Gísli Gunnarsson : Minning

F19C07A0-2DD9-4DAF-B0E2-E977A2CA6D49
Ég fékk fréttina um andlát Gísla Gunnarssonar frænda míns og vinar í fyrra dag. Ég verð að játa, að þrátt fyrir að hafa fylgst með með baráttu hans við erfiða sjúkdóma, ar ég alls ekki undir það búin. Við áttum svo margt órætt.

Ég kynnist Gísla þegar við vorum bæði ung, hann nýkominn úr námi í Skotlandi og ég í Háskóla. Þegar hann vissi hverra manna ég var, kynnti hann mig fyrir fjölskyldu sinni en mæður okkar voru systkinabörn, af Krossgerðisættinni, eins og sagt var. Eftir það þróaðist með okkur ævilangur vinskapur. Ég var nokkra stund að átta mig á þessum sérkennilega frænda mínum. Það var eiginlega sama hvar maður bar niður, eftir að hafa rætt  við Gísla, sá maður málið frá nýrri hlið. Við tengdumst sem sagt ekki bara  gegnum Krossgerðisættina, við áttum sameiginleg áhugamál sem sneru að pólitík og félagsmálum og fleiru. Við vorum bæði vinstri sinnuð og litum á okkur sem sósíalista. Gísli kafaði þó dýpra en flestir í mínum vinahópi. Það var menntandi að hlusta á hann kryfja mál. Gísli átti það til að vera nokkuð langorður  en hann tók það ekki illa upp við mig þótt ég bæði hann um að stytta mál sitt. Svona lagað geta bara vinir gert.  Eins og ég vék að áðan, var skilgreining Gísla á hvað væri pólitík bæði djúp og víð. Hann vann t.d. stórvirki þegar hann af tilviljun tók það upp hjá sjálfum sér að rannsaka frelsissviptingu ungra stúlkna. Það sem ýtti við honum var að einn nemandi hans  kom að máli við hann vegna vinkonu sinnar sem hafði verið tekin úr umferð. Gísli ákvað að kynna sér málið og tók viðtöl við stúlkur sem höfðu verið teknar úr umferð.  Það fyrsta sem hann tók eftir var að það var allt annað sem var lagt til grund vallar frelsissviptingu stráka og stelpna. Afskiptasemi Gísla var misjafnlega tekið enda var hann langt á undan sinni samtíð.  Þetta mál gekk undir nafninu Bjargsmálið.

 Þegar við Gísli kynntumst vann hann sem kennari í Gagnfræðaskóla Austurbæjar og bjó enn í heimahúsum,   þegar hann hleypti heimdraganum blöstu við mál til að kryfja. Hann fór á  kaf í húsnæðis- og byggingarmál. Og þegar hann hóf að reka sitt eigið heimili fór hann á kaf í neytendamálin og endurreisti Neitendafélagið sem var í djúpri lægð. Ég man eftir löngum samtölum um verð á þvottaefni og klósettpappír. Þegar Gísli kynntist stúlkunni sem átti eftir að verða konan hans, hittumst við sjaldnar. Ráðahagurinn gladdi mig  mig mikið enda þekkti ég Sigríði Sigurbjörnsdóttur

 frá því við vorum skólasystur á Eiðum, og þar sem hún hafði orð á sér að vera rösk   og drífandi. Hún var í verknámsdeild og ég öfundaði hana og stöllur hennar af handavinnunni , sem ég varð að afsala mér að læra, þegar ég valdi landsprófsdeild.

Þótt fundahald okkar Gísla ætti eftir að gisna eftir að hann festi ráð sitt hélst vinátta okkar óbreytt. Við Erling áttum eftir að heimsækja hann bæði til Kaupmannahafnar þegar hann dvaldi í Jónshúsi og til Lundar  á tímunum sem hann var að vinna að doktorsritgerð  sinni í    hagsögu. Seinna meir bar fundum okkar oftast saman í Friðarhúsinu en þar átti hann marga vini og félaga.

Þessi fátæklega upprifjun á gömlum vinskap er til komin af þörf minni til að kveðja vin. Ég sagði í upphafi máls míns að ég hefði ekki verið undir brottför  hans búin. En eftir þessa stuttu upprifjun finn ég að Gísli er ekki farinn. Það er svo margt sem minnir mig á hann og ég á eftir að eiga við hann mörg innri samtöl.

   

Að lokum langar mig og Erling  til að votta Sigríði hans og dætrum hans, Birnu, Málfríði og Ingileif hluttekningu. Gísli sonur minn bað einnig fyrir kveðjur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég tek heilshugar undir allt það, sem þú segir um Gísla. Hann var sómamaður og líka góður kennari. Því kynntist ég, þegar ég stundaði nám í sagnfræði í einn vetur. Það var ákaflega skemmtilegt að vera í tímunum hjá honum, auk þess sem hann var góður viðkynningar. Hins vegar vissi ég ekki þá og ekki fyrr en löngu seinna, að hann ætti ættir að rekja austur á land, en þegar ég fékk að vita það, þá sagði ég honum, að ég væri að hálfu Austfirðingur, þar sem móðurafi minn, Guðmundur Bjarnason, hafi verið kaupfélagsstjóri og bóksali á Seyðisfirði í byrjun síðustu aldar og fram til 1955, og vel hagmæltur að auki, þó að hann hafi fæðist í Borgafirði eystri. Móðuramma mín og nafna, Guðbjörg Guðmundsdóttir var hins vegar af Héraði, fædd á Hreimsstöðum og uppalin á Bóndastöðum. Ólöf systir hennar var húsfreyja á Hjartarstöðum, þar sem synir hennar tveir, Sigurður og Steinþór, bjuggu síðan, en Ragnar var oddviti á Brennistöðum, og Guðmundur sveitastjóri á Egilsstöðum. Ég býst við, að þú kannist við þessa ættingja mína. Ég heyrði ömmu mína oft tala um fólk þarna á Héraði, enda þekkti hún marga þar. - En það verður vissulega eftirsjá af Gísla blessuðum. Guð blessi minningu hans alla tíð.

 Gleðilega páska. 

Guðbjörg Snót Jónsdóttir (IP-tala skráð) 12.4.2020 kl. 00:09

2 identicon

 PS: Þar sem ég sé, að þú ert úr Breiðdalnum, þá má geta þess, að Guðmundur, móðurafi minn, var um tíma faktor á Breiðdalsvík. Þau amma bjuggu með börnin sín í fimm ár í faktorshúsinu á Breiðdalsvík, og komust í kynni við marga Breiðdælinga og eins fólk á Djúpavogi. Afi mun hafa verið einasti faktorinn, sem nokkurn tíma var á Breiðdalsvík. Ég hef að vísu ferðast austur á land með foreldrum mínum og ömmu, en aldrei til Breiðdalsvíkur samt sem áður. Þangað á ég eftir að koma, en mér fannst ég verða að bæta þessu við, þegar ég sá, að þú ert úr Breiðdalnum.

Guðbjörg Snót Jónsdóttir (IP-tala skráð) 12.4.2020 kl. 10:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 8
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 50
  • Frá upphafi: 189901

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband