24.11.2013 | 13:22
Flís af tánögl: Gullfóturinn 1972 var 0,00830471 g
Þegar ég fór til Óslóar til náms i sérkennslu haustið 1971 skildi ég eftir skuld hjá kaupmanninum á horninu. Sá hét Sigurjón Sigurðsson og hann rak Örnólf sem var óvenjuleg búð á þessum tíma, í henni fékkst allt og hún var nær alltaf opin. Þar fékkst meira að segja mjólk en mjólk mátti einungis selja í mjólkurbúðum í þá daga. Þar var einnig hægt að kaupa kjöt og prjónavörur en slíkt mátti aldrei selja í sömu búð. En ég ætla ekki að tala um reglugerð Reykjavíkur um sölubúðir, heldur skuldalistann sem ég skildi eftir, sem var þó alls enginn hali.
Ég hafði nokkrar áhyggjur af þessu þegar ég fór og líka úti og þegar ég kom heim var eitt af minum fyrstu verkum að fara í Örnólf til að borga. Á þessum tíma var óðaverðbólga, meiri en nú og ég bauðst til að bæta úr því með að borga verðbætur (það orð kunni ég þó ekki þá svo ég hef sagt eitthvað sem þýddi það sama). ,,Það er bókhaldslega ekki hægt" sagði Sigurjón og skuldin var gerð upp eins og hún stóð.
Allt þetta rifjaðist upp þegar ég fór að reyna að reikna út skuldaleiðréttinguna þegar ég var að skokka. Skyldi hún vera bókhaldslega framkvæmanleg? Og hvað tapaði Sigurjón mikið á mér 1972? Ég leitaði fanga í Ársskýrslu Seðlabankans frá 1972, einstaklega skemmtileg lesning. Það er verið að tala um það sama og nú, en orðfærið og áherslurnar eru aðrar. Það er mikið talað um útflutning versus innflutning og um gengisfellingu en lítið um verðbólguna sem slíka. En það er talað um gullfótinn, það fannst mér lang mest spennandi. Gullfóturinn var þá 0,00830471 grömm af skýra gulli miðað við krónu. Þá veit ég það. Þannig var það 1972 en hvað skyldi hann vega núna?
Það hefur vafist fyrir mér (og sjálfsagt) fleirum að skilja háar tölur, þegar upphæðirnar skipta tugum og hundruðum miljarða en nú sé ég að lágu tölurnar eru ekki síður snúnar. Hvað skyldi nú 0,0083071 vera stór flís af nögl? Og hvað er þessi flís þá stór núna? Er kannski enginn fótur undir krónunni ? Og hvernig verður þetta með skuldaleiðréttinguna?
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.4.): 1
- Sl. sólarhring: 13
- Sl. viku: 48
- Frá upphafi: 189907
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 44
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.