29.11.2013 | 17:51
Mitt eigið Harmagedón:Unglingabók en ekki síður fyrir fullorðna
Var að ljúka við bók Önnu Heiðu Pálsdóttur, MITT EIGIÐ HARMAGEDÓN. Hún var verkefni leshópsins en ég var ekki búin að verða mér úti um hana þegar hún var tekin fyrir. Hún er vinsæl á bókasöfnum (sagði bókavörðurinn mér) og ég lét setja mig á biðlista og það stóðst á endum, sama dag og við hittumst í leshópnum, var hringt til mín frá safninu.
Stöllur mínar í leshópnum fóru lofsorði um bókina og mér þótti ekkert verra að lesa hana þótt ég vissi svona undan og ofan af um hvað hún fjallaði. Þetta er saga unglingsstúlku sem er að segja skilið við bernskuna og fara inn í fullorðinsheiminn. Hún er í alla staði eðlileg og dugleg stúlka, hún býr ein með pabba sínum í Neðra Breiðholti, móðir hennar er dáin og systir hennar í útlöndum. Sagan gerist á einu sumri, hún vinnur á leikskóla og hlakkar til að byrja í FB um haustið. Hún er mikill námsmaður og stefnir á að læra læknisfræði. En þótt það geti virst svo sem hún lifi í tryggum heimi er ekki allt sem sýnist, heimurinn sem hún lifir í þrengir að henni. Hún er fædd inn í fjölskyldu sem lifir öðru vísi, þau eru Vottar Jehóva. Sá eini heimur sem hún þekkir er heimur þeirra.
Hún veit þetta en það hefur fram að þessu ekki truflað svo mikið líf hennar og hún er trúuð. Það er ekki fyrr en hún eignast vinkonu í vinnunni á leikskólanum að hún finnur að hún er ófrjáls, hún má ekki eignast vini utan safnaðarins, þeir eru verkfæri Satans. Og svo er eins og hennar heimur hrynji. Það er margt að gerast samtímis, vinur hennar veikist og er við dauðans dyr af því blóðgjöf er forboðinn í heimi Votta, hún verður ástfangin og hún fær fréttir af atvikum tengdum dauða móður sinnar fyrir 6 árum. Hún veit að ef hún yfirgefur söfnuðinn mun henni verða afneitað. Hún elskar föður sinn og systur og hún er ráðvillt og örvæntingarfull.
Mér fannst merkilegt að lesa þessa bók, hún sýnir manni inn í óþekktan heim. Inn í heim sem er svo prívat og falinn að það er næstum eins og að liggja á gægjum að kíkja þangað inn. Ég hef ,,þekkt" Votta, bjó með þeim í húsi í nokkur ár, ég vissi að þeirra heimsmynd var önnur en mín og ég virti það. En mig grunaði ekki þetta með kúgunina og útskúfunina, þessa miklu grimmd. Ég trúi höfundi þessarar bókar, ég er einhvern veginn viss um að hún veit hvað hún er að tala um. Hún sannfærði mig um hugmyndaheim þessa safnaðar, aftur á móti var ég ekki alltaf sannfærð um að sú mynd sem hún begður upp af lífi unglinganna sé sannferðug. Það væri gaman að heyra um það frá þeim.
En ég held að þetta sé ekki bara bók um Votta. Ég held að þessi bók hafi miklu víðari skírskotun, hún fjallar um það að vera ,,öðru vísi" og einnig og ekki síður um hitt að ætla sér að lifa utan við heiminn, einungis eftir eigin reglum og á eigin forsendum. Og allt í einu fór ég að hugsa um okkar litla Ísland sem heldur að það geti staðið utan við heiminn en þá er ég kannski farin að teygja líkinguna dálítið langt. Og þó.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.4.): 1
- Sl. sólarhring: 13
- Sl. viku: 48
- Frá upphafi: 189907
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 44
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.