20.3.2020 | 17:09
Heimskringla ; Að velja sér hliðarverruleika
Aldrei á ævi minni hef ég heyrt eins mikla umræðu um heilsufar og líðan fólks eins og þessa síðustu daga. Í minni sveit tíðkaðist lítt umræða um heilsufar og líðan mannfólks aftur á móti var mikið rætt um sauðfjársjúkdóma og varnir gegn þeim.
Nú er öldin önnur og eins gott. Ég viðurkenni nauðsyn þessarar umræðu og er þakklát þeim sem stýra sóttvörnum í landinu enda sjálf í áhættuhópi.
En það koma stundir þegar mig langar í fréttir af einhverju allt öðru. Ég verð yfir mig þreytt og langar burt, inn í heim, þar sem ríkja aðrar áherslur.
Nú dugir bara þykk bók með miklum hasar hugsa ég, er ekki kominn tími á að rifja upp Heimskringlu?
Já Heimskringla er svo sannarlega annar heimur. Ekki betri heimur, engan veginn, en ég þarf bara ekki að hafa áhyggjur af því sem er að gerast. Ég er á öruggum stað, fortíðin nær ekki til mín.
Fyrir þá sem ekki þekkja Heimskringlu er hún safn norrænna konungasagna allt frá dögum Óðins. Bókin er verk Snorra Sturlusonar. Heimildir hans eru einkum kvæði og er víða vitnað til þeirra í bókinni.
Heimskringla er ein af þessum bókum sem verður ný við hvern lestur. Hugarástand lesanda hefur áhrif á sjónarhornið og fókusinn. Það er ekki val heldur gerist ósjálfrátt.
Í þetta skipti beindist athygli mín að líðan fólksins.
Það er auðvelt að sjá kosti eigin samtíðar borið saman við veröldina sem lýst er í Heimskringlu. Þvílík grimmd. Og hvílík sóun.
Allt í einu var ég farin að rýna í gildismatið sem kemur fram í Heimskringlu.
Hvað er líkt okkar tíma og hvað er ólíkt? Ættir og sambönd voru mikilvæg. Hefur það breyst? Líkamlegt atgervi og hreysti voru eftirsóknarverðir mannkostir. Það er oft vikið að útliti fólks því til hróss. Það er líka hrósvert að vera vel máli farinn. En ekki er allt sem sýnist. Þrátt fyrir mikilvægi ættar tíðkuðust bræðravíg. Hvað eftir annað kemur fram að það þótti ekkert tiltökumál að ganga á bak orða sinna. Oft er sagt frá rausnarlegum heimboðum sem lauk á því að gestir voru brenndir inni. Það er engu líkara en að mönnum leyfist hvað eina til að ota sínum tota. Græða. Víkingaferðirnar eru af sama meiði. Þeim er lýst nánast eins og sporti eða veiðiferð. Menn brugðu sér sumarlangt til útlanda til að ræna og drepa. Samkennd og friðsemd er ekki hátt skrifuð á tímum Heimskringlu. Mér varð oft hugsað til Snorra. Hvað fannst honum, kristnum manninum? Eða var hann að reyna að ganga fram af lesendum.
Í Breiðdalnum þar sem ég ólst upp var merk kona, Þorbjörg R. Pálsdóttir. Hún var víðlesin og fylgdist vel með. En hún gaf lítið fyrir Íslendingasögurnar, sagði að þær væru svo ljótar. Hún sagði að hún væri mótfallin dýrkun manna á bardögum og hetjuskap. Ég tók mikið mark á Þorbjörgu og hugsa oft til hennar þegar ég les þessar sögur en ég hef mætur á fornum fræðum. Mér finnast þessar gömlu sagnir vera eins og gáta, það er svo gaman að lesa á milli línanna og reyna að ráða í það sem er á bak við frásögnina. En Heimskringla er saga um kónga og heldra fólk, hvernig skyldi hinum líða sem vinna og gerir veldi þeirra mögulegt?
Ég undrast að það skuli vera til fólk sem finnst sæmandi að hrósa sér af illgjörðum frænda okkar og forfeðra .
Hvernig gátu góðir og vel meinandi menn eins og t.d. Ólafur Ragnar stært sig af slíku framferði. Kannski las hann aldrei þessar bækur.
Það væri nær að forsætisráðherra stigi fram og bæðist afsökunar á framferði víkinga.
Ég er sem sagt búin að dvelja í heimi Snorra og Heimskringlu en er nú stigin inn í veruleika dagsins í dag. Þar sem okkur er frjálst að velja stjórnvöld. Við eigum nú því láni að fagna að þau hafa kosið að gefa valdið frá sér til sérfræðinga. En jafnvel vísindin eiga ekki ráð við öllu. Þetta agnarsmáa fyrirbæri smeygir sér inn í líkama okkar til að fremja spellvirki. Á meðan á þessu stendur er best að velja langar bækur og flýja inn í veröld sem er ekki til í raunveruleikanum.
Myndin er af nuddbolta en ekki af veiru.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.4.): 2
- Sl. sólarhring: 6
- Sl. viku: 46
- Frá upphafi: 189889
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 43
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sæl Bergþóra og takk fyrir áhugavert blogg. En það er til of mikils mælst að forsætisráðherra stígi fram og bæðist afsökunar á framferði víkinga. Það er ansi langt um liðið frá því að þeir voru á ferðinni hér. Við erum líklega afkomendur þessara víkinga. Þeir komu einnig við á Bretlandseyjum og settust þar að. OK? Ef þeir hefðu ekki komið værum við, þú og ég og fleiri kannski ekki til.
Ingibjörg Magnúsdóttir, 21.3.2020 kl. 00:46
Sæl Ingibjörg og takk fyrir athugasemdina.
Þetta með að biðjast afsökunar á víkingaferðum er sagt í hálfkæringi, að það bæri nær að biðjast afsökunar í stað þess að stæra sig af þeim. Ég hefði kannski ekki átt að nefna forsætisráðherra, gerði það af því hann er sá eini sem gæti formlega gert slíkt. Ekki meint bókstaflega því hún hefur áreiðanlega aldrei stært sig af víkingaferðum.
Kveðja
Bergþóra
Bergþóra Gísladóttir (IP-tala skráð) 21.3.2020 kl. 12:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.