16.8.2019 | 18:22
Smásögur heimsins
Smásögur heimsins:
Asía og Eyjaálfa er þriðja bókin í röðinni í hinni merku útgáfu Smásögur heimsins. Áður hafa komið út sögur frá Norður-Ameríku og Rómönsku Ameríku. Þá eru eftir sögur frá Evrópu og Afríku. Þegar maður hefur lesið þær allar er eins og maður hafi farið í heimsferð. Já og ekki neitt smáræðis ferðalag.
Hugmyndin að baki ritraðarinnar er að kynna fyrir Íslendingum smásögur frá öllum heimshornum. Sögurnar eru frá síðustu 100 árum. Auk þess að velja góðar sögur er leitast við sýna fjölbreytni og velja höfunda með ólíkan bakgrunn og efnistök.
Hverri sögu fylgir stutt kynning á höfundi.
Í þessari bók eru 20 sögur frá jafn mörgum löndum. Ég átti von á stærri bók. Í Asíu eru 48 lönd og enn fleiri menningarheimar. Þar býr meira en helmingur jarðarbúa en við þetta bætist síðan Eyjaálfa. Mér finnst það misráðið, því menningarlega séð á hún betur heima með Evrópu og þá hefði verið hægt að gera Asíu betur skil.Það er umdeilt hvernig á að skipta heiminum í heimsálfur svo ég hætti mér ekki lengra út í þessa umræðu en í raun sakna ég að ekki skuli vera eitt einasta land frá gamla Sovét.
Mér fannst merkilegt að lesa þessa bók frá löndum sem eru mér svo framandi. En þetta er enginn yndislestur því margar sögur fjalla um átök og óhuggulega atburði. Við erum kannski ekkert óvön því Íslendingar að fái fréttir af stríðum og voðaverkum frá framandi heimshlutum. 0g höfum sjálfsagt flest komið okkur upp varnarkerfi til að taka það ekki of mikið inn á okkur en það er öðru vísi að lesa/hlusta á frásögn af einstaklingum sem upplifa það á eigin líkama. Mér fannst merkilegt að finna hvernig efni bókarinnar kallaðist á við gamlar fréttir. Það var eins og þær lifnuðu við, afskaplega veit maður lítið, hugsaði ég. Það er erfitt að alhæfa um 20 sögur, sem eru eins ólíkar og þær eru margar og sögusviðið nær yfir s.l. 100 ár. Mig langar til að finna samnefnara og nú hef ég listað þær upp, svo að í næsta bloggi mun ég gera betur grein fyrir hverri og einni sögu. Ég á ekki von á að þetta verði læsilegt, ég geri þetta fyrir mig, ég er ástríðulesari og á stundum erfitt með að yfirgefa bækur.
Hljóðbókin
Það er vandað til gerðar þessarar hljóðbókar engu síður en til bókaflokksins í heild. Upplesararnir lesa vel og sumir frábærlega. Ég hefði viljað að þeir hefðu verið kynntir með hverri sögu, ég þekki sumar raddirnar en ekki allar. Þegar bók á borð við þessa er gerð mér aðgengileg sem hljóbók finn ég til mikils þakklætis.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 1
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 72
- Frá upphafi: 188989
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 52
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.