Upp á sigurhæðir: Ævisaga Matthíasar Jochumssonar

image

Ég dæmi ekki bækur, ég skrifa um lestrarupplifun. Hún getur ráðist af því hvernig bókin hittir mann fyrir, kemur inn í líf manns.

Ég hef lokið við að lesa bókina Upp á Sigurhæðir: Saga Matthíasar Jochumssonar eftir Þórunni Erlu- og Valdimarsdóttur. Bókin er 672 blaðsíður og vegur næstum tvö kíló. Bókin er prýdd mörgum myndum. Þetta er sem sagt engin koddalesning, sem er kannski skýringin á að ég las hana ekki fyrr en nú, en hún kom út 2006. Nú hlusta ég á hana sem hljóðbók. Það er Jón B. Guðlaugsson sem les, hann er áheyrilegur. Það tekur u.þ.b. 24 klukkustundir að hlýða á bókina og þeim tíma var vel varið.

Líklega er rétt að geta þess hér að ég hef aldrei ha

ft neinar sérstakar mætur á Matthíasi og var til þess að gera ófróð um hann. Mér fannst lítið koma til hans sem skálds og sumt beinlínis leiddist mér. Þessi bók breytti áliti mínu, sem er gott. Fyrra viðhorf mitt byggði á fáfræði. Líklega veldur þar mestu um að nú sé ég Matthías í aðstæðum sem hann bjó við, sem mótaði hann. Seinna átti hann sjálfur þátt í að móta sína eigin samtíð. Matthías hafði mikil áhrif á fjölmarga þætti þjóðlífsins. Skoðanir hans voru í átti til meira frjálslyndis og jafnræðis. Það var t.d. ekkert hik á honum varðandi stöðu kvenna, hann taldi að þær ættu sama rétt og karlar.

Skáldskapurinn verkfæri hans til að setja fram skoðanir sínar.

Bók Þórunnar er ekki bara ævisaga, hún er líka aldarfarslýsing. Það er gaman að bera þessa tíma saman við okkar tíma. Þórunn hefur úr miklu efni að moða, bæði úr blöðum og tímaritum og úr einkabréfum. Fólk þessa tíma var ótrúlega duglegt að skrifa og það er merkilegt að sjá hvað er látið fjúka. Feisbók er ekkert í samanburði við bréfaskriftir þeirra.

Matthías vildi þróa hugmyndir kristninnar á þann veg að ekki yrðu stöðugir árekstrar við vísindakenningar þess tíma og skynsamleg rök. Hann fann að hann átti samleið með Únitörum og tók að sér að vinna að framgangi þeirra á Íslandi. Það er þó spurning um hvort hann efndi loforð sín, því hann kaus að gera þetta á þann veg að fara ekki í stríð við kirkjuna, en vinna fyrir málstaðinn með skrifum og fyrirlestrum. Ég hefði kosið að Þórunn hefði fjallað ítarlega um hugmyndir   Únitara en hef reynt að bæta mér það upp með því að lesa mér til annars staðar.

Það var gaman að lesa þessa bók, Matthías er hrífandi persóna, fjölhæfur og mikilvirkur. Það er ótrúlegt hvað liggur mikið eftir hann. Það hefur oft verið fundið Matthíasi til foráttu að hann var stöðugt á höttunum eftir peningum. Sumum fannst hann leggjast lágt.

En þá ber á það að líta að hann er af alþýðufólki kominn  og var aldrei eignamaður og hafði fyrir mörgum að sjá. Enn er listamönnum núið upp úr því að þeir séu ómagar sem lifi á öðrum.

Lokaorð

Það var þýðing Matthíasar á Sögum herlæknisins sem ýtti við mér að lesa þessa bók. Þýðingin er snilld, sérstaklega fannst mér formálinn merkilegur. Nú að lestri loknum finn ég til tómleika, eins og ég hafi kvatt vin.

Það er ekki nokkur vegur að rekja þessa löngu sögu hér. Ég hef staldrað við fáeina þætti sem mér finnst gaman að skoða betur, sem, skoða í ljósi dagsins í dag. Mér fannst Þórunn fara hratt yfir sögu í lok bókarinnar, mín vegna hefði hún mátt vera lengri.

Myndin er sótt í bókina. Hún er teiknuð af Hannesi Hafstein


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 189015

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband