Ástin á dögum kólerunnar;

 

6AE5C29A-8DB3-471D-9231-E8104EC67299
Ástin á dögum kólerunnar

Ég geri mikið að því að endurlesa bækur, sem mér finnast góðar. Margar bækur les ég oft. Nú þótti mér við hæfi að lesa Ástin á dögum kólerunnar eftir Gabriel Garcia Marquez (1927 til 2014). Það skemmtilega við að endurlesa bækur er að það er eins og hver lestur færi manni nýja bók. En í raun er það maður sjálfur sem hefur breyst. Með því  að skoða breytingar sem maður telur  að hafi orðið á bókinni, sér maður eigin umbreytingu.

Þegar ég las Ástir á dögum kólerunnar á sínum tíma, líklega 1986, árið sem bókin kom út á íslensku í þýðingu Guðbergs. Í minningunni  var sagan lýsing á litríku lífi í framandi landi. Afar exótísk. Ég mundi best eftir unga lækninum sem hafði numið í París og kom til baka sem eldhugi. Ekki bara í   heilbrigðismálum, hann var á kafi í skipulagsmálum, listum og pólitík. Í mínum huga var hann aðalpersóna sögunnar og ég hafði alveg gleymt furðufuglinum Flórentino Ariza sem ég sé nú að á trúlega að vera aðalpersóna  bókarinnar.Mér til afsökunar get ég sagt að þessi saga breiðir úr sér og hún hefur að geyma margar hliðarsögur og vel dregnar persónur.

 

Sagan gerist á árunum 1870 til 1930 í Kartagena í Kólumbíu. Ungur maður Flórentino Ariza verður ástfanginn af skólastúlkunni Fermina Daza. Faðir hennar setur sig upp á móti sambandi þeirra en  þau skrifast á með leynd.Síðar verður ungi læknirinn Juvenal Urbino heillaður af Fermina, sömu stúlkunni sem þá var orðin gjafvaxta.Merkilegt orð, gjafvaxta. Hann biður hennar og hún tekur honum eftir nokkurt hik. Þau lifa í farsælu hjónabandi í 50 ár en þá ferst hann af slysförum. Flórentino hefur alla tíð beðið eftir þessu augnabliki, hann er enn gagntekinn af æskuástinni sinni. En það hefur ekki hindrað hann í því að njóta ásta með öðrum konum. Líklega á hér betur við að tala um kynlíf en ást.

Það er þessi hluti bókarinnar sem ég hef annað hvort skautað yfir eða einfaldlega sleppt. Kannski lauk ég aldrei bókinni, sem er ekki líkt mér því ég hef lengi haft það fyrir reglu að klára bækur, jafnvel þótt mér leiðist þær. Auðvitað hafði ég óskaplega mikið að gera á þessum árum, útivinnandi með þrjú börn á skólaaldri. Ég veit ekki hvort ég er að leita skýringa eða bara afsaka mig.

Ástæðan fyrir vangaveltum mínum er, að ef svona lagað kæmi út í dag, myndi það kalla á umræðu  og e.t.v. ámæli églíka    (me too)kvenna og karla. Konur eru leiktæki og það er líka barnið America, sem er  skjólstæðingur Flórentinos, sem hann misnotar. America sviptir sig síðan lífi. Öllu þessu hafði ég gleymt.

Nú er ég ekki að halda því fram að Ástin á dögum kólerunnar, sé vond bók, þaðan af síður að hún sé ekki sönn, þótt það hafi fest við þessa og fleiri höfunda að verk þeirra einkennist af töfraraunsæi. Þvert á móti. Mér finnst bókin góð og ég trúi hverju orði. Svona hefur þetta eflaust verið og er enn. En höfundur sem lýsir slíku háttalagi gagnrýnislaust væri ólíklegur til að vera heiðraður með Nóbelsverðlaununum. Gabriel Garcia Marques fékk þau reyndar nokkru áður en bókin kom út (1982).

Auðvitað valdi ég að lesa þessa bók nú út af efninu og það olli mér vissum vonbrigðum að ekki skuli vera meira fjallað um þennan sjúkdóm. Að vísu bregður honum oft fyrir í sögunni og læknirinn hefur miklar áhyggjur af sorp- ogfráveitumálum borgarinnar.     Það var búið að uppgötva hver var orsök sjúkdómsins (1854)og það hefur minn góði læknir vitað.

Það var sem sagt bæði þarft og gefandi að endurlesa þessa bók og ef Guð lofar mun ég lesa hana fljótlega aftur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 43
  • Frá upphafi: 189894

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 40
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband