28.12.2019 | 17:46
Svanafólkið::Kristín Ómarsdóttir
Ein af mínum fyrstu minningum, ef ekki sú allra fyrsta, er þegar pabbi tók mig með á veiðar. Ég hef verið þriggja til fjögurra ára. Ég kunni alveg að haga mér við veiðar. Þegar hann komst í færi við fugl, kom hann sér fyrir við barð eða stein og miðaði. Mitt hlutverk fólst í að vera fyrir aftan og sækja síðan fuglinn. Í þetta tiltekna skipti var það álft. Þær voru reyndar friðaðar, þá sem nú. Engu að síður voru þær skotnar . Okkur krökkunum var sagt að þegja um það við gesti. Sæktu fuglinn sagði pabbi og ég hljóp.Þegar ég gerði mér grein fyrir stærð fuglsins, tók ég um hausinn, setti hálsinn yfir öxlina og reyndi að draga hann á eftir mér til pabba. Ég réði ekki við verkefnið. Þegar pabbi kom svo og sagðist hafa verið að grínast, varð ég sár og reið. Líklega man ég þetta þess vegna.
Mín aðferð við að lesa Svanafólkið
Og hvernig á raunsæiskonan ég, að skilja og skrifa um bók Kristínar Ómarsdóttur? Hún býr til áður óþekktar verur sem eru hvorki svanir né menn eða hvort tveggja. Hún lýsir hugarheimi konu sem sér ekki mun draums og veruleika og er svo ólík mér, finnst mér, sem er jarðbundin og nýt þess.
Auðvitað, nota ég mína aðferð. Ég tek allt bókstaflega og trúi öllu. Þannig nálgast ég veruleika þessarar sögu. Mér finnst hún vera mjög sorgleg. Ég finn fyrir sorg. Ekki síst þegar hún er hvað fyndnust en það er hún oft.
Af og til meðan ég las/hlustaði fannst mér ég ekki vera að lesa bók, heldur skoða myndir. Kristín notar marga liti, sterka liti og smyr þykkt á. Já, líklega eru þetta absúrd myndir hugsa ég, sem veit ekkert um list nema það sem tilfinningin býður mér. Ég hef alltaf hrifist af absúrdisma því hann er í raun afar jarðtengdur, veruleiki sem snúið hefur verið upp á til áherslu.Búin til kleina.
Mér fannst gaman að lesa þessa bók, hún gerist í nálægri framtíð. Yfirvofandi nálægri. Og kemur margt kunnuglega fyrir sjónir. Ég gæti t.d. alveg trúað því að það væri til svona deild eins og lýst er í ráðuneyti. Var síðast í vikunni að uppgötva ráðuneytis deild sem ég vissi ekki um. Hún heitir Umbra og kemur bókinni ekkert við. Þetta er einungis sett inn til fróðleiks.
Aðalpersóna sögunnar, Elísabet Eva Unnar og Rúnarsdóttir, starfar sem sagt hjá leynilegri sérdeild innanríkisráðuneytisins. Verkefni hennar snýst á þessum tíma, þegar hún hittir svanafólkið, um að rannsaka og gera skýrslu um uppistand í borginni. Allt sem við fáum að vita um heim Elísabetar er miðlað til okkar frá henni sjálfri. Elísabet er einstæðingur, missti foreldra sína sem barn og er alin upp af ömmu, sem er einnig látin. Hún á, eða átti bróður og þau halda, eða látast halda, að þau eigi systur. Vinnustaður Elísabetar Evu skipar stóran sess í lífi hennar. Hún á í flóknu sambandi við yfirkonu sína Selmu Mjöll. Fjöldi samstarfsfólks hennar er nefnt til sögunnar.Þótt nöfnin séu mörg er ekki hægt að tala um flókið persónugallerí,líklega ætti hlutverk betur við. Þetta sama á við um lýsingar á svanafólkinu. Ég átti oft í erfiðleikum með að tengja nafn og manneskju og nafn og svaneskju. Mér fannst erfitt að henda reiður á öllum þessum nöfnum og hver væri hvað. Til hvers öll þessi nöfn? Í Íslendingasögunum eru langar ættartölur notaðar til að sýna ættgöfgi og í Sturlungu eru langar upptalningar nafna notaðar til að styrkja trúverðugleika frásagnar. Í Svanafólkinu var nafnasúpan, nær allir hétu að minnsta kosti tveimur nöfnum, nánast eins og kvak.
Það er ekki einfalt að vera svanamanneskja, hún er bæði svanur og maður og auk þess hvort tveggja í senn. Loksins skildi ég þetta með þríeinan Guð,sem er í senn maður, Guð og heilagur andi. Og það var ekki bara svanafólkið sem var margslungið. Vinkonurnar Elísabet Eva og Selma Mjöll brugðu stundum fyrir sig að vera Frankó og Rósa. Kannski ætti ég að taka til baka það sem ég sagði um fátæklegar persónulýsingar.
Það er merkilegt hvað lítil bók getur verið efnismikil. Ég ætla að nefna dæmi:
Fásögnin um útrýmingu gyðjanna er merkileg. Hvernig er hægt að drepa það sem er eilíft er spurt. Svar:Það er gert með því að taka burt, eyðileggja, rýmið þar sem það þrífst. Er hún ekki að vísa þarna til náttúruverndar, hugsa ég. Samtal Elísabetar við Guð er frábært. Margt það besta í þessari bók liggur á milli línanna, já og jafnvel á milli orðanna. Það er eins og bókin sé stráð gullkornum, sem glitra meðan maður les. Hvað eftir annað hugsa ég, þetta ætla ég að muna. Þetta segir mér að það er hægt að lesa hana oft. Ég er búin að lesa hana tvisvar.
Eftirmáli
Í gær fór ég í gönguferð, hugsaði um Svanafólkið og gaf gæsunum misheppnaðan jólabakstur, sem þær kunnu vel að meta. Ég sá þar hundafólk og velti fyrir mér hvort orðið þríeinn ætti líka við það. Loks hugsaði ég um jóaboðið sem ég átti að vera að undirbúa. Datt í hug að álftakjöt gæti verið góður jólamatur. Það er reyndar ekki rétt að tala um að maður hugsi í gönguferðum. Hugsanirnar koma flögrandi til manns.
Gleðileg jól kæru lesendur
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 7
- Sl. sólarhring: 9
- Sl. viku: 46
- Frá upphafi: 189003
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 37
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.