5.5.2020 | 15:32
Jan Guillou; Bóklestur á tímum kóvít
Ég hef verið dugleg við að lesa en löt við að skrifa. Ég sakna þess því það er orðið hluti af lestrarferlinu að skrifa um bókina. Með því að orða hugsanir mínar, fæ ég meira út úr hverri bók.
Fyrst ætla ég að tala um nýju ástina í lífi mínu, Jan Guillou (fæddur 1944).
Ég les/hlusta talsvert á sænskar bækur, reyndi meira að segja á tímabili að fylgjast með í sænskum bókmenntaheimi. Þar kynntist ég Guillou sem er sænskur maður þrátt fyrir nafnið.Hann var áberandi og er enn sem fjölmiðlamaður og rithöfundur. Ég las eina eða tvær bækur með hetjunni Hamilton í aðalhlutverki. Hamilton er mikill harðjaxl og mér líkaði ekki við hann. Það sem verra var, ég ákvað að að Guillou væri eins og Hamilton og afskrifaði hann líka.Síðan liðu mörg ár.
Að kyngja fordómum auðgar lífið
Það er gott fyrir alla að þurfa að kyngja eigin hleypidómum.
Það þurfti ég að gera nýverið.
Birgðasöfnun
Þegar þjóðin hafði verið frædd um væntanlega innrás kóvít og margir byrgðu sig upp með klósettpappír (að sögn) sá ég nauðsyn þess að verða mér úti um nægt lestrarefni, sem í mínu tilviki þarf að vera hlustunarefni.
Ég vissi að í Norræna húsinu er talsvert úrval af diskum (Þar fékk ég Min kamp eftir Karl Ove Knausgård á sínum tíma). Ég valdi Vägen till Jerusalem, kassa með 13 diskum (bókin kom út 1998). Bókin er miðaldasaga, sem gerist á 12. öld, á tímum sem mér fannst ég kannast við úr Heimskringlu. Reyndar segir Vägen till Jerusalem allt sem Heimskringla segir ekki. Hér er lýst daglegu lífi fólks,tilfinningum, trúarlífi, ást og menntun. Aðalpersóna sögunnar Arn Magnusson er af Folkungaætt. Þegar Arn verður fyrir slysi 5 ára gamall, heitir móðir hans því, að ef hann lifi, skuli hann ganga á Guðs vegum, þ.e. verða munkur. Hann elst því upp í klaustri. Þessi bók á hug mann allan meðan á lestrinum stendur. Þegar henni lauk, var Arn rétt um tvítugt og var ekki einu sinni lagður af stað til Jerúsalem. Þá voru eftir a.m.k. 2 bækur og það var búið að loka Norræna húsinu. Safnið mitt, Sólheimasafnið, var enn opið og þar tókst mér að kría út tvær bækur eftir Guillou,Fienden innom oss og Men inte om det gäller din dotter. Þetta eru frábærar bækur og ég hef fyrir löngu tekið bæði Guillou og Hamilton í sátt. Og svo skall á lokun á bókasöfnum, sem mér finnst verra en að vanta klósettpappír.
Ég hef reyndar aðgang að Hljóðbókasafni Íslands svo ég stend ekki uppi bókalaus. En það er fátt verra en að neyðast til að hætta í miðri bók.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.4.): 1
- Sl. sólarhring: 9
- Sl. viku: 48
- Frá upphafi: 189907
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 44
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.