Þú ert nú meira andskotans fíflið

Jesúsa Jesúsa2

Þú ert nú meira andskotans fíflið sagði Jesúsa Palancares við viðmælanda sinn þegar það gekk alveg fram af henni hversu hann var skilningssljór. Viðmælandinn var Elena Poniatowska rithöfundur og blaðamaður, hún vann að því að skrifa sögu þessarar fátæku, alþýðukonu. Hún var heilluð af mergjuðum talsmáta hennar og vissi að hún hafði lifað mikla umbrotatíma. Elena Poniatowska var vel stæð frönsk menntakona af pólskum og mexíkóskum ættum. Hún var fædd 1932 í Frakklandi en flutti með foreldrum sínum til Mexíkó 1942. Jésúsa var fædd 1900 og því jafngömul öldinni. Hún var ein af konunum sem barðist í byltingunni þótt hún væri ekki skráð sem hermaður. Fyrst fylgdi hún föður sínum barnung og síðar manni sínum sem hún hafði verið neydd til að giftast kornung.

Þegar sem barn var þurfti Jesúsa að ganga í gegnum meiri erfiðleika og gengur að lýsa í stuttri frásögn. Fjölskylda hennar varð að yfirgefa heimahagana, til að bjarga lífi sínu. Vegna deilna um erfðamál flýr faðir hennar með konu og börn. Það verða miklar sviptingar í lífi fjölskyldunnar. Jesúsa hefur misst móður sína, systkini, föður sinn og mann fyrir, eða rétt um tvítugt. Hún hefur barist við hlið hermanna í styrjöld en að stríðinu loknu kann hún ekki að leita sér að vinnu. Hún er ólæs og þekkir  ekki einu sinni á klukku. Konan sem Elena Poniatowska hittir fyrir og tekur viðtöl við er ekki bara fátæk og ómenntuð, hún er  líka hræðilega mikill einstæðingur. En sá/sú sem hefur mikið reynt hefur lært að lifa með það. Hún hefur komið sér upp varnarkerfi, herkænsku og að því er virðist yfirnáttúrlegum brögðum til að takast á við það sem á dynur. En það hefur ýmislegt orðið undana að láta. Jesúsa hefur misst allt traust á manneskjunum, á heiminum og á Guði nema þeim Guði sem hún finnur í andatrúarkirkjunni. En þar getur hún talað beint við allt dána fólkið sem hún þekkir og fengið  huggun. 

Höfundur sögunnar dembir lesandanum beint inn í kaótískt líf Jesúsu. Það er hún, Jesúsa, sem talar allan tímann, hún segir frá ævi sinni. Það er stundum erfitt að fylgja henni, bæði eru árin orðin mörg, Jesúsa kemur víða við því líf hennar hefur ekki verið beinn og breiður vegur. Frásagan er ekki í tímaröð og svo koma margar persónur við sögu. Það sem gerir lestur bókarinnar erfiðan og snýr að mér er að ég vissi svo lítið, ég var svo ófróð um mexíkóska menningu, sögu og landafræði.

Höfundur bókarinnar leggur áherslu á að bókin sé skáldsaga en ekki ævisaga. Hún notar viðtölin við Jesúsu sem efnivið í sögu sem hún hefði aldrei  getað skrifað án hennar. Hér segir bláfátæk kona frá lífinu eins og það snýr að henni með sínum eigin orðum. Í fyrstu var ég efins um að bókin gengi upp en allt í einu fannst mér að ég þekkti þessa konu, mér fannst ég finna hjá henni takta sem ég þekkti frá annarri konu sem ég þekkti einu sinni vel. Undir lokin sá ég líka ýmislegt sameiginlegt með henni og mér, þó ekki orðbragðið.

Þessi bók hefur ekki bara  gefið mér tækifæri til samlíðunar með einstakri konu, hún hefur líka frætt mig mikið um land og þjóð sem ég þekkti svo lítið, sérstaklega hefur hún kennt mér margt um hlutskipti fátæklinga, um kúgun og ofbeldi. Ég veit þó að ég er ekki fróðari en svo að ef ég hitti Jesúsu, kannski í andatrúarkirkjunni, myndi hún trúlega segja við mig: Þú ert meira andskotans fíflið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband