Sæmd: Guðmundur Andri Thorsson: Skáldsaga með lánuðum sögulegum persónum

Ég var búin að hlakka til að lesa Sæmd Guðmundar Andra, en kom mér svo seint að því verki að ég hafði heyrt og lesið mikið um bókina áður en ég hófst handa.

Bókin er einkar falleg og fer vel í hendi. Þetta er nokkuð sem ég, áhugabókbindarinn gaumgæfi fyrst við bækur. Hún er stutt og það er mikið pláss fyrir orðin. Textinn er fallegur, á köflum næstum eins og ljóð.

Bókin er skáldsaga og ber að lesast sem slík. Höfundur teflir að vísu fram landskunnum mönnum frá seinni hluta 19. aldar, sögusviðið er Lærði skólinn í Reykjavík 1882, nú MR. Aðalpersónur sögunnar eru þrjár,  Björn M. Olsen kennari og umsjónarmaður, Benedikt Gröndal kennari og Ólafur skólapiltur. Plottið er ekki mikilfenglegt, skólapilturinn stelur bók og það er tekist á um agamál skólans. 

Við fáum að sjá inn í hugskot allra þessara einstaklinga. Björn M. Olsen er fulltrúi kerfisins og hann trúir Því að agi göfgi einstaklinginn. Hann ber einnig í brjósti brennandi áhuga á sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar og uppbyggingu menntunar.  Benedikt Gröndal er einnig áhugamaður um sjálfstæði en hann er fyrst og fremst andans maður og hann trúir á mátt frelsisins. Nemandinn Ólafur er (virðist mér) ráðvilltur drengur úr sveit, fjarri fjölskyldu. Aukapersónur sögunnar fylla svo eðlilega inn í þá mynd sem Guðmundur Andri dregur upp. Sigurður slembir, Valdimar Briem, Jónas Jónassen læknir spila lomber og drekka púns með Birni. Benedikt hugsar háfleygar hugsanir og konurnar ganga um beina eða sitja við sauma. Það fer afskaplega lítið fyrir konum í þessari bók.

Benedikt Gröndal er langbest dregna persóna bókarinnar. Þar fer Guðmundur Andri á kostum og það er gaman að fylgjast með hugarflugi þessa fjölhæfa snillings. Ekki trúi ég þó á senuna þegar hann gengur fram fyrir skjöldu og gerist bjargvættur. Myndin af nemandanum Ólafi er einhvern veginn ekki í fókus en verst kunni ég þó við afar ótrúverðuga mynd sem dregin var af Birni M. Olsen sem harðstjórn. Þarna spilar ef til inn reynsla mín af lífinu á heimavistum, að vísu ekki á 19. heldur á þeirri 20. Ég trúi ekki orði af því sem höfundur segir um Björn M. Olsen og eiginlega finnst mér það alls ekki í anda frelsis og réttlætis að fá yfirvöld fyrir klíkuskap að kippa í spotta og setja sig yfir kennarana. 

Það sem mér fannst skemmtilegast við þessa bók er líklega ekki bókin sjálf, heldur alllt ýtarefnið sem ég fann á netinu. Ég las mér til um Steingrím Thorsteinsson, Jón Ólafsson skáld og Alaskafara, Sigurð slembi Sigurðsson sem fórst á Viðeyjarsundi og um son hans Sigga litla, Sigurð Sigurðsson frá Arnarholti. Merkilegast af öllu var þó að lesa um móður Sigga litla (hún hét Flora Concordia Orelia [eða Oveliva] Jensen) sem hún sendi þriggja (eða 5) ára með póstskipinu frá Kaupmannahöfn til Reykjavíkur, til föður, af því hún var veik, komin með blýeitrun af því að vinna í konunglegu postulínsverksmiðjunum. Hún var sósíalisti og annáluð ræðukona, sem seinna var fangelsuð og lauk ævi sinni á geðveikrahæli. Það er þó afar lítið um allar þessar persónur í bókinni.

Ég er heilluð af 19. öldinni og lestur bókarinnar ýtti á takkann sem setur í gang enn meiri lestur svo eiginlega varð bókin sjálf aukaatriði. En sem betur fer gerði ég mér grein fyrir að Guðmundur Andri er enginn Guðjón Friðjónsson, hans styrkleikar liggja í stílnum og andríkin.

 Og hvað finnst mér svo um þessa bók? Ég veit það ekki en ég held að ég hafi ekki verið rétti lesandinn.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 49
  • Frá upphafi: 189892

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband