Paradísarstræti: Gömul kona segir frá lífi sínu

gömul kona

Næst síðasta daginn í vinnu minni við yfirsetu í Háskóla Íslands núna fyrir jólin, rétti samstarfskona mín að mér bók og sagði að ég mætti eiga hana. Mér fannst þetta skemmtilegt af því það kom mér svo á óvart. Ég þekkti þessa konu svo lítið og svo er okkur yfirsetufólkinu bannað að lesa meðan við vöktum. Bókin kom mér einnig á óvart, ég hafði ekkert um hana heyrt í jólabókarkynningunum. 

Bókin heitir Paradísarstræti: Lena Grigoleit austur-prússnesk bóndakona segir sögu sína. Hún er eftir Ullu Lachauer sem er kvikmyndagerðar- og þáttagerðarmaður. Tildrögin að því að hún ákvað að skrifa þessa bók, var að hún var stödd í Litháen árið 1989 í leit að sviðsetningu fyrir mynd sem verið var að vinna að. Sögusviðið var gamla Prússland. Henni var bent á Lenu Grigoleit, eina eftirlifandi íbúann í Bitehnen frá PRÚSSLANDSTÍMANUM. Þannig hófust kynni þeirra. Ulla hreifst af þessari konu og langaði að skrifa sögu hennar en áhuginn á þessum skrifum var gagnkvæmur, Lenu langaði að segja sögu sína en kannski ekki síður heimabyggðar sinnar Bitehnen í Memelhéraði. Hana langaði að segja hvernig allt var áður en stríðsátök eyðilögðu menninguna, lögðu byggðarlagið í rúst og og fjöldi fólks var ýmist drepinn eða hafði tekist að flýja. 

Memelhérað er löng og mjó landræma (140x20 km) meðfram ánni Memel (Neman)  á landamærum Litháen og Rússlands í dag, þetta svæði tilheyrði Prússlandi til styrjaldarloka fyrri heimsstyrjaldar en þá var ákveðið í Versalasamningunum að það skyldi verða sjálfstætt svæði þar til íbúarnir hefðu kosið um stöðu þess. Til þess kom þó aldrei því Litháen hafði lagt það undir sig. Síðar, í síðari heimstyrjöldinni lögðu Þjóðverjar það undir sig en töpuðu styrjöldinni eins og allir vita og eftir það tilheyrði Memelhérað Litháen sem Rússar lögðu undir Sovétríkin. Þetta virkar flókið og það er það og ef eitthvað er, þá er það enn flóknara. Á svæðinu bjó fólk af ólíku þjóðerni, þýskumælandi, Litháar, Pólverjar og fjöldi Gyðinga. 

Lena Grigoleit fæddist inn í tvítyngda fjölskyldu, þar var töluð þýska og litháíska jöfnum höndum. Móðir hennar var tekin sem fangi af Rússum í fyrra stríði sem barn og lærði því rússnesku. Lena giftist manni frá Stór-Litháen eins og það er kallað til aðgreiningar frá prússneska svæðinu. Bróðir hennar og uppeldisbróðir börðust með  Þjóðverjum og féllu en maður hennar flúði tímabundið þar sem hann hafði verið opinber starfsmaður Litháa. Þegar sovétherinn náði yfirhöndinni í stríðinu flúðu þýskumælandi íbúarnir suður eftir og þar á meðal Lena og hennar fólk. Seinna sneri hún þó heim aftur, heim í bæinn sinn og bjó þar í fyrstu í sambýli við rússneska hermenn sem höfðu kom ið sér þar upp bækistöð. Og þarna býr hún alla tíð með fjölskyldu sinni þótt það væri reyndar búið að taka stóran hluta jarðarinnar eignarnámi fyrir samyrkjubúskap. Fjölskyldan er seinna send, eins og margir Litháar til Síberíu, þar sem hún dvelur í fimm ár. 

Þessu öllu lýsir Lena og mörgu fleira. Það er erfitt að skilja hvernig hægt er að lifa venjulegu lifi eftir allt þetta en Lena lýsir svo mörgu fleiru, hún segir frá bernsku sinni og ástum og veltir fyrir sér hvort hún hefði orðið hamingjusamari ef hún hefði gifst æskuástinni sinni. Hvernig hefði hann t.d. staðið sig í Síberíu. En það merkilegasta við þessa frásögn að mínu mati eru þó vangaveltur hennar um mannlífið, þjóðerni, menningu og tungumálið. Hún elskar ljóð og talar oft um hvað skáldin hafi auðgað líf hennar. Hún saknar þýskunnar en er þó búin að gera upp við sig að hún sé og vilji fyrst og fremst vera Lithái.

 Það var gaman að lesa þessa bók en ég get ekki sagt að það væri auðvelt. Höfundur talar um að frásögn Lenu sé blæbrigðarík og full af orðkyngi. Það fann ég ekki í þessari bók og veit ekki hvort er við höfundinn eða þýðendurna að sakast. Eftir lesturinn hef ég hellt mér í að lesa ýtarefni um söguna og svæðið og er meira að segja búin að skoða hjólaleiðir, hótel og flug. Það verður gaman. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Trausti Jónsson

Gleðileg jól og þökk fyrir gamalt Bergþóra. Ég las um daginn mjög fróðlega bók með einskonar "viðtölum" við fyrrverandi íbúa Austur-Prússlands - þeirra sem þurftu að hröklast vestur um. Hún heitir Forgotten land: Among the Ghosts of East Prussia. Bókin byrjar að vísu illa - maður veit ekki hvað höfundurinn er að fara - en svo fellur efnið í farveg. En ef mér dettur í hug að losa mig við hana kem ég henni til þín og Erlings (hann hefði sennilega meira gaman af henni heldur en þú).

Trausti Jónsson, 31.12.2013 kl. 00:41

2 identicon

Takk Trausti

Það væri gaman ef þú litir við með bókina, ég hef fyrir röð tlviljanna dottið inn i þessa tíma og þetta landssvæði., Gleðilegt ár og takk fyrir gamalt.

Bergþóra Gísladóttir (IP-tala skráð) 31.12.2013 kl. 12:02

3 identicon

Sæl Bergþóra

Þakka þér fyrir fallega umfjöllun um bókina okkar Péturs.

Við þýddum bókina og gafum út af einskærum áhuga, við vorum hrifnir af bókinni og fannst hún eiga erindi við Íslendinga sem kavrta oft út af smámunum. Allir hafa gott af að lesa svona bók. Höfundurinn varð mjör hrifinn þegar ég óskaði eftir leyfi til að þýða bókina og gefa út og sendi mér á góðu formi allar myndir og kort. Ég fékk nú fyrir nokkrum dögum bréf frá Irenu, dóttur Lenu, þar sem hún lýsti yfir hrifningu sinni um að nú væri saga þeiraa þekkt á Íslandi.

Með kærri kveðju

Sigurður H. Pétursson

Merkjalæk

Austur-Húnavatnssýslu 

Sigurður H. Pétursson (IP-tala skráð) 7.1.2014 kl. 13:47

4 identicon

Sæll Sigurður

Takk fyrir að skrifa mér, ég var einmitt að velta því fyrir mér hvernig það vildi til að þið lögðuð í að þýða og gefa út þessa bók og nú hef ég fengið svarið. Það var mjög gagnlegt að fá kortin til að átta sig betur á staðháttum. Ég ætla að senda systur minni sem er sveita kona þessa bók til að lesa um að það hafi fleiri en hún sett fram þá kenningu að það sé einstaklega heilsusamlegt fyrir gamlar konur að basla í búskap.

Með kveðju

Bergþóra

Bergþóra Gísladóttir (IP-tala skráð) 9.1.2014 kl. 22:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 13
  • Sl. sólarhring: 14
  • Sl. viku: 55
  • Frá upphafi: 189906

Annað

  • Innlit í dag: 12
  • Innlit sl. viku: 51
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 11

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband