11.9.2020 | 16:19
Jan Guillou: Bækur til að gleyma stund og stað
Jan Guillou Rithöfundurinn Jan Guillou (fæddur 1944) er þjóðþekktur maður í Svíþjóð, ekki bara sem rithöfundur heldur einnig sem blaðamaður og álitsgjafi.
Fyrir mörgum árum setti ég hann út af sakramentinu, hætti að lesa hann, af því mér féll ekki við aðalpersónu hans, Carl Hamilton. En Guillou
skrifaði alls tíu bækur með hann í aðalhlutverki á árunum 1986 til 1995.
Bókasafn Norræna hússins leynir á sér
Í leit minni að innlesnu efni síðastliðinn vetur, komst ég að því, að það er talsvert til af diskum með bókum Guillou í Bókasafni Norræna hússins. Ég ákvað þá að gleyma því að ég væri móðguð, enda man ég ekki lengur hvers vegna mér líkaði ekki við Hamilton.
Fyrst varð Vägen til Jerúsalem fyrir valinu. Hún er fyrsta bók af þremur um Arn Magnusson og gerist á tímabilinu 1150 til 1200.
Arn er höfðingjasonur og sögusvið fyrstu bókarinnar er Vesturgautland. Arn elst upp í klaustri og fær þeirra tíma kristilega menntun. (Þetta er vilji móður hans sem er mjög trúuð kona). En það á ekki fyrir honum að liggja að verða munkur, ættin þarfnast hans og hann fer aftur heim á óðalið. Hinn ungi Arn hefur sterka réttlætiskennd sem verður til þess að hann vegur mann í stað þess að horfa upp á óréttlæti. Í framhaldi af því er hann dæmdur til að fara í krossferð. Áður en af því verður hefur hann þó kynnst ástinni og getið barn.
Næsta bók Tempelriddaren segir frá krossferð Arn og dvölinni í Palestínu. Þetta er spennandi bók og fróðleg fyrir mig sem veit lítið um krossferðir og þekki til Palestínu einungis út frá fréttaflutningi dagsins í dag.
Þriðja bókin heitir Riket vid vägens slut. Hana hef ég því miður ekki lesið enn, en er á biðlista eftir henni í bókasafninu.
Hvað heillar?
Guillou er mikill sögumaður. Hann er snillingur í að lýsa umhverfi með því að mála myndir með orðum. Hann er sömu- leiðis góður í að spinna upp samtöl, bæði venjuleg samtöl sem sögð eru upphátt og ekki síður hin, innri samtöl. Samtöl sem sögupersóna á við sjálfa sig í hljóði. Hann er orðmargur, sagan flæðir.
Það fór ekki hjá því að mér yrði bæði hugsað til Heimskringlu og Sturlungu, efnisins vegna, veruleiki sögunnar er ekki ólíkur en Guillou segir margt sem ekki er talað um í okkar góðu bókum, svo sem líðan, sálarlífi og hugmyndum. Lýsingar hans á klausturlífi eru fróðlega, sama gildir um trúarlífið sjálft.
Guillou-árátta mín byrjaði með kóvít. Mig langaði til að fara inn í tilbúin heim og gleyma heimi raunveruleikans sem takmarkar svo ótal margt. Ég bókstaflega datt í Guillou. Hann er klárlega ávanabindandi.
Nú er ég búin að lesa þrjár glæpasögur þar sem hin einkar geðfellda Eva Johnsen Tanguy er í aðalhlutverki. Ég er líka búin með Ondskan, sem er umdeild bók. Þar er fjallað um æskuár Erik Ponti sem minnir um margt á æsku Guillou sjálfs. Hann lýsir m.a. stjúpföður sem er haldinn kvalalosta og ber Erik litla svo til daglega. Erik er seinna sendur á heimavistarskóla þar sem skipulagt ofbeldi er hluti af námskrá skólans. Þessi bók vakti eðlilega miklar deilur í Svíþjóð, umræðan snerist um hvað af þessu væri mögulega satt og hvað væri hreinn skáldskapur.
Jan Guillou á ekki erfitt með að draga til sín athygli. Og enn á ný er hann í kastljósinu, nú sem mest lesni höfundur Svíþjóðar.
Hann hefur sem sagt lokið við nýjan bókaflokk, 10 sögulegar skáldsögur sem fjalla um tuttugustu öldina. Bókaflokkurinn heitir Det stora århundradet.
Ég hef lokið við að lesa tvær þeirra en ekki í réttri röð. Þessar tvær heita Dandy og Blå stjärnan. Þær lofa góðu
Að lokum
Það væri ósanngjarnt að geta ekki mannsins, sem les hljóðbækur Guillou. Hann heitir Tomas Bolme og er listalesari. Hann les svo vel að mér finnst að þarna sé höfundurinn sjálfur kominn til að lesa bara fyrir mig.
Eftirþanki
Ég veit ekki til þess að bækur Jan Guillou hafi verið þýddar á íslensku.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 1
- Sl. sólarhring: 10
- Sl. viku: 45
- Frá upphafi: 189007
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 35
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Bergþóra, það hafa 3 bækur hans verið þýddar: Illskan, Leiðin til Jerúsalem og Musterisriddarinn. Þær má finna í Borgarbókasafninu, einhverjum af útibúum þess en ekki öllum. Ég fletti þessu nú bara upp á leitir.is.
Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 11.9.2020 kl. 18:56
Kærar þakkir Ingibjörg. Þetta gleður mig.
En hann er auðvitað bestur á sænsku?.
Kær kveðja
BG
Bergþóra Gísladóttir (IP-tala skráð) 11.9.2020 kl. 21:16
Sæl aftur. Ég veit ekki hvort einhver þeirra er til sem hljóðbók. Til þess að finna það þyrfti miklu ítarlegri og tímafrekari leit.
Og takk fyrir gamla daga. Þú kenndir mér í Kvennó 1965-66.
Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 12.9.2020 kl. 14:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.