12.10.2019 | 15:30
Suðurganga með Sturlungu í farteskinu
Ferðalag með Sturlungu í farteskinu
Það er orðið langt síðan ég hef skrifað hér á síðuna mína um bækur en það þýðir ekki að ég hafi ekki lesið, ástæðan var allt önnur. Allt í einu missti ég löngunuina til að skrifa og nú líður mér eins og ég eigi eftir að gera upp fjölda útistandandi reikninga. En eins og lesendur mínir vita er ég fyrst og fremst að gera þetta fyririr sjálfa mig og það er höfuðsynd að svíkja sjálfan sig.
Ég ætla að byrja á því að tala um Sturlungu. Frómt frá sagt hefur engin bók kallað mig oftar til sín nema ef vera skyldi Biblían.
Báðar þessar bækur einkennast af mörgum matarholum.
Suðurganga
Þegar kom að löngu tímabærri Suðurgöngu, en svo kölluðust ferðalög forfeðra okkar og örfárra formæðra til Róm á kaþólskum tíma, fannst mér upplagt að taka Sturlungu með, ekki síst til að dreifa huganum í flughöfnum sem í mínum huga líkjast mest lýsingum á hreinsunareldinum.
Í Keflavík var þar komið sögu, að Þórður kakali var nýlentur á Gásum og á leið til systur sinnar á Keldum og Hálfdánar mágs síns.
Þórður kakali Ásgeirs Jakobssonar
En það hafði heldur betur hlaupið á snærið hjá mér, þegar ég var að leggja í hann, sé ég að það er búið að lesa bók um Þórð kakala inn hjá Hljóðbókasafni Íslands. Þar með var Sturlungulesturinn orðinn tvöfaldur. Meira um þá bók síðar.
Ferðalagið gekk vel og sama gildir um lesturinn. Ég skoðaði fleiri kirkjur en ég hef tölu á og þar með talin er Péturskirkjan, sem að var ekki til á tímum þeirra Sturlunga. En það er allvíða sagt frá Suðurgöngu þeirra sem þar koma við sögu , sem við þá er kennd. Reyndar er óljóst hvað þeir voru nákvæmlega að biðja Guð að fyrirgefa, en ekki held ég að þeir hafi verið að biðja hann um að fyrirgefa sér manndráp eða limlestingar á fólki, eða að fara eins og logi yfir akur rænandi og eyðileggjandi nema í þeim tilvikum þegar það sneri að kirkjunni. Um þetta var ég að hugsa þegar ég sat í svölum kirkjunum að flýja hitann og til að láta líða úr mér eftir langar göngur.
Við lestur Sturlungu hef ég hvað eftir annað staðið mig að því að vera að leita að hetju sem ég gæti haldið með. Leita að einhverjum sem væri betri en aðrir. Nú hef ég gefið það endanlega frá mér enda er ég í þessari lesskorpu búin að fara í aSauðsfellsför, drápin á Þorvaldssonum, Flóabardaga og Haugsnesorrustu og fleira og fleira. Andstyggilegastar að mínu mati eru þó limlestingar á saklausu fólki.
Etir að ég loks sætti mig við að það er engin hetja í Sturlungu, nema ef vera skyldi kona sem sem fóstraði litlu dóttur Sturlu og Sólveigar og skýldi með líkama sínum þegar óvinir réðust að heimilisfólkinu á Sauðafelli: Kona sú hafði gengið til kamars er Arngerður hét Torfadóttir. Hún fóstraði Guðnýju Sturludóttur. Og er hún varð vör við ófriðinn slökkti hún ljós í skálanum og hljóp til hvílunnar þar er mærin lá. Hún tók dýnuna og breiddi á sig en meyna lagði hún við stokkinn hjá sér og undir sig og gerði yfir krossmark og bað guð gæta.
Hetjur og skúrkar
Eftir árangurslausa leit að hetjum í Sturlungu, rann það upp fyrir mér að svona er þetta í öllum stríðum. Það er hernaðurinn sjálfur sem er sökudólgurinn. Strax og menn hafa fallist á að það eigi og þurfi að leysa mál með hernaði, gufa hetjurnar upp og eftir verða skúrkar. Hvað er ekki að gerast akkúrat núna í Sýrlandi?
En örlítiðmeira um bók Ásgeirs Jakobssonar um Þórð kakala. Bókin kom út 1988, en þá hafði áhugi minn á Sturlungu ekki enn kviknað. Nú þegar hún kemur út sem hljóðbók var hún mér kærkominn happafengur. Hún er lesin af Hirti Pálssyni, réttur maður á réttum stað. Þegar ég skoða bókina í bókasafni, sé ég að hún er myndskreytt af Gísla Sigurðssyni ritstjóra og myndlistarmanni. Myndirnar eru prentaðar í lit og afar tjáningarríkar.
Nú meðan þetta er skrifað fer fram fótboltaleikur milli Frakka og Íslendinga. Enn er 0-0.
Er ekki hægt að breyta samskiptum þjóða og há kappleiki í stað stríða?
Mymdin er úr bók Ásgeirs Jakobssonar.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 63
- Frá upphafi: 188991
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 43
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.