5.2.2020 | 16:27
Til baka til fortíðar ; Paul Gaimard; Maðurinn sem Ísland elskaði
Það er nokkuð um liðið síðan ég hef skrifað um bók. Það er þó ekki vegna þess að ég hafi ekki lesið. Þvert á móti. Það hafa sem sagt hrannast upp bækur sem ég hef ekki skrifað um og ég sit uppi með tilfinninguna að þeim sé ekki fulllokið, að ég hafi ekki gert upp minn hug, að ég hafi ef til vill ekki skilið þær réttum skilningi.Meira um þessar bækur síðar.
Bókin sem ég ætla að fjalla um hér og nú er að því leyti sérstök, að ég sit föst í henni, losna ekki við hana úr huganum, langar til að dveljast lengur í heiminum sem hún hefur skapað.
Þetta er bók Árna Snævars, Maðurinn sem Ísland elskaði, Paul Gaimard og Íslandsferðir hans 1835-1836. Hún fjallar um lækninn, vísindamanninn og landkönnuðinn Paul Gaimard. Þetta er í senn sagnfræðibók og bók fyrir almennan lesanda eins og þær gerast bestar. Höfundur notar heimildir og fer í frumgögn í frönskum söfnum og það sem er mikilvægast, setur hann sögu Gaimard í sögulegt samhengi, ekki bara heimssögulegt heldur rifjar hann líka upp og tengir okkar séríslenska samhengi við heimsviðburði. Sagan lifnar við og maður sér fyrir sér þennan snotra Frakka skoða landið okkar og leggja sig fram um að skilja samfélagið, kynnast fólki og landsháttum.
Reyndar segir Árni Snævarr ekki bara ferðasögu Gaimard á Íslandi, hann rekur sögu hans um heiminn 1817- 1820 og 1826 -1829. Og svo að sjálfsögðu ferðir hans um Norðurlönd með viðkomu í Rússlandi og Prag.
Það er svo gaman að lesa um 19. Öldina og upplýsingastefnuna, hún er svo full af bjartsýni. Þetta er nokkuð löng bók, 497 blaðsíður. Sjálf (vegna fötlunar minnar) hlustaði ég á hana sem hljóðbók og tekur hún 18 tíma í hlustun. Hjörtur Pálsson les bókina og gerir það frábærlega vel. Eðli málsins samkvæmt inniheldur bókin mörg erlend orð og nöfn, sérstaklega frönsk, sem hann ber fram að hætti þarlendra.
Ástæðan fyrir því að Paul Gaimard er okkur Íslendingum svo kær er trúlega vegna þess að Jónas Hallgrímsson orti til hans kvæði, sem hefst á:
Þú stóðst á Heklutindi hám
og horfðir yfir landið fríða.
Síðar í þessu sama ljóði stendur; Vísindin efla alla dáð, sem eru einkunnarorð Háskóla Íslands. Ég hef einu sinni gengið á Heklu og þar sem ég stóð í sporum hans reyndi ég að fara með slitur úr þessu ljóði.
Árni skrifar um líf og starf þessa mæta manns sem þrátt fyrir merkilegt ævistarf átti ekki fyrir eigin útför. Það voru vinir hans og velunnarar sem sáu til þess að honum var sómi sýndur og þess vegna getum við í dag staðið við gröf hans þar sem hann hvílir í Montparnasse kirkjugarðinum. Ég hef líka staðið þar því fyrir ríflega 20 árum tók ég að mér, ásamt manni mínum að gæta barnabarns í París. Það er lærdómsríkt að ganga um París með barn í kerru. Í einni ferð okkar römbuðum við á leiði Pouls Gaimars. Myndin sem fylgir var tekin við það tækifæri.
Lokaorð; Lestur þessarar bókar var eins og að ferðast aftur til fortíðar. Hún hefði alveg mátt vera lengri.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring: 10
- Sl. viku: 44
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 34
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Kærar þakkir.
Ég var að ljúka lestri bókarinnar í fyrrakvöld og gæti best trúað því að ég ætti eftir að lesa hana aftur!
Ingimundur Bergmann, 5.2.2020 kl. 20:06
Ég verð brátt í París, og reyni ef tími vinnst, að finna leiðið í Montparnasse. Manstu hvar í garðinum það er? Ég er ekki búinn að fá mér bók Snævarrs, en mér var sagt um daginn að hann vitnaði í mig.
FORNLEIFUR, 7.2.2020 kl. 07:01
Tombe de Joseph Paul Gaimard, cimetière du Montparnasse, division 6. Ekki er brjóstmyndin af honum lík neinu sem ég hef séð. Ætli hún hafi veðrast svona illa?
FORNLEIFUR, 7.2.2020 kl. 07:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.