5.1.2013 | 23:37
Góðverk og vandinn að við að eiga peninga
Orðatiltækið að gera góðverk er þekkt í málinu. Oftast tengjum við það við það eitt að láta gott af okkur leiða. Í sumar sem leið heimsótti ég dómkirkjuna í Malaga á Spáni. Þetta er mikilfengleg gömul kirkja sem sem er grundvölluð á gamalli mosku frá dögum Mára. Enn má sjá merki þess í skreytingum að moska hefur staðið þarna á þessum grunni. Eftir að hafa skoðað kirkjuna sem er falleg, kom ég út í spánskan hvunndag. Í einskonar fordyri fyrir framan kirkjuna sátu tvær fátækar konur með börn sín og báðust beininga. Ég gekk fram hjá þeim, á eins og fleiri "ríkir" vesturlandabúar í erfiðleikum með að horfa á örbirgð svona auglitis til auglits. Ég var þó ekki komin nema örskot út á götuna þegar ég sagði við manninn minn: "Ég ætla að gefa þeim" og svo sneri ég við og gaf þeim það sem ég átti handbært af smápeningum.
Þegar biskupinn yfir Íslandi lýsti því yfir að hann hygðist beita sér fyrir söfnum meðal þjóðarinnar til tækjakaupa fyrir Landsspítalann háskólasjúkrahús, varð mér hugsað til þessa kvenna. Það er að sjálfsögðu engin nýlunda fyrir mig að kirkjan líti á það sem hlutverk sitt að aðstoða bágstadda. Sjálf hef ég oftar en ég hef tölu á gefið til Hjálparstofnunar kirkjunnar en þegar sjálfur biskupinn lýsir yfir áhuga sínum á að beita sér fyrir tækjakaupunum sama ár og ríkið hefur þó tvöfaldað framlag sitt til þess hins sama, renna á mig tvær grímur. Hver á bágt? Auk þess fannst mér votta fyrir að þau systkinin hroki, hræsni og lýðskrum væru í ferð með biskupnum, en það er kannski ekki við hann að sakast þau eru svo víða að troða sér. Eða hvað?
Það er langt síðan ég sagði skilið við Þjóðkirkjuna, það gerði ég að vel yfirveguðu máli. Ég dáist þó alltaf að trú fólks þegar mér finnst hún sönn, einlæg og heiðarleg og viðurkenni rétt fólks til að rækta trú sína. Ég hef litið svo á að hlutverk kirkjunnar væri að boða trú og vera sálusorgari og það væri ærið starf. Ég eins og fleiri hef fyrir löngu tekið það sem sjálfsagðan hlut að það sé hins opinberra, velferðarkerfis að sjá um lækningar og velferð og ég hefði verið fullkomlega sátt við það ef biskupinn hefði nefnt í ræðu sinni að það væri kannski ekki úr vegi að hækka skattaprósentna á þá sem á annað borð eru aflögu færir. Ég veit að þannig er þessum málum best fyrir komið. Ég veit líka að smápeningarnir sem ég gaf konunum við Dómkirkjuna í Malaga duga skammt, þær hefðu þurft á annarri og meiri hjálp að halda.
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (13.7.): 0
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 35
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 29
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.