12.3.2015 | 19:58
Vandinn að ljúka bók sem manni leiðist
Þegar ég lendi í því að leiðast bók sem aðrir lofa,verð ég rökstyðja vel fyrir sjálfri mér, hvers vegna mér fellur ekki bókin. Og nú, eftir að ég fór að hugsa upphátt á netinu, finnst mér að ég þurfi að greina öðrum frá því líka. Bókin sem síðast geri mig að fórnarlambi sínu heitir Alex eftir Pierre Lemaitre. Hún er margverðlaunuð og sögð meistaraverk. Þetta er saga um vont og ómerkilegt fólk, raðmorð og kynferðisofbeldi og fleira.
En fyrst og fremst er þetta saga um vont og lítilfjörlegt fólk. Það er falskt, lygið, ljótt og hjákátlegt. Það er engin von, engin birta neins staðar. Meiri hluti sögunnar er sagður út frá sjónarhorni hins agnarsmáa lögregluforingja, Camille. Hann er ekkert of öruggur með sig en hikar ekki við að hóta fólki, tala niður til þess og niðurlægja það. Samstarfsmenn hans eru annarsvegar stelsjúkur nirfill og hins vegar maður sem gengur í merkjafötum. (Það er verst að nöfnin að merkjunum segja mér ekki neitt, er illa að mér um merki.) En samstarfið hjá þeim gengur vel og þeir eru duglegir í vinnunni.
Í þessum vonda heimi eru glæpir nánast eðlilegir. Hvernig ætti annað að vera enda er þetta glæpasaga. Reyndar segir það ekki neitt því þær eru ólíkar. Þegar ég var komin í miðja bók var ég komin að þeirri niðurstöðu að bókin væri kveljandi leiðinleg, að hún væri ekki bók fyrir mig en ég ákvað samt að ljúka henni. Mér leðast lýsingar á pyndingum, sóðaskap og hrottaskap. Raðmorð eru endurtekningar með varíasjónum, nokkurs konar mínímalismi í hrottaskap. Frekar leiðigjörn. En verst þóttu mér þó heimssýn lögreglumannanna sjálfra, algjört svartnætti.
Þegar þangað var komið í lestrinum og ég var búin að skilgreina fyrir sjálfri mér hvers vegna mér felli ekki bókin, fór ég allt í einu að hugsa um aðra bók, sem er líka frönsk og vissulega mætir sögumaðurinn miklu mótlæti og þarf að horfa upp á enn verri hörmungar,en raðmorð. En lífssýn hans er full vonar enda lifir hann í besta heimi allra heima. Eftir þessa uppgötvun, kannski kallast bókin Alex á við Birtíng, varð upplifun mín af bókinni önnur og næstum gefandi.
Ég lauk þessari bók og hún hefur kveikt ýmsar hugmyndir, hún er vel skrifuð og oft fyndin. Ég er að vissu leyti þakklát, því mikið er ég fegin að lifa í betri heimi en þeim sem bókin lýsir. Í minum heimi heyrir svikult, illkvittið, ómerkilegt fólk til undantekninga, það er svo fátítt að það er vandi að sneyða hjá því. Fólk sem myndi falla í þennan flokk fær sýna þjónustu (ef upp kemst) hjá okkar hógværa og kurteisa sérstaka saksóknara og lögreglu sem ég held að sé upp til hópa normal. En ég er e.t.v. í ætt við Birting og tel mig lifa í besta heimi allra heima.
Þó svo að þessi bók kallast e.t.v. á við Birtíng, held ég að hún verði ekki á metsölulistum eftir 256 ár.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 7
- Sl. sólarhring: 7
- Sl. viku: 34
- Frá upphafi: 189271
Annað
- Innlit í dag: 6
- Innlit sl. viku: 31
- Gestir í dag: 6
- IP-tölur í dag: 6
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.