21.07 í Frystilkefanum Rifi: Hvernig á að taka á móti geimverum?

bildeÞað voru margar ástæður sem réðu því að ég ákvað að fara á 21.07 í Frystiklefanum Rifi í gær. 1) Ég hafði séð kynningu á verkinu í Rúv. 2) Ég kannaðist við leikarana (þó aðallega foreldrana). 3) Ég hafði fylgst með undirbúningi að móttöku geimveranna þar sem ég bjó í Borgarnesi á þessum tíma og móttökunefndir og fréttamenn fóru í gegn um Borgarnes. 4) Mér bauðst ferð. 5) Síðast en ekki síst var einhver innri rödd sem sagði mér að þetta væri gott, vel heppnað, lukkað og og eitthvað fyrir mig. Ég hef lært að treysta þessari rödd. Og svo er alltaf gaman að ferðast um Snæfellsnesið.

5. nóvember 1993 bjó ég í Borgarnesi og það fór ekki fram hjá neinum að það var eitthvað í vændum. Það hafði frést af því að það stæði til að geimverur kæmu við á Snæfellsjökli á sveimi sínu um himingeiminn, ekki man ég hvort það fylgdi sögunni til hvers. Fjölmiðlar voru uppfullir af þessu og allt í einu þurfti fólk í byggðarlögunum í kring um Jökulinn að fara að taka afstöðu til þess hvaða afstöðu það hafði til geimvera. Þetta er eitthvað sem fólk í sínu daglega amstri leiðir hjá sér. Oftast.

Leikritið 21.07 fjallar um þetta en það var áætlaður komutími geimfarsins. Kári Viðarsson sem þá var ungur drengur á Hellissandi segir söguna frá sjónarhorni drengsins Kára sem var yfir sig hræddur og eiginlega viss um að heimurinn væri að farast. En það er takmarkaður tími til að sinna ímyndunarveikum dreng þegar svona mikið stendur til svo frásagan snýst ekki bara um hann heldur miklu meira um fólkið í kringum hann sem stöðugt þarf að vera viðbúið að sinna sínu mikilvæga hlutverki hvað sem á dynur.

Tveir leikarar, Kári Viðarsson og Víkingur Kristjánsson fara með öll hlutverkin, sem eru fjölmörg og það er líf í tuskunum að skipta um búninga og hárkollur. Ekki spillti fyrir hvað mig varðar að persónurnar byggðu allar á raunverulegu fólki og ég þekkti vel til á Snæfellsnesi á þeim tíma. Mér fannst þetta alveg óborganlega skemmtilegt.

Frystiklefinn er í skemmu sem aldrei var ætlað það hlutverk að hýsa leikhús. Húsnæðið er hrátt en um leið notalegt á sinn hátt. Klefinn var fullsetinn þetta kvöld og ég gat ekki betur heyrt en að allir skemmtu sér hið besta. Það var enginn viðvaningsbragur á þessu verki enda fagfólk á ferðinni. Sumar rullurnar tókust afar vel, t.d. fór Kári á kostum í hlutverki áströlsku konunnar sem ætlaði að nota tækifærið og fá far út í geim af því hún hafði verið svikin í ástum. Víkingur var einnig mjög trúverðugur í hlutverkum Hrefnu (konu Skúla Alexanderssonar) og Drífu Skúladóttur, móður Kára.

Það sem var skemmtilegast við þetta leikrit er að maður upplifir að það er eitthvað nýtt á ferðinni. Ég fékk þessa sömu upplifun í vetur þegar ég horfði á Tengdó í Borgarleikhúsinu. Þegar slíkt gerist er gaman að eldast.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 5
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 67
  • Frá upphafi: 188995

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 47
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband