Honum var margt til lista lagt. Minningarorð um Sigurð V. Kristinsson

 

 image

Síðast liðinn laugardag fylgdi ég mági mínum,  Sigurði V. Kristinssyni til grafar. Hann var jarðsettur í Eydalakirkjugarði. Mig langar til að minnast hans með fáum orðum en það er vandi að minnast nákominna, það er svo margs að minnast.

Sissi eins og Sigurður var kallaður, var fæddur á Djúpavogi (1936) en hann sleit barnsskónum í Merki. Merki stóð innan við bæinn og var einn af bæjunum í Hálsþorpinu, sem þá var. Foreldrar hans voru Sigurborg Sigurðardóttir og Kristinn Jóhannsson. Systkinin í Merki voru fimm. Þau sóttu skóla á Djúpavog, gengu fram og til baka, hvernig sem viðraði. Sissi lauk þar barnaprófi en ekki varð skólaganga hans lengri, ef undan er skilið námskeið hjá Söngmálaskóla  þjóðkirkjunnar. Það gerði hann reyndar eftir að hann hafi um nokkuð skeið sinn starfi orgelleikara í Djúpavogskirkju. Kennarinn í mér veltir stöðugt fyrir sér hvernig fólk læri og menntist. Barnaskóli Djúpavogs hefur greinilega verið góður skóli, a.m.k. nýttist námið úr þeim skóla Sissa vel. Allt sem hann átti eftir að taka sér fyrir hendur á lífsleiðinni fórst honum vel úr hendi.

Trúlega gera fæstir sér grein fyrir hversu stutt er síðan tæknin nam land á Íslandi. Þegar Sissi var að alast upp í Merki var þar ekki sími og ekkert vélknúið farartæki. En tæknivæðingin var á leiðinni og Sissi var einn þeirra manna sem greiddi henni leið. Hann hafði ótrúlegt næmi til að setja sig inn í og skilja flókna hluti. Til hans var leitað með uppsetningu nýrrar tækni og ef eitthvað bilaði, var ekki síður gott að leita til hans til að koma því í lag.

Ég kynntist Sissa fyrst eftir að þau Ásdís systir mín og hann höfðu ákveðið að eigast. Hún var þá ráðskona hjá vegagerðinni og hann var ýtumaður. Mér leist strax vel á unga manninn sem systir mín kynnti fyrir mér í vegavinnubúðunum við Berufjörðinn 1959 og ég átti eftir að sannreyna það.

Ásdís og Sissi bjuggu fyrstu búskaparár sín í Borgargarði á Djúpavogi. Hún vann sem ljósmóðir, hann sá um nýstofnaða mjólkurstöð kaupfélagsins. Á Djúpavogi eignuðust þau drengina sína tvo, Hlíðar og Arnald. Það var í mörgu að snúast, hjónin bæði í krefjandi starfi og ekki gerði það lífið léttara að eldri sonurinn var fatlaður frá fæðingu og þurfti meiri umönnun en önnur börn. Ég bjó oft hjá þeim á þessum tíma og komst nú að því að ýtumaðurinn var ekki síður laginn við að annast börn en að byggja upp vegi. 

Síðar fluttust þau búferlum í Breiðdal og hófu búskap á Hlíðarenda en foreldrar mínir bjuggu þá enn í Þrastahlíð sem stendur í sama túni og er byggt út úr Hlíðarenda. Vélamaðurinn og tónlistarmaðurinn Sissi var nú orðinn bóndi. Kunnáttu hans á tæknisviðinu kom sér vel í búskapnum en það var lítill tími til að sinna gömlum draumum því, ef þú réttir búskap einn fingur, tekur hann alla höndina. Ásdís vann á þessum tíma einnig að hluta til utan heimilis, nú í tengslum við heilsugæsluna á Breiðdalsvík. 

Fljótlega eftir að Ásdís og Sissi hófu búskap í Breiðdal var leitað til þeirra um að taka börn í sveitadvöl. Þessi börn áttu eftir að vera mörg. Sum komu í gegnum opinbera aðila en önnur í gegnum vinatengsl. Þau voru á ólíkum aldri og dvöldu mislengi, sum líka vetrarlangt. Á sama tíma voru börnin mín hjá afa sínum og ömmu í Þrastahlíð, en það var mikill samgangur milli bæjanna. Í lífi allra þessara barna var samvera og samstarf við Sissa hluti af æsku þeirra. Hann var góð fyrirmynd. 

Honum var margt til lista lagt, ekki bara tækninörd (orðið var ekki til þegar hann var upp á sitt besta) heldur hafði hann gott eyra fyrir tónlist og lagði rækt við þann eiginleika um nokkurt skeið. Þegar sjónvarpsútsendingar hófust náði geislinn frá Gagnheiði ekki til Hlíðarenda. Sissi leysti sjálfur málið með því að reisa móttökudisk fyrir ofan bæ og leiða geislann heim í stofu. Þegar tölvur hófu innrás sína opnaðist Sissa nýr heimur. Hann greip þessa tækni feginshendi og gat fljótlega leiðbeint öðrum um nýtingu hennar. Seinna þegar þau hjón hófu búskap varð hann bóndi með áhuga á ræktun og uppbyggingu. Enn síðar eftir að þau höfðu brugðið búi, tóku þau upp á því að byggja upp lítið ferðaþjónustufyrirtæki með heimagistingu og sumrhúsum. Enn koma í ljós ótrúlegir styrkleikar Sissa, hann gat bjargað sér á tungumálum sem enginn vissi til að hann hefði lært. Líklega hefur hann lært það sem hann kunni í gegnum tónlistina og með því að lesa upplýsingar með tækjum sem hann lagaði eða setti upp. Hann hélt líka utan um Bókhaldi fyrirtækisins og sagði mér stoltur frá því í síðasta skipti sem ég hitti hann, í lok janúrar, að hann hefði lokið við skattaskýrslu fyrirtækisins. Þá hafði hann legið rúmfastur síðan í október. 

Þegar ég skrifa þessi fátæklegu orð, finn ég til mikils þakklætis. Ósjálfrátt fer ég að hugsa um, að það er rangt sem haldið er fram í máltækinu: Það kemur maður í manns stað.

Það kemur bara nýtt fólk, allir eru ólíkir en ég mun aldrei hitta neinn sem líkist Sissa. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sissi var og verður í mínum huga einhver ljúfasti og besti maður sem ég ég hef kynnst. Blessuð sé minning hans.

Kær kveðja Ómar

Ómar Ívarsson (IP-tala skráð) 22.2.2015 kl. 08:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 8
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 35
  • Frá upphafi: 189272

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 32
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband