15.11.2013 | 23:55
Árið sem tvær mínútur bættust við tímann: Rachel Joyce
Nú hef ég lokið lestri á bók sem heitir Árið sem tvær mínútur bættust við tímann. Hún er eftir Rachel Joyce en hún er líka höfundur Hinnar ótrúlegu pílagrímsgöngu Harolds Fry, sem kom út í fyrra sem sló aldeilis í gegn um allan heim. Báðar þessar bækur hafa notið mikilla vinsælda, líklega vegna þess að höfundur slær einhvern tón sem kallar fram notalegheit og vellíðan. Það hafði ég að minnsta kosti lesið mér til um áður en ég tók bókina mér í hönd.
Eiginlega eru þetta tvær sögur sagðar nokkurn veginn samtímis. Annars vegar er sagt frá drengnum Byron sem býr hjá fölskyldu sinni í georgísku húsi, einhvers konar setri. Faðir hans vinnur í London en móðir hans sér um hús og börn. En það er samt faðirinn sem ræður ríkjum, hann segir til um hvernig allt á að vera. Þessi saga segir fyrst og fremst frá einu sumri 1972 og þá er Bryan 13 ára. Hin sagan sem er sögð samtímis er um Jim, sem býr einn í húsbíl úti á heiði þó ekki lengra í burtu frá þéttbýlinu að hann gengur til vinnu sinnar þar sem hlutverk hans er að þurrka af borðum í kaffihúsi stórmarkaðar. Jim er stöðugt að reyna að verja sig gegn því að eitthvað hræðilegt hendi og hann gerir það með því að framkvæma einhvers konar,,ritúöl" sem eiga að tryggja öryggi hans, hann heilsar öllu sem hann á í húsvagninum tvisvar, hann lokar ekki bara vagninum þegar hann kemur inn, heldur þéttir hann allar glufur með einangrunarlímbandi og fleira og fleira. Sagan um Jim gerait í nútímanum, nú hafa farsímar komið til sögunnar. Eftir því sem sögunni vindur fram, fær lesandinn að vita harmleik fjölskyldu Byrons á sveitasetrinu og við kynnumst fólkinu í lífi Jims. Í lok bókarinnar fáum við að vitta hvernig þessir tveir menn í tengjast og hvað þeir eiga sameiginlegt.
Það eru margar áhugaverðar persónur í þessari bók, við kynnumst þeim reyndar einungis út frá sjónarhorni annars vegar Byrons og hins vegar Jims. Þetta er lipurlega skrifuð bók og bygging hennar er hugvitssamlega gerð. Stundum þegar ég les bækur eins og þessa fer ég að hugsa þetta er höfundur sem hefur farið í langt ritunarnám í háskóla. Ég held að sú hugsun spretti af einhverri óskýrri mynd af því að það vanti eitthvað, ég veit ekki hvað.
Þetta er falleg bók sem gott er að hafa í hendi. Hún er kaflaskipt og hverjum kafla fylgir lítil falleg mynd sem er táknræn fyrir innihald kaflans. Reyndar las ég söguna að hluta til í rafrænu formi á ensku. Það gerði ég til að hvíla augun því sjónin er farin að gefa sig. Ég saknaði þó bókarinnar allan tímann en þetta leiddi þó til þess að ég átti betra með að leggja mat á þýðinguna. Bókin sem heitir Perfect á ensku er þýdd af Ingunni Snædal. Texti hennar er afar fallegur hún er góð íslenskukona og hittir hinn rétta tón fyrir þessa bók.
Þegar ég hafði lokið við Vonin blíð, eftir Heinesen, leið mér eins og ég ímynda mér að fólki líði sem fær svo kölluð fráhvarfseinkenni. Mér leið ekki alveg vel, mig langaði að fara aftur inn í bókina og vera þar, ég var með heimþrá til Færeyja og 17. aldarinnar. Nú þegar ég hef lokið við bókina Árið sem tvær mínútur bættust við tímann, líður mér ágætlega ég sakna hennar ekkert. Hún er búin.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (25.4.): 3
- Sl. sólarhring: 8
- Sl. viku: 50
- Frá upphafi: 189914
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 44
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.