Bjarna-Dísa:Forynja úr fortíðinni eða stúlka af holdi og blóði

Kristín Steinsdóttir 

Kristín Steinsdóttir er óhrædd við að  klæða skuggaverur fortíðarinnar í hold, þannig að þær verði þekkjanlegar og manneskjulegar í nútímanum. Í bókinni um Ljósu sem kom út 2010, fjallar hún um formóður sína og nú skrifar hún um Bjarna-Dísu sem er afturganga. Ég nota orðið skuggaverur af því að um báðar þessar konur eru litlar heimildir svo þeim bregður fyrir nánast eins og skuggum.

Sagan segir frá síðustu dögum Þórdísar Þorgeirsdóttur vinnukonu úr Seyðisfirði þegar hún fær að fljóta með bróður sínum, Bjarna, upp á Hérað að heimsækja móður sína og systur. Bjarni er reyndar að fara niður á Eskifjörð en leggur þessa lykkju á leið sína enda hægari leið en að fara beint til til Eskifjarðar, yfir Fönn eins og það var kallað. Meðan Bjarni útréttar á Eskifirði dvelur Þórdís á Þrándarstöðum þar sem móðir hennar og systir dvelja, líklega sem matvinnungar. Bjarni gistir á Þrándarstöðum á leið sinni til baka frá Eskifirði. Veðurútlitið er slæmt þegar þau leggja af stað morgunin eftir og á eftir að versna. Það er ætlunin að fara Vestdalsheiði sem venjulegast er farin upp frá Gilsárteigi sem liggur talsvert utar í Eiðaþinghá en Þrándarstaðir en þá liggur leiðin inn Gilsárdal sem er aflíðandi á fótinn. Til að komast á þessa leið frá Þrándarstöðum er strax á brattann að sækja. Í óveðrinu tapar Bjarni áttum og veit ekki gjörla hvar hann er staddur og Þórdís örmagnast og er skilin eftir grafin í fönn. Bjarni kemst við illan leik til byggða en leitarflokkur er sökum óveðurs er ekki sendur af stað fyrr en á fimmta dægri.

Á meðan að Þórdís bíður björgunar berst hún við sinn versta óvin, hræðsluna. Hún hefur alla tíð verið myrkfælin, hrædd við það sem býr í myrkrinu og birtist manni þegar minnst varir, sérstaklega þegar maður er einn og óviðbúinn. Hér dregur Kristín inn í frásögnina margar gamlar sagnir um drauga og yfirnáttúrleg fyrirbæri og hvernig þau sóttu  að fólki og sátu um líf þess. Ef ekki í raunveruleikanum þá að minnsta kosti í þeirra hugarheimi. Þórdís bíður í þröngri holunni í fönninni full  af angist. Bjarni bróðir hennar hafði skilið eftir hjá henni varninginn sem hann var sendur eftir á Eskifjörð, m.a. brennivínaskút. Í örvæntingu sinni á flótta undan djöfulskapnum  sem ásækir hana leitar hún huggunar í brennivíninu. Þegar leitarmenn loks koma á vettvang eru þeir jafn hjátrúarfullir og hún og telja að þeir hafi fundið illvætt eða afturgöngu og vinna á henni. Hér er ég líklega farin að segja of mikið.

Á ferð sinni og í fönninni rifjar Þórdís upp líf sitt. Hún hefur búið við bág kjör, þvælst á milli bæja og byggðarlaga, fyrst með foreldrum sínum og síðan ein sem niðursetningur og vinnukona. Húsbændur og höfðingjar eru harðir og vondir. Það er greinilegt með hverju hjarta Kristínar slær.  Stundum minnti frásögn hennar mig á Oddnýju Guðmundsdóttur rithöfund sem allt of fáir þekkja.

Mér fannst gaman að lesa þessa bók, hún er af mínum slóðum en stundum átti ég erfitt með að fylgja Kristínu í öllu þessu hjali um hjátrú, álfa og yfirnáttúrlega hluti. Þessir atburðir gerast í lok 18. aldar. Eiginlega finnst mér svo stutt síðan. Fólkið hennar Þórdísar Einarsdóttur langalangömmu minnar (f. 1826) hefur upplifað þessa tíma og því mögulega og trúlega talað um þessa svaðilför. Um slíka atburði snerust umræðurnar á bæjunum og þannig urðu þjóðsögurnar til. Ömmurnar segja svo barnabörnunum sínum.

Það var sem sagt gaman að lesa þessa bók og Kristínu tekst það sem hún ætlar sér það  er að láta Þórdísi, verða af holdi og blóði, glæða hana lífi. Bjarna-Dísa er sem sagt ekki afturganga lengur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mikið er ég sammála þér Bergþóra mín. Þessi saga var svo gasaleg í huga mér frá því ég var smástúlka austur á fjörðum. Mér voru örlög Dísu hugleikin - og fannst skelfilegt að hugsa til þess að kannski væri þjóðsagan um ævilok hennar sönn.

Kveðja,

Ingibjörg

I. (IP-tala skráð) 6.2.2013 kl. 18:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 45
  • Frá upphafi: 189007

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband