29.11.2014 | 23:46
Lífið að leysa: Alice Munro
Ég hafði heyrt um þessa konu löngu áður en til stóð að orða hana við Nóbelsverðlaunin. Ég á nefnilega góða að þegar kemur að kanadískum bókmenntum. En ég hafði ekki lesið eftir hana staf og ég veit hvers vegna. Og nú ætla ég að reyna að útskýra það.
Mér finnst svo erfitt að lesa smásögur, þær reyna svo á mig. Því betri sem þær eru, því meir reyna þær á mig. Mér finnst að ég þurfi að vera vel upplögð og hafa gott næði og tíma til að hugsa um þær í næði eftir á. Það versta sem eg geri er að tala um þær á eftir. Og nú er ég að tala um bókina hennar Alice Munro, Lífið að leysa.
Það var bókaklúbburinn sem valdi þessa bók og ég er þakklát. Þetta er góð bók, hver saga er heill heimur og mér fannst eins og ég mætti ekki blikka auga, þá missti ég af einhverju og þá hryndi hann. En það er ekki erfitt að halda sig að lestrinum, því einhvern veginn tekst höfundi að gera þessa kyrrlátu veröld svo spennandi að hvað eftir annað tók ég eftir því að ég hélt niðri í öndinni.
Alice Munro er fædd 1931 í Kanada. Hún elst upp í sveit og flestar þessar sögur hennar spegla tíma eftirstríðsáranna. Þetta eru ekki sögur mikilla átaka, að minnsta kosti ekki á yfirborðinu. Hver um sig lýsir þó heilli ævi. Allar þessar sögur hreyfa við tilfinningum og sumar láta mann ekki í friði löngu eftir að maður er búin að lesa þær. Þær búa með manni og vitja manns jafnvel í draumum manns.
En ég er fegin að ég skuli vera búin að lesa þessa bók. Hún er þýdd af Silju Aðalsteinsdóttur og ég er viss um að það er vel gert úr því textinn hafði slík áhrif á mig. Silja Skrifar líka stuttan eftirmála þar sem hún segir frá höfundinum. Ég vildi óska að ég hefði lesið þetta á undan sögunum. Og þó, kannski truflar umhugsun um höfundinn bara textann sem hann lætur frá sér.
Á meðan ég las velti ég fyrir mér undarlegri afstöðu minni til smásagna. Því miður hefur hún ekki breyst.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 10
- Sl. sólarhring: 11
- Sl. viku: 49
- Frá upphafi: 189006
Annað
- Innlit í dag: 5
- Innlit sl. viku: 39
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.