7.10.2016 | 18:46
Ferð til fjár? Að safna og hafna; Hugarsýn listamanns
Þetta er ekki minn dagur.
Í dag brugðum við undir okkur betri fætinum, tvær vinkonur og fórum á sýninguna Safna og hafna, smáverk í eigu Guðbergs Bergssonar í Listasal Mosfellsbæjar. Þetta er talsvert ferðalag, Mosfellsbær er ekki í alfaraleið finnst mér. Við vinkonurnar erum báðar aðdáendur Guðbergs og langaði til að sjá listaverkasýningu þar sem verkin eru valin og raðað upp af Guðbergi. Þannig hélt ég, að ég gæti horft á listina með hans skörpu augum og séð hana í gegnum síu hans vitra hugar.
En þegar á hólminn var komið, var Listasalur Mosfellsbæjar lokaður vegna héraðsskjalabókavarðaráðstefnu. Þetta urðu okkur mikil vonbrigði og við ræddum við elskulegan starfsmann (konu) um hvað við gætum gert. Við sögðum henni að það væri ólíklegt að við kæmumst seinna því önnur okkar býr út á landi. Eftir þó nokkurn vandræðagang bauð hún okkur að nýta okkur kaffihlé ráðstefnugestanna og fara inn með þeirra leyfi.
Salurinn var þéttskipaður áhugasömum héraðskjalabókavörðum og þeir hafa örugglega verið að fjalla um eitthvað stórmerkilegt, því kaffitíminn var notaður til að ræða áfram um viðfangsefni dagsins. Við smeygðum okkur inn eins og mýs meðfram veggjunum og rýndum. Myndirnar voru litlar svo það var mikilvægt að komast nærri þeim, ekki síst fyrir mig sem er farin að tapa sjón. Á miðjum vegg þar sem við vissum að Picasso-myndin átti að vera huldi sýningartjald ráðstefnunnar. Á bak við voru tvær myndir. Við lyftum tjaldinu og kíktum. Handbragðið leyndi sér ekki, einföld mynd en sterk. Ramminn aftur á móti var í undarlegri mótsögn, flúraður og dúllulegur. Var þetta með vilja gert? Við fikruðum okkur meðfram veggjunum, rástefnugestir drukku kaffi og töluðu. Þeirra á meðal var kær vinkona sem ég þurfti að heilsa og tala við um að við yrðum að fara að hittast. Áfram héldum við.
Í horninu þar sem fuglinn var sem Guðbergur hafði sagt að tengdist Maríu mey, var fatahengi og engar myndir aðgengilegar. Í framhaldi af horninu var fólksþvagan þéttust og það var ómögulegt að komast að. Þarna áttu, samkvæmt skránni, að vera listaverk frá Afríku. Merkilegt að skoða sýningu og vera upptekin af því sem ekki sést.
Svo var kaffihléið búið og þar með tíminn sem okkur var skammtaður til að skoða þessa sýningu.Það var sem sagt ekki nokkur leið að fá heildarmynd af sýningunnniog ég veit ekki hvernig Guðbergur hefði sj´lfur brugðist við í þessum aðstæðum. Þar með gat ég ekki nýtt augu hans hvað þá hugann.
Við yfirgáfum svæðið og í huga mér tókust á andstæðar tilfinningar. Annars vegar þakklæti fyrir það að fá að kíkja. Hinsvegar gremja yfir því að vera göbbuð og koma að lokuðum dyrum á sýningu sem nýbúið er að auglýsa í sjónvarpi og útvarpi. Sem betur fer vó þakklætistilfinning sterkar. Það gerði notaleg framkoma starfsfólksins í safninu sem var svo elskulegt. Það var það sem upp úr stendur eftir þessa furðulegu sýningarferð, það er alltaf mannlegi þátturinn sem vegur þyngst þegar upp er staðið.
Á eftir settumst við vinkonurnar inn á kaffihús og skoðuðum sýningarskrána. Hún er list um list. Vinkonan sagði mér að það væru allt of margar ritvillur í henni. Sjálf er ég bara búin að lesa glefsur. Það er að mörgu að hyggja þegar gera á sýningu. Í þessu tilviki held ég það sé best að virða viljann fyrir verkið.
ARTPRO prentþjónusta sá um prentun á sýningarskránni.
Myndin sem fylgir er af lítilli fallegri mynd á sýningunni. Myndin er af Rilke
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (25.11.): 6
- Sl. sólarhring: 7
- Sl. viku: 43
- Frá upphafi: 189017
Annað
- Innlit í dag: 6
- Innlit sl. viku: 36
- Gestir í dag: 6
- IP-tölur í dag: 6
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.