Dalalíf: Guðrún frá Lundi: Okkar eiginn Dallas

Hef lokið við að hlusta á 1. bókina af fimm af Dalalífi. Bókaklúbburinn, sem einu sinni hét bílskúrsklúbburinn, ákvað þetta. Það hafði komið fram tillaga um að lesa eitthvað ,,ramm" íslenskt og þetta varð niðurstaðan. Bókin var ekki á lausu í bókasafninu nema sem hljóðbók og ég sló til. Níu og hálfur tími sagði bókabörðurinn um leið og hann rétti mér diskinn. Það hefur trúlega komið einhver tortryggnisvipur á mig þvi hann bætti við:,,Hún les mjög hægt".

Ég hafði að vísu lesið þessa bók áður, því þær voru allar til hjá Lestrarfélagi Breiðdæla. Fyrst barst þó orðrómurinn. Hún Valborg í Tungufelli er búin að lesa fyrstu tvær bækurnar og nú bíður hún spennt eftir hinum þrem sem eru hjá Valborgu á Randversstöðum. Það er aldeilis að þær hafa tíma. Þegar bækurnar komu til okkar í Þrastahlíð, voru þær greinilega búnar að koma við á mörgum bæjum, því þær voru svo illa farnar að þær höfðu verið settar í kjötpoka (grisju), til að hindra að þær færu alveg í sundur og til að ekki týndust úr þeim blöð. Mér finnst í minningunni að það sem eftir var af bandinu hafi verið grænt. 

Ég hellti mér í lesturinn og allir sem á annað borð lásu bækur, lásu Dalalíf. Þegar menn svo hittust í heimilum eða á mannamótum töluðu menn um Dalalíf. Allir áttu sér sínar uppáhaldspersónur og svo greindi menn á um aðalpersónuna Jón á Nautaflötum. Ég hef líklega verið 10 ára gömul og ekki komin með þroska til að skynja ómótstæðilegan þokka draumaprinsa, því mér fannst óskiljanlegt hvernig stúlkurnar í sveitinni létu hann fara með sig. 

Seinna, eftir að ég var flutt að heiman og heimsótti sveitina mína á tímum Dallasseríunnar, hlustaði ég á samtöl sem voru alveg í sama anda. J. R. og Jón á Nautaflötum voru líkir um margt!

En til dagsins í dag og Dalalífs á diski. Ég setti diskinn í diskaspilarann í eldhúsinu og nú hófst lesturinn. Fyrst var lesinn örstuttur inngangur svo tók kvenrödd við og kynnti okkur fyrir sveitinni fólkinu á Nautaflötum. Mikið afskaplega les þessi stúlka vel hugsaði ég og vissulega les hún hægt. En það hæfir efninu. Það var enginn asi á fólki á þessum tíma. Konan sem les, heitir Þórunn Hjartardóttir.  

Ég hlustaði einungis á söguna í eldhúsinu og aldrei nema að ég væri að gera húsverk. Þetta er eins góður mælikvarði eins og hvað annað á hvernig þú verð tímanum, hugsaði ég.

Það kom mér mest á óvart hvað ég mundi söguna. Persónur, bæjarnöfn og atburðarás var ljóslifandi eins og ég hefði búið þarna. Í þetta skipti tók ég þó trúlega meira eftir tungutaki höfundar og efnistökum. Guðrún er afburðagóður sögumaður og hún kann sína íslensku. Ég lagði við eyrun og dáðist að því hversu vel henni tókst til við að lýsa störfum, sem nú eru framandi. Ég sá fólkið fyrir mér og hugsaði, mikið er nú gott að þessi vitneskja týnist ekki alveg. 

Nú er ég sem sagt búin með 1. bindi og komin heim með bindi tvö. Það er verst að ég man það allt of vel.

Líklega passar 2. bindið ágætlega fyrir jólaundirbúninginn. Ég hef aldrei tekið tímann á honum, en er ekki 16 klukkutimar og 50 mínútur nærri lagi?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Karl

 Safnast í sarpinn, það sem maður á ólesið!

Einar Karl, 26.11.2014 kl. 21:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 7
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 189003

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 37
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband