7.4.2013 | 18:48
Útlagi:Jakob Ejersbo
Það er mikill munur á góðum og vondum bókum og ég hef oft reynt að skilgreina fyrir sjálfri mér hvað það er sem gerir útslagið. Ég hef því miður enn ekki komist að niðurstöðu en held þó að það hafi eitthvað að gera með hjartað.
Var að ljúka við bók Jakobs Ejersbo, Útlagi, og er ekki í neinum vafa um að það er góð bók. Bók sem kemur við mann, breytir manni og hverfur ekki úr huga manns þótt lestri sé lokið. Þó er ekki hægt að segja annað en að þetta sé erfiður lestur.
Aðalpersóna bókarinnar og sögumaður er unglingsstúlka í Afríku, nánar til tekið Tansaníu á níunda ártugnum. Hún er hvít og foreldrar hennar tilheyra hvíta minni hlutanum sem matar krókinn á þessum umbrotatímum þegar Afríkuríkin eru í sjálfu sér orðin sjálfstæð en lýðræði og stjórnarfar stendur á brauðfótum. Sagan hefst þegar Samantha er að kveðja systur sína sem er að fara til Englands en hún er sjálf að fara í heimavistarskóla fjarri heimili sínu. Í fyrstu varð mér það á að bera þetta saman við mitt líf, ég var í heimavistarskóla á svipuðum aldri og var fjarri heimili mínu mánuðum saman án símasambands og heimsókna og vorkenndi mér ekkert. Við höfðum ekki einu sinni leyfi til að hlusta á útvarp. En þessu var ekki saman að jafna, lífið á Eiðum í gamla daga var mun tryggara en lífið á alþjóðlega heimavistarskólanum í Moshi.
Líf Samantha er að takast á við umbrota- og mótunartíma unglingsáranna. Hún er í mikilli uppreisn, hún er töff en innst inni er hún lítil, viðkvæm stúlka. Eftir því sem líður á frásögnina fáum við að vita meira um líf hennar og fjölskyldu. Alls staðar blasir við spilling, óheiðarleiki, svik og grimmd. Það er ekki nóg að eiga peninga. Fólkið hennar Samantha er ekki fært um að stýra eigin lífi, hvað þá að ala upp börn og þau eru einangruð í fjölskyldu og það er líkt á komið hjá hinum svo kölluðu vinum þeirra. Nei það er ekki hægt að jafna þessu lífi saman við lífið í Breiðdalnum í gamla daga, því þótt við þyrftum nú oft að hafa mikið fyrir lífinu þá lifðum við í tryggu umhverfi og það var passað upp á okkur.
Áfengi, eiturlyf og kynlíf eru sjálfsagðir hlutir í skólanum hennar Samantha og þótt skólayfirvöld reyni að nafninu til að hafa einhverja reglu á hlutunum er of dýrt að reka nemendur þegar foreldrarnir borga vel.
Þetta er sem sagt bók sem grípur lesandann og sleppir ekki tökum á honum. Þetta er hjartaskerandi bók en það er þess virði,
Páll Baldvin Baldvinsson þýðir þessa bók og skrifar við hana eftirmála þar sem við fáum að vita að hún er hluti af þríleik sem myndar eina heild. Það er tilhlökkunarefni að vita að það er von á fleiri bókum eftir þennan góða höfund.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 39
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 34
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.