14.11.2016 | 15:08
13 dagar: Árni Þórarinsson
Eftir að hafa glímt við Ó- sögur um djöfulskap, langaði mig til að lesa eitthvað létt. Bók Árna Þórarinssonar, Þrettán dagar, varð fyrir valinu. Ég reyni að fylgjast með íslenskum glæpasögum sem út koma en verð oftar og oftar fyrir vonbrigðum. Veit þó ekki hvort það er sögunum að kenna eða hvort ég hef breyst.
Einu sinni tók ég kúrs (við Uppsalaháskóla) í því sem hét þá á sænsku, triviallitteratur (afþreyingarbókmenntir). Við vorum látin lesa glás af slíkum bókum, sem fengust oftast við kassann í matvörubúðum. Mér fannst allt í lagi að kaupa Dashiell Hammet og Raymond Chandler. En það kom hik á mig þegar röðin kom að því að kaupa rauðar og bleikar ástasögur. Hvað ætli kassa- daman haldi um mig? Á ég að segja að ég sé að kaupa þetta fyrir einhvern annan? Svo skammaðist ég mín. Og skammaðist mín enn meira fyrir að skammast mín. En nóg um það. Kúrsinn gekk vel og eina menntunin sem ég hef í bókmenntafræði fjallaði um slíkar bækur.Líklega var erfiðast við þennan ágæta kúrs vandinn við að skilgreina, hvaða bækur féllu undir hugtakið triviallitteratur sem kúrsinn gerði út á.
Eins og oft gerist í námi, lærði ég mest um sjálfa mig. Nú vissi ég að ég var hégómleg. Auk þess komst ég að því að ég hafði meira gaman af siðfáguðum ráðgátubókum í anda Agötu en hörðum krimmum, með sóðalegum morðum þar sem söguhetjan áttu oftast byssu en beittu þó hnúum og hnefum, þegar kom til kastanna. Ég vissi líka að ég tók, Maigret Simenons og Beck, með sitt rólega fas, fram yfir James Bond.
Nám mitt í ástarsögufræðum skilaði mér ekki eins miklu. Þó lærði ég formúluna og að ungar stúlkur verða oft ástfangnar af röngum manni, sjá ekki góða strákinn. Þetta vissi ég reyndar áður. En það var gott að fá það staðfest.
Ég hef ekki hugsað um þetta lengi en það kom til mín þegar ég var að lesa bók Árna um blaðamanninn Einar, sem ævinlega flækist inn í mál, sem hann er að skrifa um. (Einar virðist líka verða ástfanginn af óheppilegum konum). Hann er nú hreint engin hetja en glæpirnir eru sóðalegir.
Sögurnar um Einar blaðamann eru raðglæpasögur (er að reyna að forðast að nota séríuglæpasögur), maður þarf og lesa hverja og eina og helst í réttri röð.
Nú vinnur Einar á blaði sem minnir um margt á Dagblaðið. Hann er í sambandi við alveg venjulega konu og er ábyrgur faðir. Ef það er ábyrgt að taka 16æ ára barn með sér við að fletta ofan af hættulegum glæpamönnum en hann hefur fengið Gunnsu dóttur sína til liðs við sig.
Sagan fjallar um íslenskan glæpaheim, sem er alltaf erfiðari viðfangs en sá útlendi. Í útlöndum getur allt gerst. En það er erfitt að sannfæra ísenskan lesanda um íslenska glæpi. Hér fréttist allt, líkfundur í Elliðaárdalnum myndi ekki hafa farið fram hjá neinum. Líklega er það að einhverju leyti þess vegna sem mér féll ekki nógu vel við þessa bók. Ekki hjálpar það hvað ég er illa að mér um engilsaxneska popptónlist. En Árni notar hana mikið til að skapa andrúmsloft og er áreiðanlega vel að sér. Og svo hafði ég ekki lesið bókina á undan.
Ég er sem sagt búin með þessa bók og ætla við tækifæri að lesa bókina sem mig vantar inn í, Morgunengil.
Myndin er tekin á góðum degi í Elliðaárdalnum.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (26.11.): 1
- Sl. sólarhring: 5
- Sl. viku: 38
- Frá upphafi: 189018
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 31
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.