Qaanaaq, glæpasaga

F76D6420-ED38-437A-88FB-C0CEF429B110

Qaanaaq

Bókin Qaanaaq eftir Mo Malö er glæpasaga sem gerist á Grænlandi.

Þrír erlendir verkamenn hafa verið myrtir og grænlensk yfirvöld leita liðsinnis  danskra yfirvalda um aðstoð. Þau senda Qaanaaq lögregluforingja á staðinn. Frásögnin snýst um rannsókn hans og sjónarhornið er oftast hans, þó er brugðið upp myndum sem eru nánast eins og viðbótarheimildir til að vinna út frá.

Morðin líkjast í fljótu bragði því að ísbjörn hafi verið að verki. Líkin eru sundurtætt og lifrin fjarlægð. Sérfræðingur um hegðun hvítabjarna telur þó mjög litlar líkur á því að svo sé, nánast ómögulegt. En hver er líklegur til að vilja skaða starfsemi olíuvinnslufyrirtækisins, þar sem hinir myrtu unnu? Það koma margir til greina.

Það liggja margir undir grun

Auðvitað eru náttúruverndarsinnar ofarlega á blaði. Auk þeirra gæti verknaðurinn tengst grænlenskum þjóðernissinnum eða grænlenskri pólitík. Samkeppnisaðilar olíurisans kæmi til greina, auðvitað. Allt þarf að skoða. Og þegar í ljós kemur að spilling hefur smeygt

 sér inn á æðstu stöðum, er í reynd engum að treysta.

Aðalpersónan

Qaanaaq er grænlenskrar ættar, uppalinn í Danmörku, ættleiddur og man ekkert frá bernsku sinni og hefur ekki haft áhuga á vita um uppruna sinn. Hann er fyrst og fremst Dani. En í leit sinni að morðingja, læðist fortíðin og uppruninn aftan að honum.

Þetta er löng og efnismikil bók.  Spennan er mikil og rannsóknin  tekur marga króka og villist inn í blindgötur. Þó hafði ég allan tímann á tilfinningunni að höfundur vildi annað og meira en að skila frá sér spennandi reifara. Mér fannst sem bókinni væri ætlað að vera  innlegg  umhverfisumræðu dagsins í dag. Og það er hún líklega. Ég ætla ekki að fara nánar út í það eða að rekja efni bókarinnar frekar.   

En mér féll ekki bókin. Var þó lengi að játa það fyrir sjálfri mér, því  bókin er þýdd af Friðriki Rafnssyni og þýðingin styrkt af Miðstöð  íslenskra bókmennta og  Friðrik er vanur að þýða góða höfunda.

Auðvitað kallar þessi skoðun mín á rökstuðning, þótt það sé með bækur eins og fólk, næstum ómögulegt að rökstyðja hvers vegna manni geðjast að því og hvers vegna ekki.

Það sem mér féll ekki

Mér fannst persónusköpun í bókinni léleg. Aðalpersónan Qaanaaq er þar engin undantekning, hann er eins og lögreglumaður úr fyrri bók, sem maður hefur enn ekki lesið. Og af því við kynnumst Grænlandi og Grænlendingum aðallega frá sjónarhorni hans, skiptir persóna hans enn meira máli. Mér finnst allt of mikið af neikvæðum lýsingum á fólki og fyrirbærum. Kona situr á tali við forljótan Kínverja og meira að segja ljósastaurarnir eru ljótir.

Bækur hafa ekki þörf fyrir höfunda sína

Þegar ég hóf lestur bókarinnar, hélt ég að  hún væri eftir Dana eða Grænlending,  mér fannst að nafnið Mo Malö gæti alveg verið danskt. Nú veit ég að á bak við nafnið leynist franskur höfundur, Frédéric Mars og bókin er skrifuð á frönsku.   Hann er sagður hafa skrifað  nokkrar bækur undir mismunandi nöfnum. Það er haft eftir honum að bækur þarfnist ekki höfunda. Þarna er ég alls ekki sammála, en viðurkenni að Íslendingasögurnar hafa þó plumað sig ágætlega án höfunda. En mikið hafa menn leitað.  Í flestum tilvikum stýrir þekking manns á höfundi upplifun og ánægju af bóklestri. Það skapast traust.

 

 Það leynir sér ekki að höfundur Qaanaaq hafi viðað að sér miklum fróðleik og sett sig vel inn í málefni Grænlands. Hann víkur að sögunni, bregður fyrir sig grænlenskum orðum og útskýrir hugmyndafræði á bak við orð og orðatiltæki og segir frá trúarhugmyndum Inúíta. Þrátt fyrir allt þetta gerist ekki sá galdur sem oftast gerst sjálfkrafa þegar ég les góða bók. Ég trúi ekki hverju orði.

Og það sem verra er, hef ég samviskubit eins og það sé mér að kenna.

Þetta litla sem ég segi um höfundinn, er sótt á netið.

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Þetta virðist vera áhugaverð bók og gæti verið þess virði að lesa, jafnvel þótt um sé að ræða glæpasögu - nenni oftast ekki að lesa slíkt.

Bækur og höfundar: Þarna geta mismunandi sjónarmið tekist á. Stundum er gott að vita hver höfundurinn er, sér í lagi ef það hjálpar manni að setja verkið í samhengi við önnur verk sama höfundar. Stundum skiptir það ekki máli. En í það minnsta hljótum við öll að verða að viðurkenna að enn sem komið er verða bækur ekki til án höfunda (þótt raunar sé eflaust stutt í að megnið af reyfurum verði skrifaðir af tölvum).

Þorsteinn Siglaugsson, 4.12.2019 kl. 23:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 39
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband