8.7.2013 | 22:22
Blikktromman: Günter Grass
Annar af tveimur leshópum sem ég tilheyri tók ákvörðun um að nú skyldi Blikktromman lesin. Ég tók því fagnandi því ég þekkti það mikið til Günters Grass að ég átti á góðu von. Ég hafði að vísu tvisvar séð kvikmynd sem byggir á þessari sögu en af einhverjum ástæðum ekki lesið bókina.
En það er ekki bara að segjast ætla að lesa slíka bók, hún er 598 síður og söguþráðurinn nokkuð snúinn, þ.e. undinn saman á torkennilegan hátt. Sögumaðurinn er vistaður á geðveikrahæli og rifjar upp líf sitt. Hann segir sögu sína ýmist í fyrstu persónu (Ég) eða í þriðju persónu, (Óskar) og hann er óáreiðanlegur og fullur af mótsögnum. Það kemur í hlut lesandans að púsla frásögninni saman til að fá heillega mynd. En hún verður aldrei heil.
Í raun eru þetta þrjár bækur og hver og ein margir kaflar. Það er engu líkara en að hver og einn kafli sé sjálfstæð saga. Kaflarnir, bókin fjallar um líf drengs sem hefur tekið þá ákvörðun á þriggja ára afmæli sínu að hætta að vaxa. En það er ekki bara þetta sem er sérstakt við þennan dreng, hann er líka nokkurs konar sjáandi, hann hefur skynjað og krufið líf sitt alveg frá því mamma hans var getin á kartöfluakri. Hann getur þannig sagt okkur sögu sína og annarra frá sjónarhorni fullorðins barns. Auk þess er hann með leynivopn, hann getur sprngt gler með rödd sinni.
Þetta er í senn söguleg skálsaga og persónulegt uppgjör höfundar. Hún segir frá drengnum Óskari sem er fæddur 1924 og elst upp í fríríkinu Danzig (nú Gdansk) og upplifir heimsstyrjöld. Þetta er líka einhvers konar uppgjör höfundarins við þennan tíma þar sem hann er í senn þátttakandi og fórnarlamb. Hann einnig fæddur í Danzig (1927) og á afskaplega margt sameiginlegt með sögupersónu sinni. Bókin kemur út 1959, þá hafði höfundurinn ekki gengist við því að hann tók sjálfur þátt í stríðinu. Nú þegar maður veit það verður bókin skiljanlegri. Á sínum tíma var þessi bók fyrst og fremst fræg fyrir óvenjuleg efnistök, frásögnin er í senn ofurnákvæmar raunsæjar lýsingar og undarlegar yfirnáttúrlegar ýkju- eða lygasögur í Münchausenstíl. Oft er frásögnin á mörkunum eða fer yfir velsæmismörk, hann lýsir viðbjóði, grimmd, trúmálum og ástalífi langt um fram það sem manni finnst þægilegt. En samt les maður stöðugt áfram því það er einhver þráður sem dregur mann. Drengurinn eða dvergurinn Óskar er þannig í senn aumkunarverð og andstyggileg persóna.
Bókin var þýdd á íslensku af Bjarna Jónssyni og var gefin út af Máli og menningu á árunum 1998-2000. Það er því ekki hægt að segja að nóbelsverðlaun höfundar 1999 hafi orðið til að það var ráðist í þetta stórvirki eins og stundum vill bregða við. Ég gat ekki stillt mig um að útvega mér bókina á móðurmáli höfundar og las kafla sem vöktu sérstaklega forvitni mína, hvernig skyldi þetta vera sagt á þýskunni? Þetta geri ég ekki oft en það var gaman og niðurstaðan er að þýingin er frábær, stórvirki.Það er mikillfengur að fá þessa bók á íslensku
Þegar ég hafði lokið lestrinum horfði ég á Blikktrommuna, myndina, með manni mínum, en hann er afskaplega duglegur að skaffa mér myndir sem horfandi er á (og reyndar bækur og músik líka). Það var öðru vísi að sjá myndina eftir að hafa lesið bókina en þó má segja að myndin og bókin séu hvor um sig sjálfstæð verk.
Nú vona ég að stöllur mínar í leshópnum séu búnar eða langt komnar með þetta góða, stóra verkefni og hlakka til að hitta þær og ræða um efni bókarinnar þegar þar að kemur.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 5
- Sl. viku: 39
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 34
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.