Minni spámennirnir

Nú hef ég loks lokið við lestur Gamla Testamentisins og velti fyrir mér hvernig menn meti hverjir séu stórir eða litlir spámenn. Ef marka má texta Biblíunnar frá 2011 (Hið íslenska Biblíufélag, JPV útgáfa) er mælikvarðinn hversuu langorðir eða stuttorðir menn eru. Ég hafði kannski ekki velt þessu svo mikið fyrir mér áður en einhvern veginn myndað mér þá skoðun að stærð eða mikilfengleiki spámanns mótaðist frekar af því sem hann hefði að segja og/eða hversu miklivægan boðskap hann flytti.

Minni spámennirnir eru tólf talsins og allir karlkyns. Þeir heita Hósea, Jóel, Amos, Óbadía, Jónas, Míka, Nahúm, Habakkuk, Stefanía, Haggaí, Sakaría og Malaki. Þeir eru hver með sínu móti, þeir móttaka boðskap sinn ýmist í gegnum beint samtal við Guð eða þeir sjá sýnir eða dreymir drauma. Þeir eiga það sameiginlegt að þeir lifa á efiðum tímum og þeir hafa miklar áhyggjur af þjóð sinni. Það virðist ekki fara á milli mála að þeir telja að hörmungarnar sem dunið hafa yfir Júda og Ísrael stafi af því að þjóðin hafi gerst honum fráhverf og af því hann elskar þessa þjóð/þjóðir einstaklega mikið. Það þarf því að blíðka Guð og standa við sáttmálann sem hann gerði við Móses á sínum tíma. Þótt þetta virðist vera aðalbjargráðið þá bregður oft fyrir ásökunum í garð annarra þjóða sem hafa ýmist kúgað eða svikið Ísrael. Einn spámaður, Amos, hellir sér yfir a.m.k átta þjóðir aukn þess sem hann fordæmir stórveldin. Óbadía einbeitir sér að því að úthúða einni þjóð. En þetta eru magnaðir textar þótt sé síður en svo létt að setja sig inn í hugarheim þessara manna, svo ég tali ekki um draumfarir þeirra eða sýnir. Satt best að segja fannst mér meira til þeirra koma en stóru spámannanna sem voru hræðilega langorðir og oft endurtekningasamir.

Ég held að ég haldi mest upp á Míka af þessum tólfmenningum. Hann er skýr, boðar dóm og endurlausn. Í framtíðarlandinu/ríkinu mun Guð, "dæma meðal margra lýða og skera úr málum voldugra þjóða langt í burtu. Og þær munu smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum, engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð, og ekki skulu þær temja sér hernað framar". Jóel boðar þveröfugt:"Búið yður í heilagt stríð...Smíðið sverð úr plógjárnum yðar og lensur úr sniðlum yðar".

Nú þegar Gamla Testamentið er búið sný ég mér að því nýja. Ég er örlítið á eftir áætlun en kem til með að vinna það upp því nú tekur við texti sem ég þekki betur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Biblían er táknmál, sem ekki er hægt að skilja bara út frá bókstafslegu sjónarmiði. Ef þú þekkir ekki kabbalah fræðin, þá geturðu ekki skilið Biblíuna yfirhöfuð. Ef þú villt síðan fá alvöru útlistanir á þessu, sem skíra hlutina í dýpra ljósi, og sjá sögulega samhengið skírt, þá þýðir ekkert að leita til fáfróðra guðfræðinga heldur þeirra einna sem hafa þekkt þessi fræði í þúsundir ára og hafa fullkomið vald á frummálinu. Það er orðið hægt í dag. Ég er bara að vara þig við,...það er jafn gáfulegt að tala um "hinn hefnigjarna Guð" og að afgreiða ritverk Shakespears með "Hamlet var vondur maður". Nú er ég ekki að segja að það sé ekki eitthvað dýpra og meira á bak við Biblíuna en Shakespeare, en orð þín eru jafn barnaleg, og koma málinu jafn lítið við. Svona tala bara þeir sem ekki þekkja.

Einhver (IP-tala skráð) 1.10.2012 kl. 21:28

2 Smámynd: Helgi Ingólfsson

Einkar skemmtilegt, já, eiginlega frábært, þetta Biblíublogg þitt, Bergþóra. Sammála þér í greiningunni á hinum óbilgjarna, eigingjarna og grimmlynda ættbálkaguði. Ég held að fleiri ættu að lesa "manúalinn", svo að farið geti fram upplýst umræða um trúmál. Í denn plægði ég mig í gegnum mestallt torfið, af athygli um Mósebækur og Konungabækur, en ég játa að hafa skautað heldur hratt í gegnum spámannabækurnar, m.a. af því að mér fundust þær langar og endurtekningarsamar. Ætli það hafi ekki farið eftir friðar- eða ófriðarástandinu þarna fyrir botni Miðjarðarhafs á hverjum tíma, hvort menn hafi smíðað sniðla úr sverðum sínum eða öfugt? (Hver skollinn annars er eiginlega sniðill? Er það ekki bara sigð?)

 -----

En til hamingju - nú ertu líklega búin með um 80%. Og vitaskuld eru guðspjöllin skömminni skárri lestur en Gamla testamentið, þótt þau séu fjórar útgáfur af sömu ævisögunni og þrjár þeirra samstofna, þ.e. innbyrðis skyldar. Sjálfum finnst mér alltaf Postulasagan skemmtilegasta rit Biblíunnar - eina sagan sem rís almennilega undir nafni. Þar hengir Júdas sig, þar varpa tveir nýliðar hlutkesti um hvor skuli fylla skarð hans, þar er hinn myrki Sál (síðar Páll) fyrirferðarmikill og svo er líka nóg af limlestingum, grýtingum og aftökum þar. Já, og meira að segja göldrum, sbr. Simon Magus, sem svonefnt símoní (embættissala kirkjunnar) er kennt við. En, æ, ég er að upplýsa umfram efni og taka af þér spennuna, fyrirgefðu.

-----

Eftirtektarvert annars það sem þú hefur eftir spámanninum Jóel: "Búið yður í heilagt stríð...Smíðið sverð úr plógjárnum yðar og lensur úr sniðlum yðar". Minnir mig dálítið á ritningargreinina Matt. 10.34-39, sem kirkjunnar menn hampa sjaldan, enda segir Jesús þar: " Ætlið ekki að eg sé kominn til að flytja frið á jörð; eg er ekki kominn til að flytja frið, heldur sverð. Því að eg er kominn til að gjöra mann ósáttan við föður sinn og dóttur við móður sína og tengdadóttur við tengdamóður sína..." o.s.frv.

-----

 Góðar stundir og skemmtu þér vel við lesturinn.

Helgi Ingólfsson, 6.10.2012 kl. 02:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 49
  • Frá upphafi: 189865

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 45
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband