28.3.2020 | 19:00
Jósefínubók: Jósefína Meulengracht Dietrich
Það var Jósefína sem enn og aftur sannaði fyrir mér að það er eitthvað heillandi við ljóð í bundnu máli. Eitthvað illskýranlegt og hrífandi. Maður finnur fyrir því í skrokknum og fer allur að iða. Þetta er líkt og að hlusta á tónlist sem sendir kaldan straum upp eftir hryggnum á manni. Kaldan en samt notalegan. Mér hefur verið óljúft að játa fyrir sjálfri mér, að kveðskapur með rími og höfuðstöfum gefa mér eitthvað sérstakt . Ég vil ekki vera gamaldags, ég vil vera í takt við tímann. En auðvitað á maður ekki að meta gæði bundins máls á kostnað óbundins, eða öfugt. Það er eins og að bera saman epli og appelsínur.
Þegar ég stóð frammi fyrir því að þurfa að hlusta á Heimskringlu í stað þess að lesa, saknaði ég þess, að kvæðin skyldu ekki vera lesin með skýringum á réttum stað í efninu einsog gert er í öllum góðum fornritaútgáfum. Ég kvartaði.
En til baka til Jósefínu. Hún er, fyrir þá sem ekki þekkja til, ljóðmælt læða og heitir fullu nafni Jósefína Meulengracht Dietrich. Nú hefur komið út eftir hana bók sem hefur að geyma 100 ljóð og lausavísur. Bókin kom út hjá bókaútgáfunni Sæmundi 2019 en hefur nýlega verið lesinn inn sem hljóðbók. Lesari er Sunna Björk Þórarinsdóttir. Hún les listavel. Það var gaman að hlýða á þessa bók, ekki síst vegna þess að mér finnst kattareðlið skína allstaðar í gegn . Ljóðin eru lúmskt fyndin og höfundur nálgast efniviðinn með mýkt kattarins. En hvað er það sem liggur Jósefínu á hjarta? Það er fjölmargt. Bókin skiptist í 19 mislanga kafla, sem of langt yrði upp að telja. Það er betra að birta dæmi til að gefa einhverja hugmynd um efnisvalið.
Á bókarkápu stendur:
Ég hef á flóknum fræðum tök
og fléttað get með liprum klóm
hulda þræði, hinstu rök
og heimsins mesta leyndardóm.
Í formála segir:
Margt er ljúft að lesa hér
ljóðagerðin skemmtir þér
-brennur roð og rennur smér
rómi þýðum hjala,
gulri kisu gaman finnst að mala.
Vísa 7 í sjálfævisögulega kaflanum er svona:
Við skólanám , lestur ég lýg ekki að þér-
og lærdóm ég þarf ekki að strita,
því alvaldið malar í eyrun á mér
allt sem mig langar að vita.
Í kaflanum Matvæli og lífsbjörg er þessi litla vísa:
Berin eru fuglafóður
og fuglar gleðja svangan kött.
(En kött að éta er, guð minn góður,
gersamlega út í hött.)
Mjólk kemur svo oft við sögu í ljóðum Jósefínu að það væri óvitlaust fyrir kúabændur að gera við hana auglýsingasamning til framtíðar. Mjólkin er til dæmis sett á stall með öðrum gúrme jólamat í þessari vísu:
Jólakalkún, jólanaut, jólamjólk í krúsina,
jólaostinn, jólagraut, jólatréð og músina.
Ástæðan fyrir því að ég nefni Jósefínubók í sömu andrá og Heimskringlu, er að hún er ekkert að hika við dýrt rím og flóknar kenningar.Í 7. kafla sem ber nafnið Dýrar vísur er þessa vísu að finna:
Víst er slyng á vísnaþingi
vafin kynngi rófan mín,
ljóðin hringhend
lengi syngi
læðan yngis Jósefín.
Kafli 10 ber yfirskriftina Sorgarljóð og harmatölur. Mér finnst fara vel á því að enda þennan pistil á ljóði sem vísar beint inn í það sem kallað er fordæmalaust ástand okkar tíma :
Nú er kreppa og eymdarár,
illa vært í landi
úfinn jökull öskugrár
eldi spýr og sandi
með ýlfri ljótu úti stár
óláns tíkarfjandi
um allar jarðir ógn og fár
eiga hund í bandi.
Ef ég ætti að segja eitthvað gagnrýnisvert, að lokum, um skáldskap Jósefínu, þá er það fyrst og fremst það, hvað hún er sjálflæg og skortir stundum samkennd. En það er nú einu sinni eðli katta og ef til vill sumra listamanna.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.4.): 5
- Sl. sólarhring: 8
- Sl. viku: 49
- Frá upphafi: 189892
Annað
- Innlit í dag: 5
- Innlit sl. viku: 46
- Gestir í dag: 5
- IP-tölur í dag: 5
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þetta er greinilega bók sem maður þarf að ná í. Hafði ekkert séð um hana fyrr en núna.
Þorsteinn Siglaugsson, 28.3.2020 kl. 19:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.