29.5.2017 | 21:18
Kör - Hugsað til fortíðar -
Nú er liðið eitt ár og einn mánuður síðan ég varð ógöngufær. Ég ætla að minnast dagsins til að skrifa um kör karlægur vera komin í kör.
Reyndar er alls ekki þannig komið hjá mér, en mér hefur oft verið hugsað til formæðra minna og forfeðra. Hvernig leið þeim? Hver var staða þeirra? Ég veit ekki til þess að þetta hafi verið rannsakað en finnst trúlegt að atlætið hafi farið eftir efnum og aðstæðum. Þá sem nú.
Það er ekki fullkomlega ljóst hver uppruni orðsins kör er. Í Orðsifjabók Ásgeirs Blöndals eru raktar nokkrar tilgátur. Hann telur ekki afstöðu til hver þeirra sé sönn.
En hvað sem upprunanum líður er kör og karlæg/ur lifandi mál. Þegar ég hugsað til veikra fyrr á tímum, spyr ég mig: Hvernig var lífið fyrir tíma verkjastillandi lyfja. Ósköp hefur vesalings fólkið þurft að þjáðst. Ekkert Tramól, ekkert Aroxia ekkert Íbúfen.
Í veikindum mínum nýt ég þess að hlusta á tónlist og á góðar hljóðbækur. Ósjálfrátt hugsa ég vesalings fólkið, mikið hefur því leiðst að geta ekkert gert sér til dægrastyttingar.
Víða í Íslendingasögunum kemur gamalt fólk við sögu. Þó man ég ekki eftir að beinlínis sé vikið að líðan þess. Í Laxdælu segir frá Hólmgöngu Bessa. Hann orti þessa skemmtilegu vísu:
Liggjum báðir
í lamasessi
Haldórr ok ek,
höfum engi þrek ;
veldr elli mér,
en ska þér,
þess batnar þér,
en þeygi mér.
Tilefni vísunnar var að hann lá ósjálfbjarga í rúminu, fólkið var á engjum. Við hlið hans var
barn í vöggu. Vaggan valt og hann gat ekkert að gert. Ekkert nema yrkja þessa vísu, sem enn heldur uppi nafni hans.
Karlæga fólkið okkar í nútímanum er að því leyti betur sett en fólk fyrri alda, að það fær bæði verkjastillandi lyf og aðhlynningu á hjúkrunarheimilum, þegar þar er pláss. Þeir sem ekki fá pláss liggja á legudeildum spítalanna. Oftast, og nær alltaf, heyrum við talað um það vegna þessa. Það er fyrir. Mikið hlýtur að vera leiðinlegt að heyra að maður sé fyrir.
Egill Skallagrímsson var erfitt gamalmenni og hann var líka fyrir. Hann þvældist fyrir fótum eldabuskunnar. Hann var hæddur af vinnufólkinu á Mosfelli en hann gat svarað fyrir sig í bundnu máli. Það hefur verið eins og að taka inn verkjapillu.
Og svo lúrði hann líka á illa fengnu fé. Þórdísi (barnabarni) tókst af telja hann ofan af því að dreifa því yfir þingheim en hann gróf það í jörð. Svo vel að það hefur ekki enn fundist.
Skyldu einhver gamalmenni sem nú þvælast fyrir eiga silfursjóði? Ég veit það ekki en hitt veit ég að það eru margir að safna digrum sjóðum og miklu meiru en þeir geta tekið með sér yfir um. Og það fé er ekki allt vel fengið.
Ég ætlaði að setja punktinn hér en get ekki stillt mig um að rifja upp söguna um Þórólf bægifót, sem var vondur maður hann var afspyrnu erfitt gamalmenni og gekk svo aftur. Hann varð svo öflug afturganga að við lá að byggð færi í eyði. Skyldi aldrei hvarfla að valdamönnum sem gæta sjóða, til að ausa úr, hvort einhver sem liggur þarna, fyrir öllum, eigi eftir að ganga aftur og hefna? Nei þeir þekkja ekki Eyrbyggju.
Myndin er af ylpoka fyrir kalda fætur (eigin hönnun).
Fannst myndin passa, gömlu fólki er oft kalt á fótunum
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (5.12.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 17
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 15
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.