vilhjálmsson, aftaníossar Donalds Trump, sem þykjast vera kristnir, ættu nú að líta upp úr Tígulgosanum og lesa þessa bók. cool

Þorsteinn Briem, 26.9.2020 kl. 11:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 45
  • Frá upphafi: 189007

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband