Kertin brenna niður: Ekki öll gömul gildi, góð gildi

Bókin Kertin brenna niður kemur út árið sem ég fæðist 1942 í Ungverjalandi, hún er skrifuð meðan styrjöldin geisar af manni að nafni Sándor Márai sem sjálfur hefur upplifað aðra grimma styrjöld. Þegar ég hóf lestur bókarinnar hafði ég einhverjar væntingar um að bókin færði mér einhvers konar skilaboð eða uppgjör við stríð. Sándor Márai er fæddur í austurrísk- ungverska keisaradæminu, hann var af saxneskum uppruna en móðir hans var ungverskmælandi. Hann tilheyrði efna- og yfirstétt þess tíma og vann sem blaðamaður og rithöfundur. Hann kaus að skrifa á ungversku en skrifaði einnig á þýsku. Fæðingarstaður hans er nú í Slóvakíu. Hann kaus að búsetja sig í Ungverjalandi en flutti síðan úr landi vegna yfirtöku kommúnista.

En aftur að bókinni. Sögusvið bókarinnar er Miðevrópa á blómatíma austurríska- ungverska keisaradæmisins. Hún segir frá því þegar gamall maður sem býr í höll býður til sín æskuvini sínum sem hann hefur ekki séð í 40 ár. Í kringum þetta rifjar húsráðandi, sem er fyrrverandi hershöfðingi, upp æsku sína og þó einkum vináttu sína við gest sinn. Þeir eru báðir fæddir á síðari hluta 19. aldar og höfðu kynnst í herskólanum í Vín sem ungir drengir og verið óaðskiljanlegir öll æskuárin. Sagan er eitt samfellt samtal en það er eiginlega bara einn sem talar, hershöfðinginn og gestgjafinn, því væri kannski nær að kalla þetta einræðu. Ræða hans fjallar um vináttu, karlmennsku, ást og um hugsanleg svik.

Það hafði verið mikill aðstöðumunur hjá þessum tveimur drengjum, sonur lífvarðarforingjans, hershöfðinginn er efnaður, vinurinn pólskur fátæklingur. Sonur lífvarðarforingjans þarfnast vinar, því hann er veikbyggður og lasinn og það er honum lífsspursmál að eignast vin. Fátæki pólski drengurinn græðir á þessu, eða það gæti maður haldið. En hann er ekki bara fátækur, hann er með sérgáfu í tónlist sem er um leið veikleiki hans. Hvað er slíkur maður að gera í herskóla? En þegar þeir sitja sem gamlir menn í höll hershöfðingjans er fátt sem minnir á litla veika drenginn, það er eins og það sé komin allt önnur persóna til sögunnar.

En það er trúlega til lítils að segja þessa sögu því það er ekki sagan sjálf heldur stíllinn og hvernig hún er sögð sem skapar galdurinn. Langar og nákvæmar lýsingar á umhverfi einkenna söguna. Það er ekki atburðarásin sem skiptir máli í sjálfu sér heldur hugmyndir sögumannsins um gömul gildi, vináttu, karlmennsku, ást og tryggð.

Satt best að segja hrökk ég oft við vegna þessara gömlu gilda. Ég gat ekki betur séð en að rasismi í einhverju fegruðu formi og kvenfyrirlitning væru veigamiklir þættir þessa gildismats. En auðvitað er þetta gamall maður og barn síns tíma en hvergi örlaði á gagnrýnni afstöðu höfundar, að mér fannst.

Það hefnir sín greinilega að hefja lestur bókar á fölskum forsendum. Gamli maðurinn í bókinni saknaði ekki bara æsku sinnar, vináttu og ástar, sem honum fannst hann vera svikinn um, heldur saknaði hann fyrst og fremst horfins heims, stórveldis austurríska-ungverska keisaradæmisins. Einhvers staðar las ég að það hefðu fallið 20 milljón manns í í fyrri heimstyrjöldinni og 62 milljónir í þeirri síðari (það er deilt um þessar tölur og enginn mun nokkurn tíma vita hversu margir dóu). Það er ekki nema eðlilegt að ég hugleiði að maður sem upplifði slíkt myndi segja eitthvað gegn stríði.

Ég geng út frá því að höfundur sé að einhverju leyti að segja sögu síns fólk, sína sögu og minnir mig á annan mann sem ég las mér til mikillar ánægju á sínum tíma; Elías Canetti. Hann er líka að segja frá horfnum heimi þjóðahrærunnar í Evrópu á tímum keisaradæmisins. En frásaga Canettis fékk mig aldrei til að hrökkva við vegna þess að yfirstéttadramb þessa tíma gengi fram af mér.

En þetta er sem sagt afar vinsæl saga sem hefur fengið lof virtra gagnrýnenda út um allan heim. Hjalti Kristgeirsson færir okkur þessa sögu og snýr henni á íslensku. Hvernig gat þessi bók farið fram hjá mér þegar hún kom út hér árið 2005? Mér fannst orðfærið á bókinni stirt og kenndi það þýðingunni. Það er alltaf vandi hvernig á að flytja skáldverk sem er ort á tungumáli sem hefur aðra byggingu yfir á annað mál. Ég sé að Hjalti hefur verið tilnefndur til þýðingarverðlaunanna fyrir einmitt þessa bók.

 Er eitthvað að mér?

En það eru margir gullmolar í þessari bók, þeir fóru ekki fram hjá mér. Samtal fóstrunnar og hershöfðingjans er sláandi: "Hvað viltu þessum manni? Spurði fóstran. - Fá fram sannleikann, sagði hershöfðinginn. Sannleikann þekkir þú sjálfur (segir fóstran). Nei ég þekki hann ekki segir hershöfðinginn. ... Víst þekkir þú staðreyndirnar, sagði fóstran...Staðreyndir eru ekki sama og sannleikur svaraði hershöfðinginn". Fóstran er yfir nírætt og hershöfðinginn er yfir sjötugt þegar þetta samtal fer fram. Það er líklega út í hött að vera að ergja sig á íhaldssemi og forstokkuðu gildismati. Svona var Evrópa þessa tíma. Hefur eitthvað breyst?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 31
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband