23.10.2019 | 12:16
Tara Westover: Ótrúleg frásögn ungrar konu
Ótrúleg frásögn ungrar konu
Ég hef ekki bara verið að lesa Sturlungu. Inn á milli hef ég fundið mér nútímalegra lesefni,þar á meðal las ég bók Tara Westover (fædd 1986 - ), Educated. Ég las hana á sænsku, þar sem hún heitir, Allt jag fått lära mig. Á íslensku gæti hún e.t.v.heitið Allt sem ég fékk að læra eða Menntuð.
Þetta er ótrúleg frásögn ungrar konu um líf sitt.Tara er fædd 1986 í Idaho í Bandaríkjunum. Hún elst upp hjá fjölskyldu sinni yngst sex systkina. Þau eru mormónatrúar, faðirinn er predikari og móðirin er hómópati. Faðirinn er sjálfstæður atvinnurekandi, rífur niður ónýta bíla og vinnuvélar og kemur í verð. Þetta er erfið vinna og börnin hjálpa til. Móðirin safnar jurtum, býr til lyf og selur. Auk þess er hún ljósmóðir við heimafæðingar.
Meðan Tara er lítið barn heldur hún að líf þeirra sé ósköp venjulegt.Bróðir hennar sem hefur skapað sér líf utan fjölskyldunnar, opnar glufu inn í heim sem hún hefur adrei heyrt talað um.
Fjölskylda hennar lifir nefnilega í lokuðum heimi þar sem orð heimilisföðurins eru lög, ekki bara heima hjá þeim, heldur að einhverju leyti líka hjá nágrönnum þeirra sem líka eru í söfnuðinum. Þau trúa því að þau þurfi að verja sig fyrir kerfinu, það er sett þeim til höfuðs, svo þau þiggja enga þjónusu. Börnin eru ekki skráð við fæðingu, þegar veikindi og slys steðja að, má ekki leita læknis og börnin fá ekki að sækja skóla. Þeim er kennt heima og innihald námsefnisins er sniðið að þeim sannleik,sem predikaranum, föður Töru, er þóknanlegur. Heimsendir er á næsta leiti. Þegar unglingsárin nálgast hjá Töru, er það einkum tvennt sem ræður því að hún vill komast í burtu. Henni fellur ekki að vinna við ruslaniðurrif fyrirtækisins. Vinnan er þrældómur, sóðaleg og auk þess hættuleg. Við þetta bætist að eldri bróðir hennar ógnar henni og misþyrmir.
En það er enginn hægðarleikur að komast burt, hvað þá komast inn í heiminn fyrir utan, sem hún vissi svo lítið um. Fyrst af öllu þurfti hún að láta skrá sig, eignast skilríki. Hana langaði að menntast og þá varð hún að gangast undir próf sem sýndi hvar hún stóð námslega.
Allt þettta þurfti Tara að gera ein, án stuðnings fjölskyldunnar og í óþökk hennar.
Síðari hluti bókarinnar fjallar um skólagönguna og mér finnst undravert hversu vel kerfið brást við þörfum hennar eftir að hún ákvað að treysta því. En Tara þurfti ekki bara að vinna upp það sem hún hafði misst af í skólakerfinu, hún þurfti líka að læra að að umgangast jafnaldra, hún varð að læra allt mögulegt sem hvergi stendur skrifað en er nauðsynlegt til að skilja aðra og vita til hvers er ætlast af manni.
Jafnframt þessu reyndi hún að ná sáttum við fjölskyldu sína, sem hafði afneitað hennni.
Þetta er grípandi ævisaga ungrar konu sem er enn svo ung, að innst inni finnst manni að hún sé rétt að byrja lífið. Líf hennar er ævintýri líkast eða martröð og hún er spennandi. Mestu skiptir þó að bókin er vel skrifuð.
Fleiri ævisögur
Meðan ég var að lesa baráttusögu Töru, varð mér oft hugsað til annarra kvenna sem einnig hafa sagt frá glímu sinni við að brjótast út úr erfiðum aðstæðum.Jeannett Walls (fædd 1960- )hefur skrifað bók sem heitir The Glass Castle. Í henni segir hún frá baráttu fjölskyldu sinnar við kerfið og hvernig sú barátta bitnaði á henni, ekki síst hvað varðaði menntun og vinatengsl. The Glass Castle hefur verið kvikmynduð. Í báðum þessum tilvikum er aðdáunarvert hversu vel kerfið tekur á málum þessara ungu stúlkna.
Enn ein saga um lífsreynslu ungrar konu
Meðan ég las, varð mér líka hugsað til enn einnar ungrar konu sem hefur skrifað um baráttu sína fyrir frelsi og tilverurétti. Það er Yan-mi Park (fædd 1993- ) og bókin heitir Með lífið að veði. Þar lýsir hún flótta sínum frá Norður Kóreu.
Öfgar og harðstjórn fara illa með fólk hvort sem þær koma frá ríkisvaldinu eða öðrum sem eru í aðstöðu til að kúga umhverfi sitt.
Lokaorð
Allar þessar frásagnir hafa hrifið mig og ég verð að játa, þótt því sé ekki saman að jafna, að mér varð líka stundum hugsað til eigin bernsku. Mér varð hugsað til ungu stúlkunnar sem fór út í heim með eina heimasmíðaða ferðatösku og sængina og koddann í hvítum hveitipoka. Ferðinni var heitið að Eiðum en ég hafði ekki áður verið í eiginlegum skóla. Nei, þessu er ekki saman að jafna, en ýmislegt úr minni reynslu eykur samkennd mína með þessum ungu stúlkum sem þurftu fyrst og fremst að stóla á sjálfa sig. Góðar bækur opna gjarnan á tilfinningar sem liggja kannski ekki alveg á yfirborðinu.
Myndin af höfundi er sótt á netið.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 2
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 64
- Frá upphafi: 188992
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 44
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.