24.11.2014 | 15:49
Nóvembermyrkur: Þórðarsaga hreðu: Afsögn ráðherra
Hef setið við lestur Þórðarsögu hreðu í dimmum nóvembermánuði og fylgst með framvindu lekamálsins svokallaða. Þetta mál sem verður prófsteinn á hvort við búum í lýðræðissamfélagi með heilbrigða stjórnsýslu.
Ástæðan fyrir því að ég datt inn í Þórðarsögu hreðu, var að ég hafði hlustað á fyrirlestur hjá Elisabeth Ida Ward, þar sem hún skoðar Þórðarsögu hreðu með tilliti til kenninga (Place versus space) hvernig menn sáu landið fyrir tíma landakorta. Elisabeth er hrífandi fyrirlesari. Þórðarsaga hreðu er ekki ofarlega í virðingarstiga Íslendingasagna. Hún fjallar um kappann Þórð hreðu sem kemur tiltölulega seint út til Íslands eftir að bróðir hans Klyppur hafði unnið sér það til óhelgis að vega Sigurð slefu Gunnhildarson og verið veginn sjálfur í kjölfarið.
Þórður kemur skipi sínu í Miðfjörð, en þar stendur veldi Miðfjarðar-Skeggja. Land er þá fullnumið.
Þessi saga er skrýtin. Þórður er ofurhetja, hann ber af öðrum mönnum og fer létt með að kljúfa menn í herðar niður eða í tvenn eftir því sem við á. Hann tjáir sig með dróttkvæðum vísum og er famúrskarandi húsa- og skipasmiður. Höfundur sögunnar segir þó lítið frá smíðum hans en fjallar því ýtarlegar um bardagana, sem eru margir. Þórður er syndur sem selur og er hetjuskap hans best líst þegar hann bjargar fólki fólki úr ísköldum sjó innan um klakahröngl. Það er reyndar lítið sagt frá lífi og búskaparháttum Þórðar sem ekki tengjast bardögum. Veröldin er merkilega tóm, rétt eins og veröldin í ofurhetjaleikjaheimi barnanna. Það eru einungis dróttkvæðu vísurnar sem ekki passa inn miðað við daginn í dag.
Meðan á lestrinum stóð dundu á mér fréttir af öðruvísi bardögum, þar sem tekist er á með orðum en ekki með vopnum. Stundum er orðræðan beitt ekki síður en vopnin. Mikið er ég nú fegin að að vera ekki stödd á söguöld eða í heimi ofurhetja. Reyndar kemur fyrir eitt merkilegt minni í Þórðarsögu hreðu, sem gæti haft tilvísun inn í nútímann. Þar er sagt frá vopninu Sköfnungi (eign Miðfjarðar-Skeggja). Sköfnun segur er þeirrar náttúru, að sé honum brugðið (þ.e. tekið úr slíðrinu) verður ekki aftur snúið, það þarf að höggva. Stundum held ég að sambærilegir hlutir eigi sér stað í orðræðu.
Lærdomurinn sem draga má af Þórðarsögu er því þessi. Það ber að hyggja vel að því hvenær beitt vopn eru dregin úr slíðrum, en það getur vissulega verið nauðsynlegt.
Þórðarsaga hreðu er áhugaverð lesning, ég tapaði mér í heimi ofurhetja og gleymdi að skoða hana með tilliti til kenninga Elisabeth Idu Ward um kortlausa landnámsmenn. Svona getur lífið verið villugjarnt. Þar gilda engin kort,enn að minnsta kosti.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 7
- Sl. sólarhring: 9
- Sl. viku: 46
- Frá upphafi: 189003
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 37
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.