Egill Skallagrímsson allur

image

Hef rennt í gegnum Egilssögu en fjölmargt er þó enn ekki fullrannsakað af minni hálfu. Fljótlega eftir að ég hóf lesturinn festist ég við spurninguna:Hvað gekk höfundinum eiginlega til? Í fyrstu datt mér í hug, að hann hefði verið trúaður maður og að hann hefði viljað skapa persónu sem væri öðrum víti til varnaðar, fulltrúa dauðasyndanna sjö. Sú kenning gekk upp nema hvað varðaði munúðina. En kannski hefur mér yfirsést. 

Stundum fannst mér höfundurinn væri fyrst og fremst að skemmta sjálfum sér, frásögnin er oft grótesk. Það er ekki beinlínis hetjulegt að æla yfir fólk, krækja út augun eða bíta það á háls. 

Það er sjálfsagt heldur engin tilviljun að réttlætismál Egils,að heimta arf konu sinnar stangast alveg á við ,,réttlætismál" Þórólfs föðurbróður hans að hindra Hildíriðarsyni að frá að fá arfahlut móður sinnar. En í báðum tilvikum var spurning um hvort hjónabandið væri ekta en konurnar höfðu verið brottnumdar án vilja föður. 

Bygging Egissögu er óvenjuleg. Hún rís hæst í byrjun og lesandinn, þ.e.a.s. ég trúi því alveg að voldugir höfðingjar hafi tekist á. Landnámskaflinn er af sama toga. Enn eru höfðingjar á ferð. Kaflinn sem segir frá því þegar þeir bræður, Þórólfur og Egill börðust með Aðalsteini konungi er eins og sjálfstæð saga og mig langaði mest til að hætta lestri Egilssögu og einhenda mér í að lesa um Englandskonunga og stríðssrekstur á miðöldum.

Eftir dvöl Egils á enskri grund dalar sagan. Eftir þetta kom Egill mér fyrir sjónir sem  ævintýramaður á flækingi ef  undan er skilinn skáldskapurinn og hann hef ég ekki enn skoðað nægilega. Ég er ekki læs á dróttkvæði og jafnvel með hjálp skýringanna í fornritaútgáfunni, veitist mér það erfitt. Líklega væri best að lesa Egilssögu á sænsku, þá eru vísurnar mun léttari.

Síðasti hluti sögunnar, þar sem segir frá Agli eftir að hann er hættur siglingum, er furðulegur. Á sænsku myndi maður segja að hann væri påklistrad, klínt við. Þar segir frá Þorsteini syninum, sem Egill elskar lítt. Reyndar er rætt um að hann hafi verið mannasættir og elskur að móður sinni. En það sem á eftir fer ber ekki vott um að hér sé dáðadrengur  á ferð. Hann leggst lágt þegar hann stelst til að nota spariföt pabba síns á Þingvöllunum og það er lítið hetjulegt eða drengilegt við að drepa þræla. Honum er ekki einu sinni treystandi fyrir eigin syni.

Það er mörg matarholan í þessari bók. Ég á eftir að kryfja hana betur. En höfundurinn kann svo sannarlega að enda sögu. Enn spyr fólk sjálft sig, hvað gerðist. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl og takk fyrir síðast. 

Egla verður án efa seint fullkrufin.

Áhugavert er að reyna að meta textann út frá félags(-fræði-)legu afstæði. Hægt er að taka undir að samkvæmt okkar viðmiðum og lífsgildum er Egill villimaður, nokkrir samferðamenn hans hafa líklega verið sama sinnis. En sá sem segir frá honum tekst held ég nær alltaf að sleppa frá því að leggja siðferðilegan dóm á þessar gjörðir hans, jafnvel þannig að afstaðan sé ekki að öllu leyti neikvæð.

Þetta er reyndar ekki eina frásögn Íslendingasagna sem hefur þessa hlutlausu afstöðu til þess að vega mann og annan. Það var í sumum tilfellum réttlætanlegt í deilum manna. Hugsanaviðmið manna á þjóðveldisöld, víkinga, voru önnur en okkar.

Það er því áhugavert að reyna að gera sér mynd af því samfélagi sem ríkir á þjóðveldisöld, fyrir og eftir ritöld og fyrir og eftir upptöku kristins siðar. Dauðinn hafði aðra þýðingu á þessum tíma og breytist ótrúlega seint.

Hvers vegna sækir Þórdís Egil úr haugi sínum, úr heiðnum reit í vígðan kirkjugarð? Síðar meira að segja gefa honum konunglega greftrun með því að reisa yfir gröf hans nýjan kór kirkjunnar að Mosfelli/Hrísbrú? Ef til vill bendir þetta til öflugrar trúar á líf eftir dauða, þar sem gengið er út frá því að við göngum á vit áa okkar að aflokinni hérvist. Og þessi flutningur getur ekki hafa átt sér stað löngu eftir kristnitöku árið 1000, sem styður það að hann sé meira heiðinn en kristinn. Kristinnalaga þáttur Grágásar reynir auk þess að stoppa þennan heiðna sið, að grafa upp bein forfeðranna og hafa með sér milli siða, en hugsanlega líka vegna landfræðilegra flutninga, bæði einstaklinga en líka með tilfærslum á kirkjugörðum.

Mér finnst reyndar tengsl Þórdísar og Egils vera áhugaverð og skoðunarverð, þó ekki sé mikið ritað í Eglu um þeirra samskipti. Þeim mun meira má lesa milli línanna eins og til dæmis þegar hún svarar honum um hve gæfulegt væri að dreyfa silfri yfir þingheim með tilheyrandi hrundingum og pústrum. Þórdís segir þá: Þetta þykir mér þjóðráð, og mun uppi, meðan landið er byggt.

Ekki meira að sinni.

Kveðja 

Björn Þráinn

Björn Þráinn (IP-tala skráð) 7.3.2015 kl. 22:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 27
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 25
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband