10.7.2013 | 16:57
Fall og upprisa: Íþróttir til heilsubótar
Myndin í sumar eftir að ég og dóttir mín höfðum tekið þátt í 5 km í Suzukihlaupi
Um þetta leyti í fyrra sumar tók ég til við að skokka. Ég var orðin 70 ára og afmælið varð til þess að ég fór yfir það í huganum hvað mig langaði til að gera við árin sem væru eftir. Eitt af því var að hlaupa. Ég var þó engan veginn viss um að þetta myndi takast en ákvað að prófa. Fyrstu skiptin lofuðu ekki góðu en ég vissi sem var að góðir hlutir gerast hægt og gafst ekki upp. Ég hljóp í allan vetur og er nú búin að skrá mig í hálfmaraþon. Ég er með hlaupaáætlun og allt gekk rífandi vel.
En svo datt ég. Það gerðist fyrir 9 dögum síðan, ég rak tána í ójöfnu í malbikinu og hentist fram fyrir mig, reyndi að bera hendurnar fyrir en skall með andlitið í götuna. Þetta gerðist á fjölförnum gatnamótum og mín fyrsta hugsun þegar ég staulaðist á fætur var að ég skammaðist mín. Ég heyrði með mínu innra eyra, ÞÉR ER NÆR. En það fossaði úr mér blóðið því ég hafði fengið blóðnasir og mín fyrsta hugsun var að reyna að stoppa blæðinguna. Ég þurfti engar áhyggjur að hafa af því að fólkið í bílunum sínum væri eitthvað að horfa á mig, að minnsta kosti stoppaði ekki nokkur maður. Einn lítill drengur og útlendingur með tösku gáfu mér gaum. Hjálpin var þó skammt undan því allt í einu kom kona hlaupandi. Þetta var kona sem þekkti mig, hún var að koma úr Góða hirðinum og hafði sé þegar ég datt. Hún ók mér heim.
Eftir að safnað mér saman ákvað ég að fá skutl á Læknavaktina í Kópavogi, ég hélt að með því sparaði ég mér tíma. Læknirinn í Kópavogi beindi mér á Bráðamóttökuna því hann taldi að ég væri handleggsbrotin (fann það út strax og hann heilsaði mér með handabandi). Á Bráðamóttökunni var þetta myndað og staðfest. Handleggsbrot á framhandlegg, önnur pípan. Þrem dögum síðar fór ég til að fá frekari upplýsingar um hvað gera yrði og þá var þetta enn staðfest. Það þyrfi ekki að setja handlegginn í gifs heldur átti ég einungis og nota fatla og meta það sjálf hversu mikið ég reyndi á handlegginn. Ég var nokkuð viss um að þetta myndi taka 4-5 vikur og taldi að nú væri útséð með þátttöku í hálfmaraþoni og með mína góðu áætlun.
En batinn hefur verið með undraverðum hætti. Það voru einungis nokkrir dagar sem ég gat ekki notað hendina, í gær að sleppti ég fatlanum og í dag prófaði ég að skokka. Allt gekk vel.
Þegar ég birtist á Bráðamóttökunni, enn með blæðandi sár í andlitinu var ég spurð spurninga til að fylla út skema til að nota í statistikina. Ein spurningin var um hvaða erindum ég hefði verið að sinna þegar slysið varð. Ég sagði honum að ég hefði verið að hlaupa. Þessi maður var með húmorinn í lagi ég sagði mér að hann ætlaði þá að skrá þetta undir: ÍÞRÓTTIR Í HEILSUBÓTARSKYNI, það fannst mér skemmtilegt.
En af hverju er ég að segja þessa sögu? Ég held að ég geri það vegna þess að á bak við hana er sams konar hugsun og hjá fólki "sem kemur út úr skápnum", ég skammaðist mín fyrir að detta og meiða mig og ég skammaðist mín enn meira af því ég er gömul og það hafa allt of margir sagt við mig að ég eigi ekki að að vera að þessu. Ég er að létta á hjarta mínu.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 5
- Sl. viku: 39
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 34
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.