21.9.2013 | 17:42
Píramítar Reykvíkinga
Þetta er forljótt fyrirbæri sagði maðurinn sem ég fékk til að smella af mér mynd við aðra nýju brúna yfir Elliðaárnar. Hann smellti nú samt og svo töluðum við svolítið um brýrnar.
Við vorum ósammála en samtalið gekk samt vel. Hann sagði að hafa haldið að þessir þríhyrningar væru til bráðabirgða meðan verið væri að steypa og síðar yrðu þeir teknir niður. Ég sagði honum að ég vissi ekki enn hvort mér þætti þetta fallegt, þetta væri einhvern veginn meira skemmtilegt og glaðlegt. Bæði vorum við þó sammála um að hér eftir yrði þetta eitt af því sem litið yrði á sem eittt af einkennum, táknum Reykjavíkur.
Ég hef fylgst með þessum framkvæmdum í allt sumar því þær eru á einni af uppáhalds skokkleiðum mínum Álfheimar - Grafarvogur, ótrúlega falleg leið. Með tilkomu nýju brúnna verður þessi leið enn skemmtilegri. Það er merkilegt að upplifa það á gamals aldri að kynnast nýrri og fallegri Reykjavík. Ég hafði nefnilega aldrei skokkað í Reykjavík (nema í keppnum...ha ha) fyrr en eftir sjötugt. Ég byrjaði skokkferil minn í Borgarnesi og kynntist þar af leiðandi nýjum Borgarfirði.
Það er langt síðan og nú bý ég í henni Reykjavík. Eftir að ég hóf að skokka og hjóla fór mér allt í einu að finnast Reykjavík bara falleg. Þetta er rétt eins og með Húnavatnsýslurnar. Um árabil vissi ég ekki um ljótara landslag. Á ferðum mínum til eða frá heimaslóðunum fyrir austan, andaði ég léttar þegar ég var komin í gegn. Mér fannst leiðin löng og tilbreytingarlaus. Þannig var þetta þangað til ég átti erindi út af þjóðveginum, gegnumakstrinum. Leið mín lá í Vesturhóp. Þvílík fegurð og þvílík dásemd. Ég lærði af þessu. Síðan hef ég hætt að hugsa um leiðir sem gegnumakstur, ég leitast í hverri ferð við að uppgötva eitthvað nýtt sem fræðir mig eða gleður.
Ég held að brýrnar yfir Elliðaár séu það merkilegast sem hefur verið byggt í Reykjavík síðan Harpan reis. En þær eiga eflaust eftir að verða umdeildar.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 10
- Sl. sólarhring: 11
- Sl. viku: 49
- Frá upphafi: 189006
Annað
- Innlit í dag: 5
- Innlit sl. viku: 39
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.