18.9.2016 | 19:31
Þræðir fortíðar: Sögur herlæknisins
Spuni minninganna
Ég mun minnast þessa sumars, sem sumarsins sem ég var ógöngufær og tók að mér það verkefni að fjalla um heimilistæki fyrir tíma rafmagns. Við viðfangsefnið studdist ég við eigin minningar, auk þess sem sem ég las mér til. Hugurinn var því eðli málsins samkvæmt mikið austur í Breiðdal. Ég hugsaði til foreldra minna, til foreldra þeirra. Ég hugsaði um hugmyndaheim þeirra, mynd þeirra af heiminum. Allt í einu var ég farin að hugsa um hvað þau lásu. Foreldrakynslóð mín ólst upp við að lesa Sögur herlæknisins. Pabbi vitnaði oft til þeirrar sögu. Ég hafði aldrei lesið hana og í krafti þess að ég var að leitast við að sjá fortíðina, ákvað ég að lesa þessa sögu. Svona geta minningar spunnið þráð.
Sagan
Nú hef ég lokið fyrstu bók af þremur. Sögurnar sem eru eftir Zacharias Topelius, komu út í Finnlandi á árunum 1851-1866. Þetta er söguleg skáldsaga um sögu Finnlands og Svíþjóðar. Rammi þessara frásagna er nokkurs konar finnskt baðstofulíf, þar sem gamli herlæknirinn segir sögurnar í áföngum. Sögurnar komu út á íslensku á árunum 1904-1909 í þýðingu Matthíasar Jochumssonar. Bókin hefur nú verið endurútgefin rafrænt. Matthías skrifar formála að bókinni þar sem hann gerir grein fyrir hugmyndum sínum um þýðingarvinnuna. Þýðingin er snillþd. Þetta er stórvirki og hreint ótrúlegt að slíkt skuli vera gert í hjáverkum.
Þetta er ekki bók sem leyfir lesanda sínum að slaka á. Þetta er saga mikilla átaka og hörmunga ýmist af mannavöldum eða af harðræði sem náttúran leggur á fólk. Eitt tekur við af öðru, stríð, hallæri og hungurdauði. Krydd frásagnarinnar er glæsileiki aðalsins, ástir og ofbeldi.
Fyrsta sagan segir frá Gústaf Adolf og þrjátíu ára stríðinu og frá dögum þeirra Karls X. og lýkur á dauða Karls XI. Aðalpersónur sögunnar eru uppskáldaðir söguhetjur finnskrar ættar, þeir Bertenskjöld hershöfðingi og seinna sonur hans Bertenskjöld greifi. Bertenskjöldarnir eru límið í þessari sögu.
Þetta er svo breið og löng saga að mér dettur ekki í huga að reyna að endursegja hana. Það sem ég hrífst af er frásagnargleðin, hvernig hann lætur söguna koma til okkar með því að sviðsetja og tengja. Þetta er ljót saga. Alþýðan er fátæk og kúguð og sænskir kóngar flengjast um Evrópu og drepa fólk og spilla landi í nafni trúarinnar. Hver trúir því. Það er eins og höfundur sjái ofbeldið og óréttlætið en hann er samt veikur fyrir glæsileka aðalsins og færir rök fyrir því að þeir geti gagnast fólki ef rétt er á haldið. Frásögnin minnir stundum á Íslendingasögurnar, stundum er hún rómantísk og skáldleg.
Samanburður
Meðan ég var að rifja upp hvaða heimilistæki voru í notkun fyrir tíma rafmagns, horfi ég á mynd af fjölskyldu föður míns. Það kom ljósmyndari á bæinn og fólkið dreif sig út. Afi hafði verið í smiðju og þvoði sér ekki einu sinni í framan, sagði amma. Mér þykir ekki ólíklegt að afi hafi lesið Sögur herlæknisins. Kannski upphátt fyrir fjölskylduna. Það voru aðrir tímar fyrir rafmagn.
Við lesturinn ber ég atburði sögunnar saman við það sem var að gerast í okkar landi. Við vorum fátæk og smá en við þurftum ekki að þola stríð eða skaffa hermenn á vígvöll.
Ég hrósa happi að ég skyldi detta niður á þessa bók og velti fyrir mér hvað áhrif hún hefur haft á sína samtíð.
Fyri myndin er úr bókinu og sýnir dauða Gústaf Adolfs. Listamanns ekki getið.
Síðari myndin er af fjölskyldu föður míns.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 63
- Frá upphafi: 188991
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 43
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.