Enn um Biblíulestur

Nú líður senn að lokum Biblíulestrar míns. Hóf hann á nýársdag og ætla að ljúka honum á gamlaársdag, þetta útheimti að lesa 3-4 blaðsíður dag. Mér hefur gengið sæmilega að halda áætlun, það hafa komið dagar sem mig langaði hreinlega ekki til að setjast niður með þessa stóru bók en ég lærði það fljótlega af reynslunni að það borgar sig ekki að láta safnast fyrir, því dagsskammturinn 3-4 bls. er nokkuð hæfilegt, við langan lestur ýmist tapaði ég athyglinni eða fannst þetta staglkennt, sem það auðvitað er.

Nú er ég stödd í Fyrra almenna bréfi Péturs. Mér er engin launung á því að mér hefur þótt þessi lestur  misskemmtilegur og mismikið gefandi. T.d hafði ég fyrirfram hugmyndir að Jóhannesarguðspjallið bæri af hinum guðsspjöllunum, en það fannst mér síður en svo og mér fannst Postulasagan bæði langdregin og ruglingsleg. En það lifnaði heldur betur yfir mér og Biblíulestrinum þegar ég komst í Bréf Páls.  Þau eru að vísu ólík. Páll er sannur guðfræðingur sem reynir að túlka boðskap Jesús þannig að hann nýtist fólki í raunverulegu lífi. Ég ber mikla virðingu fyrir fólki sem elskar ekki bara kenningar og svo fannst mér eins og ég kynntist líka manninum Páli. Nú er helst vitnað í Pál vegna þess sem hann segir um stöðu konunnar en ég hef aldrei heyrt því beinlínis flíkað að hann segir líka að menn eigi að vera góðir við konurnar sínar.

Eftir að hafa fylgt Páli á flakki hans um Austurlönd nær og Miðjarðarhafið og fylgst með andagift hans sem hann miðlaði söfnuðunum var það eins og stórt spor afturábak að lesa Hebreabréfið sem er afskaplega lögmálstengt. En þar er þó að finna þessa dásamlegu setningu:"Gleymið ekki gestrisninni, því vegna hennar hafa sumir hýst engla án þess að vita af." Ætli Bertold Brecht hafi lesið þetta áður en hann skrifaði Góðu sálina í Sesúan?

Ég er sem sagt að verða búin með þennan lestur og hef þegar öðlast nokkra yfirsýn yfir þetta rit, meiri en ég gerði mér vonir um við upphaf þessarar ferðar. Auðvitað geri ég mér grein fyrir að þarf meiri og ýtarlegri lestur til að skilja þessa bók og ég veit líka að það finnst margvíslegur skilningur.

Þegar ég hóf þennan lestur vakti fyrir mér að skilja hvers vegna þessi bók hefur fylgt mannkyninu svo lengi sem raun ber vitni og um leið og það gerir svo lítið með hana. Að lesti loknum er ég engu nær. Reyndar eru þetta tvær spurningar en ekki ein, líklega þarf að svara  hvorri fyrir sig. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl. Til hamingju með þennan áfanga, en því miður er Biblíulestur án þess að styðjast við menningarsögu og útskýringar á táknrænu máli Biblíunnar til hliðsjónar nokkuð gagnslaus. Mæli með því þú lesir Biblíur sem innifela slíkt og bækur fyrir leikmenn til hliðsjónar, ef þú villt lesa þér til gagns. Annars fer þetta fyrir ofan garð og neðan 90% og er yfirborðsleg lesning. Þetta var allt annar tími og allt önnur menning. Þú skilur ekki þessa bók, nærð ekki einu sinni að nema skáldskaparlegt gildi hennar til fulls, án þessa. En það er létt að verða sér úti um svona bækur. Ekki vera þröngsýn, gyðingarnir vita auðvitað best um þetta og þeirra fræðimenn. Þetta er þeirra menning (að uppruna til, hún er auðvitað margfallt ólíkari Biblíumenningu í dag en íslensk menning Íslendingasögunum, svo mikið lengra hefur um liðið...þeir hættu til dæmis að fara eftir "auga fyrir auga" nokkur þúsund árum á undan Íslendingum, sem höfðu líka slíka reglu, og í þeirra bókum er það táknrænna hvort sem er, eins og þú sérð ef þú lest með útskýringum. Auðvitað er ekkert víst þú nennir þessu, en bendi þér bara svona á þetta. Annars ertu í svipuðum sporum og maður frá frumskógum Amazon sem settist niður og horfði á Sódóma Reykjavík, las svo um Grettir sterka Ásmundarson, og reyndi síðan að skilja hvað Reykvísk menning væri, eða afhverju einhver væri enn að pæla í löngu dauðum Gretti og myrkraverkum hans. Gefðu sjálfri þér raunverulegt tækifæri. Yfirborðsmennska er fyrir verra fólk en þig og þér ekki samboðin.

Vinur (IP-tala skráð) 26.12.2012 kl. 04:26

2 identicon

Varðandi Berthold Brecht, þá er svarið JÁ. Biblían er lykilverk í skilningi á vestrænum bókmenntum. Richard Dawkins sjálfur, frægi vísindamaðurinn, hatrammasti mótstöðumaður allra trúarbragða, en menningarsinnaður engu að síður, hefur gengið svo langt að halda því fram menning ensku mælandi þjóða muni deyja út ef almenningur hætti að lesa Biblíuna, því án hennar er ekki unnt að skilja breskar bókmenntir, eða vestrænar og evrópskar bókmenntir yfirhöfuð, nema þá þessar skrifaðar endur fyrir löngu, en sem sagt ekkert eftir kristnitöku þjóðanna. Þetta er einfaldlega rétt og maður sem þekkir ekki Biblíuna getur ekki verið menntaður maður. Listrænn skilningur hans og bókmenntaskilnignur verður mun yfirborðslegri. Rétt eins og maður getur horft á ítalskt listaverk frá endurreisnartímanum sem ekki skilur táknræna merkingu til dæmis lambs út frá Biblíunni, og fínlegri trúarleg þemu, getur misskilið listaverk eða það jafnvel farið forgörðum, er ekki hægt að skilja þorra helstu bókmenntaverka vesturlanda án þess að þekkja Biblíuna talsvert vel, alla vega ekki þessar "sígildu" bókmenntir.

Vinur (IP-tala skráð) 26.12.2012 kl. 04:31

3 identicon

Mesti og öflugasti óvinur kristinnar trúar, og allrar trúar, um mikilvægi þess að þekkja Biblíuna. Hann kallar þá "barbara" sem ekki hafa lesið hana til hlýtar. http://www.youtube.com/watch?v=EJtCqjUUHG0

Vinur (IP-tala skráð) 26.12.2012 kl. 04:33

4 identicon

"Nú er helst vitnað í Pál vegna þess sem hann segir um stöðu konunnar en ég hef aldrei heyrt því beinlínis flíkað að hann segir líka að menn eigi að vera góðir við konurnar sínar."

Alveg hjartanlega sammála, alveg til skammar, minnir mann á hvernig menn fussa og sveia yfir þrælahaldi en minnast ekkert á þá þræla-eigendur sem voru góðir við þræla sína!

Hörður Stefánsson (IP-tala skráð) 26.12.2012 kl. 09:22

5 identicon

Sæl Bergþóra. Þakka þér fyrir að deila þessari reynslu með okkur. Á æskuheimili mínu var mikill munur á trúarlegri afstöðu foreldra minna. Mamma flíkaði ekki þekkingu á biblíunni en var trúuð kona. Það hentaði vel hennar hlutverki sem hjúkrunarkonu. Pabbi var með biblíufróðari mönnum, en ekki trúaður. Ég hygg að hann hafi lúslesið bibíuna til að skilja betur sitt fag, lögfræðina. Á ferðum mínum um önnur lönd hef ég verið spurður hverrar trúar ég væri. Svar mitt er jafnan að ég væri kristinn trúleysingi. Ef ég var beðinn að útskýra svarið benti ég á að Ísland hefði í mínum uppvexti verið einsleitt kristið samfélag, sem hefði í þúsund ár markast af kristinni trú, fyrst kaþólskri síðar lúterskri. Biblían var gefin út 1584 í íslenskri þýðingu. Hún hefur uppfrá því ekki síður en Íslendingasögurnar mótað mál okkar og menningu. Uppeldi mitt og mótandi áhrif kristninnar á menntun mína og mál gerði mig að kristnum manni. Á þessari sömu menntun, ekki síst á sviði raunvísinda, byggi ég þá afstöðu mína að ekki er þörf á guði, hvorki til að skilja sköpun heimsins né tilurð lífsins. Ef ekki er þörf á guði til að skilja þessar tvær mikilvægustu spurningar um tilurð mannsins sé ég ekki þörf á honum til að skilja önnur atriði er varða manninn og samfélag manna. Biblían, eins og allar aðrar bækur, er mannanna verk. Hún er sennilega sú bók sem hefur haft mest áhrif allra bóka. Á henni er byggða a.m.k. þrenn trúarbrögð, gyðingdómur, kristni og múhameðstrú. Við þurfum að lesa biblíuna til að skilja menningu okkar og rætur okkar í menningunni. Ég sé því enga þversögn fólgna í að vera kristinn trúleysingi. Að þessu leyti skil ég málflutning þess manns sem hér að ofan skrifar undir dulnefninu "Vinur", þótt ég teldi hann mann að meiri að skrifa undir fullu nafni. Ef ég skil "Vinur" rétt telur hann að gyðingar séu hættir að fara eftir "auga fyrir auga". Ekki verður séð að þessi breyting eigi við framkomu gyðingaríksisins Ísrael gagnvart palestínumönnum. Nema að hann eigi við að breytingin sé fólgin í "augu fyrir auga" og "tennur fyrir tönn".

Halldór Árnason (IP-tala skráð) 26.12.2012 kl. 13:09

6 identicon

Þakka þér fyrir andsvarið Halldór, ég geri ráð fyrir að við eigum ekki ólíkan bakgrunn í trúarmálum. Mér finnst kristinn trúleysingi vera lýsa vel mörgum sem ég þekki eða þekki til.

Við "Vina" vil ég segja þetta. Mér finnst að þú ættir að skifa undir nafni því það gera allir vinir mínir upp til hópa. Þó mér finnist eignlega ópassandi að svara nanfleysingja vil ég segja, til að fyrirbyggja misskilning, að það er óþarfi að slá því föstu að ég hafi ekki litið í einhverjar bækur við ígrundun mínar á Biblíunni. Ég ætla ekki að rekja það hér enda hef ég lagt aðaláherslu á að lesa texta Biblíunnar sjálfrar.

Bergþóra Gísladóttir (IP-tala skráð) 26.12.2012 kl. 13:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.7.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 32
  • Frá upphafi: 190363

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband